09.10.1934
Efri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1180 í B-deild Alþingistíðinda. (1603)

15. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

Magnús Jónsson:

Ég get að einu leyti verið sammála þessu frv. Það er að því leyti, að samkv. því og bráðabirgðalögum frá 8. marz s. l. má telja, að hin víðtæku innflutningshöft séu framkvæmd löglega.

Ég hefi alltaf haldið því fram og fengið það viðurkennt, að meðan innflutningshöftin voru byggð á l. frá 1920, voru þau ólögleg. Þau lög heimila aðeins að takmarka innflutning á óþörfum varningi eftir skýringu fjhn. En eftir þessum lögum hefir svo stj. tekið sér heimild til að takmarka innflutning á öllum mögulegum varningi. Það verður að teljast framför hjá stj., að nú játar hún þó, að innflutningshöftin verði að styðjast við lög.

Hinsvegar skal ég taka það fram, að skoðun mín á málinu hefir hvergi haggazt. Ég er sannfærður um, að þessi höft eru þjóðinni ekki til þess gagns, sem formælendur þeirra álíta, að þau séu. Ég er nú á undanförnum þingum í sambandi við þetta mál búinn að endurtaka við margvíslegar umr. þau veigamiklu rök, sem tala á móti höftunum. Ég hefi játað, að höft eins og þessi gætu gert gagn í svip, ef það kæmi fyrir, að snögglega steðjaði að okkur gjaldeyrisskortur. Þá væri hægt með höftum að neyða verzlanirnar til þess að hætta í bili innkaupum, meðan þær væru að selja þær birgðir, sem fyrir eru í landinu, m. ö. o. eyða varasjóðnum, en áhrifunum er lokið jafnskjótt og varasjóðurinn er tæmdur. Þá velur kaupgetan sér aðrar leiðir, og útkoman verður hin sama eins og engin innflutningshöft hefðu verið. Óhagstæður greiðslujöfnuður er mein, og til þess að lækna hann, þarf að fara sömu leið og gera þarf um öll mein, - það þarf að þekkja ástæðurnar fyrir þeim. Það þýðir ekki að stífla á, á sandi, hún rífur bara stífluna, eða fær sér útrás annarsstaðar. Óhagstæður greiðslujöfnuður stafar æfinlega at sömu orsök, þeirri, að þjóðin lifir um efni fram, sem kemur af því, að innlenda kaupgetan er að einhverju leyti fölsk. Kaupgetan leitar sér útrásar, og afleiðingin verður sú, að það er keypt meira á erlendum markaði heldur en seldar vörur hrökkva fyrir. Á þessu meini er til aðeins ein lækning, og hún er sú, að minnka kaupgetu almennings. Það getur stundum verið dálítið harkaleg aðferð, má kannske kalla það „hrossalækningu“, en það er þó eina ráðið, sem að gagni kemur. Áður en menn skildu þetta viðskiptalögmál, urðu afleiðingarnar af falskri kaupgetu þær, að peningar viðkomandi lands féllu í verði. Áður en bankaviðskipti hófust lýsti það sér í því, að kóngar og þjóðhöfðingjar þeirra, sem áttu hina verðrýru peninga, blönduðu peningana með ódýrari málmi; menn muna eftir rauðleitu peningunum frá þeim tíma. Eftir að bankaviðskipti hófust, þá var tekin upp önnur aðferð til þess að minnka kaupgetuna, - peningarnir voru felldir í verði. Það er ekki langt síðan pund sterling, mark, franki, peseta og líra giltu hið sama, en þegar peningarnir rýrnuðu í verði kom mismunurinn fram. Meðan frjáls viðskipti voru í algleymingi, framkvæmdu bankarnir þessa lækningu á þann hátt, að hækka og lækka vexti. Við hækkunina kom að sönnu kyrkingur í viðskiptin, peningar í umferð minnkuðu og kaupgeta fólksins minnkaði, en allt lagaðist. Ég skal ekki neita því, að þetta sé hálfgerð „hrossalækning“, en þarna var áreiðanleg bót ráðin á meininu.

Þar, sem innflutningshöft hafa verið reynd til þess að bæta óhagstæðan greiðslujöfnuð, hafa komið fram ákaflegar misfellur á viðskiptalífinu. Stærsta misfellan er sú, að stórkostleg dýríð hefir skapazt í því landi. Þetta frv. sýnir endamark haftastefnunnar. Það er byrjað á því, að banna ónauðsynlegar vörur, aðallega glingur og barnagull og þess háttar. En reynslan hefir sýnt, að það gerði lítið gagn. Peningarnir eru látnir fyrir aðrar vörur. Svo eru fleiri vörur bannaðar, en peningarnir flýja á þær vörutegundir, sem ekki eru bannaðar. Svo kemur endamark haftastefnunnar, að banna allar vörur, setja allt undir lás. Það er tilgangur þessa frv. Ef það á virkilega að lánast að loka alveg fyrir innflutning vara, þá verður að setja alvalda nefnd, sem hefir vald og getu til þess að banna hvað sem henni sýnist. Ég hefði gaman af að sjá, hvernig það tekst. Ég er ekki í neinum vafa um það, hver afleiðingin verður. Hún verður sú, að allar vörur stíga óheyrilega í verði, kaupgetan yrði lokuð inni og allt hækkar. Vaxandi dýrtíð vegna innilokaðrar kaupgetu, en það er ekkert annað en grímuklætt gengisfall peninganna. Nú þarf engu að spá um afdrif þessa frv. Þessi lög verða knúin fram af meiri hl. Alþingis, en þau ná ekki þeim tilgangi, sem ég var nú að lýsa. Þó hæstv. fjmrh. þykist ætla að loka öllum dyrum, þá bara tekst honum það ekki. Það standa einar dyr alveg galopnar. Það eru þær dyr, sem aðrar þjóðir neyða okkur til að láta stunda opnar. Við erum sem sagt ekki einir í veröldinni. Við verðum að selja öðrum þjóðum okkar vörur, og þær þjóðir, sem kaupa af okkur, þær heimta að fá að selja okkur sínar vörur. Við erum ekki sjálfstæðir gagnvart öðrum þjóðum í viðskiptamálum; við verðum að neyðast til að semja við þær. Ég veit ekki betur en að Spánverjar hafi nú sett okkur stólinn fyrir dyrnar. Og hvar erum við settir, ef þeir neita að kaupa okkar vörur, nema við kaupum af þeim þeirra vörur? Og sú krafa þeirra mun ekki eingöngu vera miðuð við þeirra framleiðsluvörur. Ég veit ekki betur en að Spánverjar geti útvegað okkur allar tegundir á vörum, en það, sem við höfum upp úr því að kaupa af þeim, er það, að við fáum að borga drjúgum meiri gjaldeyri fyrir þær þar en annarsstaðar. Hér standa opnar dyr til þess að flytja inn allar vörur, en þær vörur verða bara óhentugri og dýrari en þær yrðu að öðrum kosti.

Við skulum taka t. d. bifreiðar. Mér er kunnugt um, að bifreiðar hafa verið fluttar inn frá Suðurlöndum, en þær munu bara vera dýrari en þær eru í frjálsri verzlun.

Ég er ákaflega hræddur um, að þessi nýju höft, framkvæmd af þessu dýra skrifstofubákni, hafi þær einu afleiðingar, að vörur verði dýrari og að við fáum ekki aðeins hlutfallslega minni vörur fyrir okkar gjaldeyri, sem kostnaðinum nemur og þær verða keyptar dýrari á erlendum markaði, heldur miklu meira en hlutfallslega dýrari.

Hæstv. ráðh. svaraði andmælum mínum við 1. umr. fjárl. á þá leið, að aukin útgjöld á fjárl. hefðu engin áhrif á greiðslujöfnuðinn. Þetta sýnir mjög ljóst vanþekkingu hans á því, hvað það er, sem veldur óhagstæðum greiðslujöfnuði. Hæstv. ráðh. ætti að vita slík undirstöðuatriði í viðskiptamálum, að þeir peningar, sem komast í hendur þjóðarinnar fyrir aukin útgjöld ríkissjóðs, breytast í kröfu á erlendan gjaldeyri. Þessir peningar verða notaðir til þess að kaupa vörur hjá kaupmönnum og heildsölum. Mjög há gjöld ríkisins verða til þess að auka kaupgetuna í landinu og kalla á meiri innflutning á vörum. Þau fjárlög, sem hæstv. ráðh. ber nú fram, fara því algerlega í bága við tilraunir hans í þá átt að gera greiðslujöfnuðinn hagstæðan.