21.11.1934
Efri deild: 44. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1581 í B-deild Alþingistíðinda. (1651)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég hefi nú fengið kennslu hjá tveimur kennurum í þessu ákvæði og auk þess nokkra einkakennslu í sæti mínu, og ég held, að ég hafi komizt að því, hvað vakað hefir fyrir með því. En það er jafnrétt fyrir því, að ákvæðið verður ekki skilið, nema með útskýringum þeirra, sem það hafa samið.

En ég vildi aðallega beina orðum mínum til hæstv. forsrh. út af því, sem hann sagði um hagsmunina af því að selja gegnum mjólkurmiðstöð. Ég vil þá spyrja: Er það tryggt, að framleiðendur úr nágrenni Rvíkur, sem senda sína mjólk til gerilsneyðingar og sölu, fái hana alla selda? Ég veit ekki til, að neitt ákvæði í l. tryggi þetta. Gæti ekki komið fyrir, að mjólkurmiðstöðin seldi ekki alla mjólkina, og yrði þá að láta vinna úr henni, og gæti þá ekki komið fyrir, að þeim halla yrði jafnað á mjólkina, þannig að í raun og veru sé framleiðendum ekki tryggt, að öll mjólkin sé seld þessu verði?

Ég vildi aðeins spyrja um þetta. Ég viðurkenni fúslega það, sem gert er, að það var sanngirni að undanskilja nokkra framleiðendur í Reykjavík þessu verðjöfnunargjaldi, en mér finnst þessi ívilnun koma misjafnt niður, þannig að maður, sem hefir fengið sinn blett fyrir löngu síðan og er búinn að koma honum í rækt, getur sloppið við þetta gjald, en annar, sem hefir fengið sinn blett útmældan síðar og er aðeins byrjaður að rækta hann, verður að greiða þennan skatt. Þetta er ekki sanngjarnt, þó ég játi, þegar litið er á heildina, að þetta sé talsverð undanþáguheimild. Það var þessi ívilnun, sem lokkaði þessa menn í Nautgriparæktarfélaginu til þess að ganga inn á þessi ákvæði. Menn eru hræddir við þessa löggjöf, sem er að dynja yfir þá, og verða því glaðir hverjum sólskinsbletti, sem þeir geta fundið og ganga því í hræðslu sinni inn á þetta. En hvað viðvíkur því, að þeir standi við sín loforð, þá gera það allir góðir drengir, og ég er sannfærður um það, að ef fleiri ívilnanir verða gerðar í garð þeirra, sem framleiða mjólk í Rvík, með vissum skilyrðum, þá muni þeir standa við þau skilyrði. — Ég held, að það sé langaffarasælast fyrir málið að ná bara fullu samkomulagi um þetta fyrirkomulag, og ef það svo reynist eins ágætt eins og hæstv. forsrh. hefir trú á, stefnir í þá átt, að menn koma af fúsum og frjálsum vilja í samtökin. Ég ætla að vona, að þetta verði vandlega íhugað og alveg rólega, án þess að láta nokkuð annað komast að en það, sem er farsælast fyrir málið, áður en það er endanlega afgr. frá þinginu.