13.11.1934
Efri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1547 í B-deild Alþingistíðinda. (1591)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Jón Baldvinsson [óyfirl.]:

Það er með hálfum huga, að ég ræðst í að taka til máls eftir þessar miklu deilur, sem fram hafa farið og kallaðar hafa verið umr. um mjólkurmálið. Ég vil þó aðeins, áður en málið fer til atkvgr., gera ofurlitla grein fyrir afstöðu okkar Alþýðuflokksmanna.

Hv. 2. þm. Rang. las hér upp nokkur orð eftir mig úr umr. um mjólkurmálið á aðalþinginu 1933, til þess að sýna, að ég hefði verið andstæðingur þess frv., sem þá lá fyrir. Það, sem hann las þar, hefir sjálfsagt verið rétt upp lesið. Ég var þá ásamt öðrum Alþfl.mönnum á móti því frv., sem þá lá fyrir, en á því var mjög mikill munur og þessu frv., sem nú er til umr., eins og menn geta augljóslega séð með því að bera l. frá 1933 saman við þetta frv. Í l. frá 1933 er gert ráð fyrir algerðu einveldi framleiðendanna yfir mjólkurverðinu. Í þeim l. átti að skipa 5 manna n., og þar af gátu neytendur í hæsta lagi búizt við að fá tvo. Ef við athugum frv., þá sést, að neytendur eiga að skipa tvo, framleiðendur tvo, og ráðh. einn. Við skulum segja, að sá ráðh., sem nú fer með landbúnaðarmál, skipi mann, sem tilheyrir bændastéttinni og fylgi framleiðendum að málum. En um leið og stj. skipar þennan formann, þá ber hún beinlínis ábyrgð á gerðum meiri hl. n., ef hann framkvæmir eitthvað með þeim manni, sem stj. skipar, en af hinna hálfu eiga neytendur og framleiðendur að hafa jafna aðstöðu, enda er það eðlilegt, og ég skil ekki í þeim mönnum, eins og hv. 10. landsk. og hv. 2. þm. Rang., sem reyna að koma sem ósanngjarnlegast fram í garð neytenda, reyna að gera þeirra áhrif að engu og reyna að koma málinu á þann rekspöl, að láta líta svo út, að allt gangi út yfir þá. Grundvöllurinn undir samkomulagi Alþfl. var það, að hafa fyrir augum bæði hagsmuni framleiðenda og neytenda, svo sem frekast er hægt, t. d. að minnka sölukostnað á mjólkinni og láta það ganga til beggja, eins og hv. þm. vita, af því að samkomulagið hefir verið birt opinberlega. Það er ekki von, að hægt sé á annan hátt að ná samkomulagi við neytendur en þeir hafi einhvern hlut um þetta að segja og einhvern hagnað þar af, ef þeir eiga að leggja á sig kvaðir, sem eru þó það, að undir þetta fyrirkomulag falla allir þeir menn, sem hafa komið upp búum í grennd Rvíkur og gert það að verkum, að miklu meiri mjólk er nú á boðstólum en áður. Þess vegna mótast afstaða mín gagnvart þessu frv. af þeim ástæðum, að tekin hefir verið til greina sú uppástunga, sem Alþfl. hafði komið með. Allur blær l. frá 1933 er í þá átt, að framleiðendur ráði lögum og lofum um allt skipulagið. Þess vegna var það meira að segja svo, að fundir í fjarlægum héruðum áttu að geta samið skipulag um sölu mjólkur í Rvík og Hafnarfirði, og verður ekki annað séð en að þeir hafi átt að geta ráðið öllum kröfum um heilbrigðisstjórn á sölu mjólkurinnar, öðru en því, sem tekið er fram í l. um gerilsneyðingu. En þess hefir oft verið krafizt, að heilbrigðisstj. hafi eitthvað að segja um sölu mjólkur, t. d. hvernig búðirnar skuli útbúnar o. s. frv.

Ég segi það enn, að ég er undrandi yfir þeirri till., sem er á þskj. 407 frá minni hl. landbn., þar sem þeir minna á að þess sé vænzt, að framleiðslan njóti til fulls þess hagnaðar (PM: Lesa lengra!), er leiða kann af breyttri tilhögun mjólkursölunnar, a. m. k. að svo miklu leyti, sem þarf til þess, að framleiðslan geti borið sig.

Ég geri ráð fyrir, að þeir meini, að framleiðendur eigi að njóta hagnaðarins að fullu, en þetta er ekki rétt, einkanlega af því að hagsmunir bænda, til langframa krefjast þess, að verð mjólkur lækki frá því, sem nú er. Hagsmunir bændu krefjast þess, að verðið á þessari vöru lækki til munu frá því, sem nú er, því að þá má búast við þeim möguleika, að meira verði keypt af mjólk. Hinsvegar má líta á það, að þeir menn, sem selja mjólk sína innan takmarka bæjarins og þykir hart að sér gengið, að verða að borga verðjöfnunarskatt, eru jafnframt með því verndaðir gegn því, að bændur lengra að dembi mjólk sinni á Rvíkurmarkaðinn og fari í mjólkurstríð, svo að mjólkin lækki óeðlilega í verði.

Við höfum fallizt á það, að bændur fái viðunanlegt verð fyrir mjólk sína, því að alþýðan í kaupstöðunum á mikið undir því komið, að bændum vegni vel, og auk þess er það stefna okkar og vilji að sýna öllum stéttum réttlæti.

Hv. frsm. meiri hl., þm. S.-Þ., sem talaði hér f. h. meiri hl. n., en þó mest fyrir eigin reikning, var að tala við hv 1. þm. Skagf. um það, að sjálfstæðismenn hefðu átt að taka í útrétta hönd jafnaðarmanna um bæjarbúskap meðan tími var til. Ég lýsti yfir því í umr. í fyrra, að ég teldi bæjarsölu á mjólk heppilegustu leiðina, en þá yrði bærinn jafnframt að reka bú sjálfur, til þess að geta jafnan ráðið yfir ákveðnu mjólkurmagni og ákveðið verðið. En vitanlega var engrar samvinnu að vænta um slíkt frá sjálfstæðismönnum, enda tekur tíma að koma slíku skipulagi á. En ég vil taka það fram, af því að hv. frsm. var að gefa í skyn, að við jafnaðarmenn ætlum okkur að fresta þessu stefnumáli í bili, að það er skoðun Alþfl. eftir sem áður, að bæir, sem hafa, aðstöðu til þess eins og Reykjavík hefir, eigi svo fljótt sem unnt er að hverfa að bæjarbúskap og bæjarsölu á mjólk.

Ég vil geta þess út af þeirri brtt., sem komin er fram frá minni hl. landbn., að í fyrra, er mjólkurlögin lágu fyrir, lagði Jón í Stóradal ríka áherzlu á að gæta þess í lagasetningunni að þvinga málið ekki fram gegn vilja neytendanna. En hv. 10. landsk. er einmitt að gera sitt til að vekja óánægju neytendanna með lögin, með því að bera fram brtt. þess efnis, að engin von sé til þess, hversu mikið sem sparast kann á skipulaginu, að neytendur njóti þar nokkurs góðs af.

Ég mun fylgja frv. óbreyttu, því þótt ég hafi skrifað undir nál. með fyrirvara, þýðir það ekki, að ég muni koma með brtt., heldur það, að ég hafði ýmislegt að athuga við sumt í nál.