10.12.1934
Sameinað þing: 20. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2839 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

Kosningar

Hannes Jónsson:

Ég skal halda mig við efni þess máls, sem fyrir liggur, þó að hv. þm. S.Þ. hafi gengið hér í svefni um stund og látið sig dreyma allskonar fjarstæður um kosningu mína í V.-Húnavatnssýslu. Út af því, sem hv. þm. sagði, má ráða það, að hann og hans flokkur er fyrirfram ákveðinn í því að halda opinni leið til þess að beita órétti hér á Alþingi bæði nú og framvegis. Að vísu sér hv. þm., að hann gefur það ekki í þetta sinn, af því að flokkur hans getur ekki komið nema einum fulltrúa í nefndina, og samstarfsflokkur hans líka einum fulltrúa. En það, sem við Bændafl.menn vildum sérstaklega fá skorið úr, er það, hvort þingflokkarnir geta ekki fallizt á að hlíta þeirri reglu, hvernig sem á stendur um þingmannatölu í flokkunum, að hver flokkur skipi einn mann í nefndina. — Ég skal t. d. benda á það, að ef Alþfl. hefði nú einum þm. færra á Alþingi, þá væri hægt með valdi að útiloka flokkinn algerlega frá því að hafa mann í n. Þetta er svo augljóst, að ekki þarf um það að deila. Ég skal ennfremur benda á það, að ef Sjálfstfl. hefði haft einum manni færra í þinginu en nú er, þá væri hægt, með samtökum hinna flokkanna, að bola honum frá að hafa nema 1 mann í n. Hlutföllin á milli flokkanna þurfa yfirleitt ekki mikið að raskast frá því, sem nú er, til þess að hægt sé að veikja liðstyrk þeirra í n., eins eða fleiri.

Þegar Alþfl. kom að manni í ráðgjafarnefndina, þá var það gert á þeim grundvelli, að það væri réttur flokksins að hafa þar fulltrúa, en atkvæðamagn hans réði þar engum úrslitum. Og ekki var það af því, að Framsfl. afsalaði sér rétti til fulltrúavals í n., þó hann gæti þá komið þar tveimur að. En ég geri ráð fyrir, að hv. þm. S.-Þ. hafi þá verið að gera það, sem rétt var. Eða var þetta afsal réttinda þá frá hendi Framsfl.? Nei, ég held, að það hafi ekki verið byrjað á neinu afsali þá.

Ég þakka hv. þm. G.-K. fyrir þá yfirlýsingu, sem hann gaf frá sínum flokki; ég skildi það svo, að það væri meining hans, að þetta væri réttlætismál.

Ég skal geta þess, að þegar þetta mál kom fyrst á dagskrá, þá sneri ég mér til hæstv. forseta Sþ. og óskaði eftir áliti hans flokka á þessu máli, en það er nú þegar fram komið frá flokksbróður hans, hv. 2. þm. Reykv., og er það dálítið öðruvísi en svar hv. þm. S.-Þ.

Alþfl. kemur hreint fram í málinu og viðurkennir sama rétt gagnvart Bændafl. eins og áður var gert af Framsfl. gagnvart Alþfl. En ef það hefir ekki átt að vera réttlæti, þá var það a. m. k. liðið, að Alþfl. fengi mann í nefndina. Annars skilst mér, að hv. þm. S.-Þ. sé búinn að gleyma þessu, sem gerðist 1927, þegar kosið var í ráðgjafarnefndina.