13.11.1934
Efri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1555 í B-deild Alþingistíðinda. (1594)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Frsm. minni hl. (Þorsteinn Briem) [óyfirl.]:

Hv. 4. landsk. komst þannig að orði, að minni hl. n. væri að espa neytendur gegn mjólkurframleiðendum með þeirri till., sem hann ber fram, að framleiðendur njóti að fullu þess hagnaðar, er leiða kann af breyttri tilhögun mjólkursölunnar, a. m. k. að mjólkurframleiðslan fái borið sig, því að frekari kröfur eru ekki gerðar í till. minni hl. Ég vil nú spyrja hv. þm. og hv. 1. þm. Reykv., hvort það horfi til hagsbóta, ef bændur geta ekki lifað á þessari atvinnu sinni, og hvað eigi til bragðs að taka, ef þeir flosna upp og flykkjast hingað í bæinn, ofan á atvinnuleysingjahópinn, sem hér er fyrir. Minni hl. hefir ekki gert till. um, að breytt verði um skipun mjólkurverðlagsnefndarinnar. Eða heldur hv. þm., að fulltrúar neytenda í mjólkurverðlagsnefnd standi sig svo ill að þeir sjái ekki um, að verðið lækki á mjólkinni, þegar séð þykir, að það er óhætt, þannig að framleiðslan geti samt borið sig?

Hv. þm. S.-Þ. má minnast þess út af ummælum sínum í minn garð, að hann komst ekki að við síðustu alþingiskosningar í Dölum. (JJ: Ég hefi alls ekki boðið mig fram þar). Hv. þm. var á ferðalagi þar um slóðir og mun ekki hafa fengið góðar undirtektir. Hv. þm. var með einhver lofsyrði í garð Tryggva Þórhallssonar, slík hræsni virðist ekki hæfa honum vel nú orðið. Hann var ennfremur eitthvað að tala um, að blað Bænd.fl. hefði verið lesið á fundum hér austanfjalls. Fundarályktanir þaðan bera vott um, að það hefir haft sín áhrif, þar sem till. blaðsins hafa verið samþ., — till., sem hv. þm. leyfir sér að kalla ósanngjarnar, þó þær fari aðeins fram á, að bændur fái það verð fyrir framleiðslu sína, að þeir geti lifað af því. Hv. þm. var annað veifið eitthvað að hnýta í mig fyrir framkomu mína í afurðasölumálunum. Í öðru orðinu sagði hann að vísu, að ég hefði farið alveg rétt að um undirbúning á skipulagi á afurðasölu landbúnaðarins. Svo að það vóg hvað á móti öðru eins og ÷ og ÷, þannig að niðurstaðan af því er = 0.

Þá spyr hv. þm., hvers vegna verðið á mjólkinni hafi lækkað niður úr 1 kr. lítr., sem það var einu sinni í. En það er m. a. af því, að framleiðslukostnaðurinn hefir lækkað frá því, sem þá var. Þá segir hann, að það sé hvergi talað um, hvað sé hið raunverulega framleiðsluverð. Veit hann ekki, að það eru alstaðar gerðar þær kröfur í hverri atvinnugrein, að hún geti borið sig. En það þýðir, að framleiðendurnir fái það verð fyrir afurðir sínar, að þeir geti lifað af því. Hver stétt þjóðfélagsins gerir þær kröfur til lífsins. Hvernig fer um þá atvinnugrein, sem ekki ber sig? Hún fellur fyrr eða síðar í rústir. Það sæmir sízt manni, sem ritað hefir um þær kenningar Karl Marx, að verð hlutanna miðist við þá vinnu, sem í þá hefir verið lögð, að tala á móti því, að bændurnir eigi að fá endurborgaða þá vinnu, sem þeir leggja í framleiðsluna.

Þá var hv. frsm. með yfirlýsingar um það, að minni hl. væri algerlega rökþrota. Þetta vill hann sanna með því, að það sé sama og vera rökþrota, að sanna málstað sinn með orðum hv. þm. S.-Þ. sjálf, sem fræðimanns, eins og hv. 2. þm. Rang. hefir svo rækilega gert með tilvitnun í ritgerð eftir þennan hv. þm. Hann vill ekkert gera með þær kenningar, sem hann hefir sjálfur haldið fram áður sem fræðimaður.

Hv. þm. segir í öðru orðinu, að ég hafi ekkert gert til úrlausnar afurðasölumálunum, en annað veifið segir hann, að málið hafi verið leyst eftir þeim leiðum, sem ég hafi byrjað á að leggja. Þessu er þarflaust að svara. Ennfremur sagði hann, að blað Bændafl. hefði áfellt stj. fyrir að skipuleggja afurðasöluna: en það er alveg rangt. Blaðið hefir einungis fundið að því, að bændum var ekki tryggður fullkominn réttur til þess að ákveða verðlag á sínum vörum. Blaðið hefir einnig sýnt fram á, að það mundi engin hætta af því stafa fyrir þjóðfélagið, þó að bændur hefðu slíkt ákvörðunarvald; þeir væru ekki svo ósanngjarnir í kröfum. — Hv. þm. S.-Þ. viðurkennir í öðru orðinu, að bændur muni flosna upp, ef þeir fái ekki hærra verð fyrir kjötið, en á hinn bóginn heldur hann því fram, að lækkun á mjólkurverðinu verði þeir að þola bótalaust, áður en dreifingarkostnaðurinn fæst lækkaður frá því, sem hann hefir verið.

Hv. þm. hleypur úr einu í annað, eins og hann er vanur, frá austri til vesturs. Í umr. um þetta mál er hann farinn að tala um skipun skólanefndar í Dalasýslu, og heldur því fram, að ég hafi sem kennslumálaráðh. skipað formann skólanefndar frá pólitísku sjónarmiði á síðastl. sumri. Nei, þessar getgátur hv. þm. eru alveg út í loftið; ég hagaði mér eftir till. fræðslumálastjóra. Annars hefi ég ekki orðið þess var, að mönnum þætti það neitt hnossgæti að vera í skólanefndum. Margir skólanefndarformenn óskuðu eftir því, að þeir yrðu ekki skipaðir aftur, og mun fáum þykja það öfundsvert starf.

Ummæli hv. þm. um samkomur í Kveldúlfsportinu eru margtuggnar hér á Alþingi og koma mér ekki við. En það var annað í þessu sambandi sem ég vildi víkja að. Hv. þm. notaði þetta tækifæri til að svívirða erlenda þjóð, sem við Íslendingar höfum viðskiptasamninga við. Það er ekki venja á löggjafarþingi þjóðarinnar að fara ófrægingarorðum um aðrar þjóðir, hvernig sem stjórnarhættir þeirra eru. Og undraðist ég það, að hæstv. forsrh. skyldi ekki gefa hv. þm. aðvörun um þetta í tæka tíð, áður en svo langt var gengið. Annars hefði slík aðvörun einnig átt að koma úr forsetastóli.

Þá vildi hv. þm. reyna að telja mönnum trú um, að fyrrv. 1 landsk. hefði haft einhverja sérstaka ást á mér. Ég hygg, að menn hafi ekki annað þurft en að hlusta á útvarpsumr. 1933 til þess að sannfærast um, hversu sú ást var heit.

Þá leyfði hv. þm. sér að halda því fram, að það væri rangminni hjá mér, að Tryggvi Þórhallsson hefði viljað setja landbúnaðarmálin á oddinn síðastl. haust. Hann ætlar að reyna að telja hv. þd. trú um, að Tryggvi Þórhallsson hafi ekki í því sambandi viljað setja landbúnaðarmálin ofar öllum málum, þrátt fyrir það, þó allur þingheimur viti, að hann hefir alltaf viljað setja þau öllum öðrum málum ofar.

Hvað hv. þm. er að rausa um sýslumanninn í Vík í Mýrdal, kemur þessu máli náttúrlega lítið við. Það má vera, að sýslumaðurinn hafi verið svo klókur, að hann hafi séð, að það var bændaflokksmanni heldur til óvirðingar að vera bendlaður við þann hluta Sjálfstfl., sem sérstaklega hefir verið nefndur á Tímamáli Reykjavíkuríhald. Sýslumaðurinn hefir því viljað nota sér það til þess að reyna að spilla fyrir 3. landsk. á fundi, sem haldinn var í Vík.

Hv. þm. vill enn halda því fram, að það, sem ég hefi gert í janúar- og febrúarmánuði hafi ekki verið gert fyrr en með vorinu, og það var að heyra á honum, sem afurðasölunefndin hefði ekkert nýtt gert í málinu. Ég hygg, að menn þurfi ekki annað en að bera saman það frv., sem afurðasölunefndin skilaði um þetta mál, og kjötsölumálið við þær uppástungur, sem áður höfðu fram komið, til þess að sannfærast um, að hún vann mikið og gott verk, og á sá ekki vanþakkir skilið, sem hefir skipað hana. Hv. þm. var að kenna mér um það, að ekki hefðu verið tilnefndir menn í n. fyrr en undir lok marzmánaðar. Ég hygg, að hann hafi gert það óvart, því ég var áður búinn að taka það fram, að Samband ísl. samvinnufélaga hafði ekki treyst sér til þess að nefna frá sinni hendi fulltrúa fyrr en einmitt í mánaðarlokin.

Hv. þm. var að tala um það, að okkur hinum leiddist að tala um heildarútlit málsins, eins og hann orðaði það. Nei, okkur hefir ekkert leiðzt að hlusta á missagnir hv. þm. og útúrdúra. Þeir hafa lýst hv. þm. svo ákaflega vel, og það verð ég að segja, að hann er töluvert interessant persóna, ekki sízt þegar maður kynnist honum frá fleiri en einni hlið. En það er annað, sem honum sjálfum leiðist, og það er að kryfja málin til mergjar, leggja vinnu í það að athuga efnið, svo að hann þekki málin til hlítar. Þess vegna þyrlar hann upp hverjum ósannindavefnum á fætur öðrum, og þess vegna leiðist honum að tala um málið sjálft, og svo hefir verið nú.