10.12.1934
Sameinað þing: 20. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2840 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

Kosningar

Ólafur Thors:

Mér er þetta óskiljanlegt svar. Ég get ekki skilið það, að hæstv. ráðh. þurfi að ráðfæra sig við sinn flokk til þess að segja skoðun sína um það, hvort hann telji eðlilegt og heppilegt til frambúðar að leggja til grundvallar við val þessara manna þá reglu og það sjónarmið, að hver flokkur fái að ráða mann í þessa n. meðan flokkarnir eru ekki fleiri heldur en nm., enda þótt hann hafi ekki atkv.magn á þingi til þess að tryggja sér hann.

Mér skilst, að þetta geti alls ekki verið flokksmál, og það er ekkert undarlegt, þó Sjálfstfl. óski eftir því að fá umsögn hæstv. ráðh. og ýmsra ráðandi manna þingsins um það, hvað þeir telji eðlilegast, að lagt sé til grundvallar í framtíðinni við val nefndarmanna. Vilji hæstv. ráðh. ekki svara þessu, mun ég mælast til þess, að hæstv. forseti Sþ., formaður Alþfl., segi um þetta álit sitt.

Ég get ekki verið að æskja neinna yfirlýsinga frá hv. þm. S.-Þ., því það er um þetta mál eins og svo mörg önnur, að það virðist vera um seinan að ræða við hann málefnalega.