17.11.1934
Efri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1198 í B-deild Alþingistíðinda. (1620)

15. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Ég þarf aðeins að gera stutta aths. Hæstv. fjmrh. sagði, að mjög væri breytt viðhorf okkar sjálfstæðismanna, og þá sérstaklega mitt, þar sem ég hefði alltaf verið andvígur innflutningshöftum, en sé nú með gjaldeyrishöftum, og hann lýsti því jafnframt yfir, að þau mundu í stórum dráttum verka eins og innflutningshöft. Það er stefnubreyting að því leyti, að ég var lengi vel á móti gjaldeyrishöftum, vegna þess að þær verzlunarpólitísku ástæður voru ekki, sem nú eru fyrir hendi og neyða mann algerlega til þess að fá stj. í hendur ráð til þess að beina viðskiptunum til þeirra þjóða, sem við erum samningum bundnir um viðskipti.

Um það atriði, hvernig gjaldeyrishöftin verki sem innflutningshöft, er það að segja, að þau verka talsvert á annan hátt heldur en innflutningshöft. Það er ekki þannig, þegar gjaldeyrishömlur eru, að menn þurfi að sækja um leyfi til þess að fá að flytja inn vörur fyrir 1 til 2 hundruð krónur, eða greina nákvæmlega frá því, hver varan sé. Viðskiptin eru frjálsari undir gjaldeyrishöftunum einum heldur en innflutningshöftunum líka. Ég veit t. d. ekki betur en að Danir hafi haft gjaldeyrishöft lengi, en aftur á móti ekki viðskiptahöft. Gjaldeyrishöft koma út sem innflutningshöft að því leyti, að allir sómasamlegir kaupmenn telja sér skylt að tryggja sér gjaldeyri áður en þeir panta vöruna. Það eru til innflutningshöft í hverju landi, sem eru án allrar lagaþvingunar, sem sé þau höft, sem eru á öllum kaupsýslumönnum um að panta ekki nema þá vöru, sem þeir treysta sér til þess að greiða á sínum tíma. Sá er munurinn, að þegar engin höft eru, þá eru það aðeins viðskiptin ein, sem takmarka sig sjálf að þessu leyti. Nú verður, auk þess að þessi höft eru sett, að fyrirskipa, að aðeins ákveðin stofnun megi verzla með gjaldeyrinn. Það er þess vegna svo, að ástand þess tíma, sem nú stendur yfir, hefir leitt mann út í að viðurkenna ýmsar hömlur, sem ekki var ástæða til þess að hafa áður, meðan öll verzl. yfirleitt í veröldinni var frjáls.

Annars verð ég að segja það, að ég er mjög hissa á því, hvað menn geta verið viðvarandi í trú sinni á ráðstafanir, sem búið er að beita meira og minna strangt á annan áratug, en sækja þó alltaf á lakari hliðina. Hér hafa verið innflutningshöft, sem hafa verið framkvæmd ennþá strangara en lög standa til, en þó hefir greiðslujöfnuðurinn stöðugt orðið lakari og lakari. Hvers vegna eru þessar blessunarríku ráðstafanir ekki búnar að bjarga okkur fyrir löngu síðan? Það er af því, að þær grípa ekki á kýlinu. Jafnhliða innflutningshöftunum er með nýjum lánum flutt inn í landið fölsk kaupgeta, og jafnframt aukast ósýnilegu greiðslurnar, sem engin innflutningshöft ráða við.

Ég veit ekki, hvort ég á að fara út í það, sem hv. frsm. meiri hl. sagði hér, en viðvíkjandi því, að hann lagði svo mikið upp úr áliti bankanna í þessu efni, þá verð ég að segja, að álit bankanna er ekki beinlínis þannig í þessu efni, að maður þurfi að láta líða yfir sig vegna þess. Einu sinni voru t. d. innflutningshöftin samþ. eftir ósk Landsbankans, en rétt á eftir voru þar samþ. mótmæli gegn þeim. Í þetta skipti er það samþ. með litlum meiri hl., „að bankastjórarnir séu samþykkir aðaltilgangi frv.“. En aðaltilgangur frv. er, að það þurfi að hafa gjaldeyrishömlur og líka að draga þurfi úr innflutningi. Ég álít, að gjaldeyrishömlur einar nái þessum tilgangi og að frv. mundi alveg fullnægja bréfi bankastjóranna, þó að mínar till. yrðu samþ. Annars sögðu bankastjórar Landsbankans það á þessum fundi, að þeir skiptu sér aðallega af því í þessu máli, sem beinlínis snerti þeirra starf. Útvegsbankinn hefir ekki látið neitt álit uppi í þessu máli, og viðvíkjandi þessum eina bankastjóra Útvegsbankans, sem fylgir frv. hér á Alþingi, er það kunnugt, að hann og hans flokkur hefir verið algerlega andvígur innflutningshöftum. Það er samsuðan við Framsfl., sem hefir gert það að verkum, að þeim hefir snúizt hugur.

Það verða alltaf tækifæri til þess síðar að ræða við stj. um það, sem ég sagði um útlitið í fjármálum landsins. En viðvíkjandi þeirri yfirlýsingu hæstv. fjmrh., að stefna stj. væri að auka kaupgetu í landinu og jafnhliða að bæta greiðslujöfnuðinn, þá er það alveg eins og að segja, að maður ætlaði að eyða miklu meiru, en bæta samt fjárhag sinn. Það eina ráð, sem mannkynið hefir fram að þessu fundið sem ráð til þess að bæta greiðslujöfnuð sinn, er að draga úr eyðslu. Það er ekkert annað ráð til. Það, að auka eyðsluna og bæta samhliða greiðslujöfnuðinn, er bara fjarstæða, sem hæstv. fjmrh. getur aldrei breytt yfir með því að segja, að hann ætli að beina kaupgetunni inn á við o. s. frv. Þegar innlend kaupgeta er fyrir hendi, þá skiptir hún alltaf um vasa og skilar sér æfinlega í auknum kröfum á erlendan gjaldeyri. Hún getur farið milliveg, en hún skilar sér æfinlega þannig. Ef ég fæ t. d. aukna kaupgetu, og í staðinn fyrir að kaupa frá útlöndum, kaupi innanlands, þá ganga þeir peningar ef til vill milli 2 eða 3 manna, en endirinn verður samt sá sami, - krafa á erlendan gjaldeyri. Það má spyrja bankastjórana um þetta. Þeir geta ekki lánað trygga víxla eða trygg lán, af því að lánin koma æfinlega fram sem krafa á erlendan gjaldeyri. Þess vegna mun stj. stefna út í aukin vandræði með greiðslujöfnuð, ef hún ætlar sér að hafa þá stefnu, að auka kaupgetuna innanlands, eins og hæstv. ráðh. taldi æskilegt að gera.