21.11.1934
Efri deild: 44. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1568 í B-deild Alþingistíðinda. (1638)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Bernharð Stefánsson:

Það eru örfá orð. Mér skildist á hv. 1. þm. Reykv., að hann væri að gefa í skyn, að reikningar Mjólkursamlags Eyfirðinga væru falsaðir. Hann notaði ekki þau orð, en ummæli hans þýddu ekkert annað en það, því að þetta, sem hann var að tala um, að aka til reikningum, þýðir ekkert annað en að hér sé um fölsun að ræða. Þetta kom einnig fram við 1. umr. þessa frv. og var þá rækilega rekið til baka af hv. samþm. mínum. Og nú kemur hv. þm. með þetta enn. Það þýðir ekkert um þetta að þrátta, en ég vil skora á hann, ef hann meinar þetta, að hér sé um reikningsfölsun að ræða, að hann endurtaki þessi orð sín utan þinghelginnar í votta viðurvist, og þá skal hann fá að standa við þau á þeim vettvangi, sem við á. Ég fullyrði, að þessi stofnun — sem er að vísu deild í K. E. A. — hefir sitt sérstaka reikningshald algerlega aðskilið frá öllum öðrum rekstri félagsins. Það borgar sinn hluta af skrifstofukostnaði og stjórn félagsins o. s. frv.

En hvað þessum prófsteini viðvíkur, sem á hér að leggja fyrir okkur, þá hefi ég aldrei fullyrt það, að það tækist endilega að gerilsneyða mjólk hér í Rvík fyrir sama verð og í Eyjafirðinum, því að þar getur ýmislegt komið til greina, t. d. hagsýnni stjórn en hér er hægt að koma við.

Sem sagt, erindi mitt nú var ekki annað en þetta, að ef hv. þm. vill halda þessum dylgjum áfram, þá skora ég á hann að gera það á þann hátt, að koma megi fram ábyrgð á hendur honum, því að það eru þungar sakir að bera það á atvinnufyrirtæki, að það falsi reikninga sína.