24.11.1934
Neðri deild: 45. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1585 í B-deild Alþingistíðinda. (1658)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Pétur Ottesen:

Ég vil einungis gera þá fyrirspurn til hæstv. dómsmrh., hvort nú sé búið að ákveða verðjöfnunarsvæðin. Það er nfl. svo, að með núv. orðalagi frv. er það lagt á vald þeirrar n., sem um framkvæmd þessara l. á að sjá, að ákveða verðjöfnunarsvæðin. Og tiltölulega lítil trygging felst í frv. eins og það er nú fyrir þá menn, sem úr nokkurri fjarlægð hafa notið markaðs í Rvík, að þeir fái að njóta hans eftirleiðis. En mér finnst sjálfsagt að ganga þannig frá þessum l., að það sé fyllilega tryggt, að þessi þeirra réttur til markaðsins hér, sem þeir nú eru búnir að afla sér, verði eigi skertur. Ég átti nokkurt tal um þetta atriði við hv. landbn. Ed., sem málið hafði til meðferðar, en ég tel, að betur þurfi og tryggilegar frá þessu að ganga heldur en gert hefir verið í Ed. Og auðvitað eru möguleikar til þess hér undir meðferð málsins í d. En mér þykir skipta dálitlu máli, hvort nú þegar er búið að afmarka verðjöfnunarsvæðin.