24.11.1934
Neðri deild: 45. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1591 í B-deild Alþingistíðinda. (1665)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

því ég þurfti að vera við atkvgr. í Ed. En ég vil þó gera aths. við nokkur þau atriði, sem ég heyrði. Það er þá fyrst við þá setningu í ræðu hv. þm., þar sem hann sagði, að Reykvíkingar hefðu einhvern einkarétt á sölu mjólkur í bæinn, hefðu 1. veðrétt í markaðinum. En þetta er hreinn misskilningur. Það er ómögulegt að útiloka, að mjólk utan af landi streymi til Rvíkur, ef sæmileg aðstaða er til flutninga, nema samþ. lög um aðflutningsbann. Ef menn hafa leyfi til að bjóða mjólkina hver í kapp við annan, er ómögulegt að halda uppi verðinu. Því verður að takmarka framboðið með verðjöfnuði. Þetta verður að viðurkennast. Og ég veit um bónda með stórt bú, er telur sér hag að því að selja mjólkina í 3 staði undir því skipulagi, sem nú er, heldur en í marga staði eins og áður var.

Önnur mótsetning kom fram hjá hv. 5. þm. Reykv., er hann talaði um mjólkurlögin. Hann sagði, að það yrði að taka tillit til þess, að Reykvíkingar yrðu að fá hátt verð, því framleiðslan væri þeim svo dýr. Umboðsmenn Rvíkur komast nefnilega alltaf í mótsögn í þessum málum, því neytendurnir, sem eru meiri hl. kjósendanna, vilja fá ódýra mjólk, en framleiðendurnir þurfa að selja dýrt, og hagsmunirnir stangast þannig. — Ég vil svo undirstrika sem mín síðustu orð, að því er haldið fram, að þeir, sem búa á landi Rvíkur, eigi ekki að greiða verðjöfnunargjald, og að ekki eigi að þvinga þá til að flytja sína mjólk í sölumiðstöð. En hvernig búast þessir menn við, að hægt sé að halda mjólk utan Rvíkur burt af markaðinum, ef Reykvíkingar vilja ekkert til þess vinna að fá að sitja fyrir honum? Þetta er ómögulegt nema með aðflutningsbanni. — Og það er ómögulegt nema þeir, sem að betri markaðinum búa, láti nokkuð af mörkum til verðjöfnunar. Ég staðhæfi, að Reykvíkingum hefir verið sýnd fyllsta sanngirni í þessu máli, og að lengra hefir verið gengið þeim til ívilnunar en alstaðar annarsstaðar, þar sem hliðstæð löggjöf hefir verið sett. Er því óþarfi að hreyfa því hér í hv. d., að þar hafi ekki verið sýnd sanngirni, því það er algerlega rangt.