13.11.1934
Efri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1545 í B-deild Alþingistíðinda. (1590)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Magnús Guðmundsson:

Hv. þm. S.-Þ. hefir nú fengið eitt af sínum köstum. Hefir hann nú haldið hér ræður, sem hafa staðið eitthvað 3 stundir samtals. Mér dettur ekki í hug að svara honum í stuttri aths. Getur verið, ef maður verður svo heppinn, að hann fái kast við 3. umr., að ég segi þá við hann fáein orð, en nú hefi ég ekki tækifæri til þess, þar sem ég fæ aðeins stutta aths. Ég tók líka eftir því, að af öllu því, sem hann sagði nú síðast í 1½ klst, var ekki eitt orð um málið sjálft.

Honum hefir orðið tíðrætt um blöð sjálfstæðismanna. Ég held, að óhætt sé að segja, að hann haldi hér aldrei ræðu, sem hann vill leggja mikið í, án þess að hann minnist á blöð sjálfstæðismanna. Það sýnir, að hann er við ekkert eins hræddur og þau. Það er því óþarfi fyrir okkur sjálfstæðismenn að taka málstað okkar blaða meðan maður, sem ekki er ónæmari á það, hvað er „agitatoriskt“ en hv. þm. S.-Þ., óttast blöð okkar mest.

Ég get tekið undir það, að ég undrast, hvernig kosningin fór í Strandasýslu, en annað mál er það, hvort hæstv. forsrh. tekur það sem kompliment til sín.

Afbökun hv. þm. á orðum Jóns Þorlákssonar borgarstjóra dettur mér ekki í hug að elta uppi, en það vil ég segja honum, að hann gerir mér of hátt undir höfði, þegar hann heldur, að andstæðingar mínir verði veikir á sál og líkama af að starfa með mér. Ef svo væri, þá mundi ég óttast um hans sálarlíf, þar sem hann hefir nú starfað með mér í fjvn. í 1½ mánuð. Líkamann er ég ekkert hræddur um, en sumir læknar segja sálina veika fyrir.

Hæstv. forsrh. vildi helzt, að ég hefði þagað í þessum umr., og skil ég það vel, en ég ætla mér ekki að fara eftir því, hvers hann óskar. Ég hefi sýnt fram á, að hann hefir fengið skýlausar fyrirskipanir um að framfylgja mjólkurlögunum, fyrst skriflega 29. des. 1933 og síðan oft munnlega. Það er upplýst, að hann hefir sjálfur farið til atvmrh. og beðið hann að fresta framkvæmd þessara l., og hann hefir gert allt, sem hann gat, til að fresta lögunum og eyðileggja þau, m. a. með því að senda í ráðuneytið til athugunar skjöl úr máli, sem hann átti að dæma, út af brotum á þessum l. Þetta sýnir, hvernig hans hugur hefir verið, og þarf ekki frekar um það að ræða. Hann talaði um bréf frá því í febr. 1934, sem Stjórnarráðið sendi honum um fullnægingu hæstaréttardóms. Þar er ekki um neitt annað að ræða en fullnægingu hæstaréttardómsins. Hann segist ekki hafa fengið áður fyrirskipun um að fullnægja dóminum. Þetta er rétt. Það er ómögulegt að fullnægja dómi, sem hefir verið áfrýjað, fyrr en hæstaréttardómur er fallinn. En þetta er allt annað en að fresta framkvæmd mjólkurlaganna. Að dómi er ekki fullnægt vegna áfrýjunar, þýðir það, að ídæmd refsing verður ekki afplánuð fyrr en hæstaréttardómur er kominn. En lögunum, sem dæmt er fyrir brot á, er sannarlega ekki þar með frestað. Þetta munu allir skilja, og blekkingavefur hæstv. forsrh. kemur honum því að engu haldi.

Ég get ekki verið að skattyrðast við hann um það, hversu skýlaus séu þessi mjólkurlög frá 1933. Það stendur í l., að óheimilt sé að selja mjólkina ógerilsneydda. Síðan segir hann, að það sé svo mikill vafi, hvernig beri að skilja þessi orð, að hann þori ekki að taka á sig framkvæmd þeirra. Hver getur talið þessi ákvæði vafasöm? Skýrari fyrirmæli er yfirleitt ekki hægt að gefa, og það var ekki kjarkur, heldur vilji, sem vantaði hjá hæstv. forsrh. til að framkvæma mjólkurlögin. Það var kannske eitt rétt í því, sem hann sagði, og það var, að það hefði verið of mikil linkind að láta hann sitja kyrran í embætti.

Ég skal svo ekki hafa þessu aths. lengri, en mun koma betur að þessu við 3. umr., ef tilefni gefst til. Að síðustu vil ég benda á, að það er óviðeigandi, að hv. þm. S.-G. skyldi ekki fá áminningu fyrir það, er hann í síðustu ræðu sinni fór með svívirðingar um þjóð, sem við höfum mikil viðskipti við. Þetta á ekki að vera svo það er hættulegt þessu landi, og ég álít, að hæstv. forseti — það er ekki sá, sem nú er í stólnum — hefði ekki átt að láta það óátalið.