21.11.1934
Efri deild: 44. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1574 í B-deild Alþingistíðinda. (1644)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Jón Baldvinsson [óyfirl.]:

Út af andmælum mínum gegn niðurlagi 4. brtt. hafa nú tveir lögfræðingar tekið til máls, og það hvorki meira né minna en núv. og fyrrv. dómsmrh. Báðir eru þeir sammála um að greiða brtt. atkv., en segja þó báðir jafnframt, að hún sé meingölluð. Hæstv. forsrh. telur vafasamt, að hægt verði að sanna á nokkurn mann, að hann fremji slíkt brot „vísvitandi“, svo að ef þetta á að verða annað og meira en dauður lagabókstafur, hlýtur að verða að auka mjög eftirlit með þessum sökudólgum, fjölga embættismönnum, og ef til vill setja upp ríkislögreglu.

Hv. 1. þm. Skagf. sagðist ekki skilja, hvers vegna ég væri á móti henni. En í sömu andránni játaði hann, að brtt. væri alveg ómögulega orðuð. Ég verð því að álíta, að það verði a. m. k. að lagfæra brtt. þessa, og þó réttast að fella hana, því að reynslan mun sýna, að af henni leiðir aðeins eltingaleik og kostnað, en ekkert gagn.