17.11.1934
Efri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1197 í B-deild Alþingistíðinda. (1619)

15. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Ég get orðið mjög fáorður, m. a. af því, að ég heyrði ekki nema lítið af ræðu hv. 1. þm. Reykv., og einkum vegna þess, að hæstv. fjmrh. hefir tekið af mér ómakið að svara honum, og svo í þriðja lagi af því, að því litla, sem ég heyrði af ræðu hans, kom lítið nýtt fram. Það voru bara endurtekningar á því, sem áður hefir komið fram, svo ef ég færi að svara því, væru það þara endurtekningar í því, sem ég hefi áður sagt. Það var þó eitt atriði, sem ég heyrði, sem ég þarf að gera aths. við. Það var út af því, sem við minntumst á þennan sérfræðing, sem hv. þm. segir, að hafi skrifað álit Verzlunarráðs Íslands, og í sambandi við það minntist ég á álit bankanna í þessu máli. Hv. þm. vildi gefa í skyn, að á þeim fundi, sem fjhn. sat með bankastjórunum, hafi ekki komið annað fram en það, sem beinlínis horfði að bönkunum sjálfum. Þetta er ekki alls kostar rétt. Málið í heild lá fyrir til umr. á þessum fundi, sem við héldum með bankastjórunum, og ef þeir hefðu verið á móti stórvægilegum atriðum í frv., eins og því að hafa innflutninghöft, þá skil ég ekki annað en það hefði komið fram. Fjhn. sendi líka bönkunum þetta beinlínis til umsagnar, og með nál. meiri hl. n. er prentað bréf frá Landsbankanum, þar sem hann beinlínis felur sig frv. fylgjandi með þeim breyt., sem nú eru á því orðnar. Og þó Útvegsbankinn hafi ekki beinlínis sent n. skriflegt svar, þá held ég, að það megi ráða hans afstöðu í þessu máli af því, að einn af bankastjórum hans á sæti í fjhn. þessarar. d. og hefir skrifað undir nál. meiri hl. n. og leggur til, að frv. nái fram að ganga með þeim breyt., sem nú eru á því orðnar. Ég verð því af þessum sökum að telja, að bankarnir hafi beinlínis lagt með þessu máli. Og hvað það snertir, sem kom fram hjá hv. þm., að þetta væri ekki svo mikið að marka, vegna þess, að þeir hafi aðeins haldið sig við þau atriði, sem snerta þá sérstaklega, þá held ég það liggi í hlutarins eðli, að slíkt getur ekki átt sér nokkurn stað, a. m. k. ekki hvað aðalþjóðbankann snertir. Ég veit þá ekki, hvernig hann skilur aðstöðu sína, ef hann álítur þetta mál ekki koma sér afarmikið við í heild sinni. Það er þjóðbankans vitanlega að hafa forystuna í viðskiptamálum þjóðarinnar út á við, og þess vegna hefði honum verið skylt, ef hann hefði séð eitthvað athugavert við þetta mál, að benda þinginn á það.

Þá heyrði ég eitthvað af því, sem hv. þm. var að tala um menn, sem kynnu að flytja inn vöru án þess að hafa tryggt sér gjaldeyri fyrir hana; það væru 1ögbrotsmenn, og þó einhverjir brytu 1., þá gæti það út af fyrir sig ekki komið óorði á þjóðina, og þau verzlunarhús, sem lánuðu slíkum mönnum, væru annaðhvort óhlutvönd eða heimsk. En ég er nú hræddur um, að reynslan sýni dálítið annað. Það, sem er mergurinn málsins í þessu, er, að reynslan yrði án efa þannig í flestum tilfellum, að varan fengist greidd. Bankarnir treystust ekki til þess. þegar svo væri komið, að neita um gjaldeyri. Svo væri þetta kannske, þegar til kæmi, óþörf vara, og afleiðingin yrði sú, að þörf vara fengist ekki innflutt, vegna þess að gjaldeyri fyrir hana vantaði.

Hv. 1. þm. Reykv. var að tala um það síðast í ræðu sinni, að á þessu þingi hefði orðið fjármálabylting. Ég ætla ekki að fara út í þetta frekar, en ég fyrir mitt leyti get ekki séð þá fjármálabyltingu. Það er engin veruleg reynsla komin á um það ennþá á þessu þingi, hvernig t. d. fjárl. ríkisins fyrir næsta ár verða afgr., og ég hefi æfinlega heyrt, að það hafi hin mestu áhrif á lánstraust og álit þjóðanna í fjármálum, hvernig þær ganga frá fjárl. sínum, og auðvitað líka hvernig þeim tekst að framfylgja fjárl. Maður hefir frétt það, og það frá fleirum en einu landi, að þar, sem stjórnunum hefir ekki tekizt að koma forsvaranlegum fjárl. gegnum þingið, þá hefir það orsakað fall þeirra. Það er, eins og ég hefi áður tekið fram, ekki fengin um það reynsla ennþá, hvernig þessu þingi tekst að ganga frá fjárl. fyrir næsta ár, en ég fyrir mitt leyti verð enn sem komið er að hafa góða von um, að það verði a. m. k. gert eins sæmilega og verið hefir undanfarin ár. Úr þessu verður reynslan að skera. Ég er ekki í neinum efa um það, að einmitt það, hvernig tekst til með afgreiðslu þingsins á fjárl. og framkvæmd stj. á þeim, mun hafa mest að segja um það, hvaða álit aðrar þjóðir hafa á okkur í þessum efnum.