21.11.1934
Efri deild: 44. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1568 í B-deild Alþingistíðinda. (1639)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Jón Baldvinsson [óyfirl.]:

Hér hafa nú komið fram nokkrar brtt. við þetta frv., og er kallað, að þær séu frá landbn. Þetta vil ég leiðrétta, því að ég stend ekki að þessum brtt. Þó að ég væri á fundi, þegar þetta kom til n. og sæi þessar till., þá hafði ég ekki ástæður til að vera viðstaddur, þegar meiri hl. n. tók afstöðu til þeirra og kallaði síðan, að þær væru frá landbn.

Ég skal geta þess, að ég mun ekki geta greitt atkv. með brtt. 523,l, við 2. gr., því að þar er hert á ákvæðum frv. að því er snertir þá, sem hafa kýr í kaupstöðum, þar sem er ætlazt til, að menn greiði verðjöfnunargjald, sem er miðað við 3000 lítra ársnyt á kú hverja, en í frv. eru það 2500 lítrar, auk þess sem sá maður, sem hefir eina kú og hefir ekki fullræktaðan 1 hektara lands, yrði að borga talsvert verðjöfnunargjald af þeirri mjólk, sem hann notar til heimilis síns, en það er ekki meiningin með l. Ég vil því fara fram á það, þó að þetta sé 3. umr., að þessi till. verði tekin aftur. Frv. þarf hvort sem er að fara til Nd., og mætti þar koma fram breyt. á þessu. Ég gæti trúað, að landbúnaðarmálaráðh. vilji tala þar við n., og geri ráð fyrir, að þar komist brtt. fram, einkum vegna þess, að 2. gr. frv., 2. málsgr., er ósanngjörn, þar sem ræðir um þá undanþágu, sem á að gilda fyrir eina kú fyrir hvern fullræktaðan hektara lands, gæti það orðið svo, ef 1. yrði framfylgt með hörku, að borga yrði verðjöfnunargjald, ef ekki væri fullræktaður hektari fyrir kú hverja.

Þá er enn við 2. gr. það sem mér finnst, að ætti að hafa takmörkun fyrir í frv., þar sem ræðir um heimild til að hækka verðjöfnunargjald, ef sérstök þörf krefur, enda komi samþykki landbúnaðarráðh. til. Það fer betur á því að hafa eitthvert hámark, sem ekki mætti fara upp fyrir, en ekki að hafa það svona ótakmarkað.

Í 4. brtt., við 14. gr., er talað um, að sekta skuli þá, sem stjórna flutningatækjum, ef þeir vísvitandi flytja ógerilsneydda mjólk. Ég vil mælast til þess, að hæstv. forseti beri upp þessa brtt. sér. Ég get ekki samþ. þetta. Það er nægilegt fyrir þessa menn, að mjólkin sé gerð upptæk, því að það mundi koma niður á þeim, sem flyttu hana, því að þeir mundu áreiðanlega ekki fá flutningsgjald fyrir þá mjólk, sem gerð yrði upptæk, og sýnist það nóg sekt þeim til handa.

Það er rétt hjá hv. 1. þm. Reykv., að það er klaufalegt orðalag um barnamjólkina. Ég geri ráð fyrir, að þetta muni taka stakkaskiptum í Nd., og mætti þá laga þetta eitthvað.

Ég mun styðja framgang þessara l., en ég vil þó ekki, að sé hert á ákvæðum frv. frá því, sem nú er, heldur sé reynt að hafa allt eins liðugt og unnt er, svo að menn sætti sig við l. í framkvæmdi þeirra.

Það er skiljanlegt, að þeir, sem framleiða mikla mjólk á bæjarlandinu, þykist verða fyrir þungum búsifjum af þessum l., þó að það verði allir að játa, að svo gæti farið, ef ekki væri gert skipulag á mjólkinni, að þeir fengju að kenna á því, ef þeir, sem framleiða ódýrari mjólk, legðu út í mjólkurstríð við þá, því að til lengdar mundu þeir ekki geta haldið uppi verðinu á mjólkinni. En ef þetta verður viturlega framkvæmt, þá verður það til gagns.