13.12.1934
Neðri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1592 í B-deild Alþingistíðinda. (1669)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Málið er orðið svo þaulrætt hér á þingi, að ekki þarf margt um það að segja. Tilgangur þess er að gera mjólkurframleiðendum mjólkina verðmætari en nú er, án þess að íþyngja neytendum í kaupstöðum. Eftir þá miklu mjólkurlækkun, sem komið hefir verið á smátt og smátt síðustu 10 árin, er svo komið, að slíkt ósamræmi er nú milli framleiðslukostnaðar og söluverðs, að margir framleiðendur ganga frá skiptunum með meiri eða minni skaða.

Til þess að ná þessu takmarki hefir aðallega verið bent á tvær leiðir. Önnur er sú, að skipuleggja mjólkursöluna og fækka mjólkurbúðunum í bænum, sem gleypa alltof mikinn hluta af útsöluverðinu. Úr þessu á að bæta með því að koma á samsölu á mjólkinni og jafnframt fækkun útsölustaðanna. — Annað ólag á mjólkurverzluninni hefir verið í því fólgið, að menn hér í nágrenninu hafa keppt svo hver við annan að koma mjólkinni út, þegar of mikið hefir verið framboðið, með því t. d. að bjóða alltaf hærra og hærra sölugjald og á þann hátt verðfellt hana smátt og smátt fyrir sér og öðrum án þess að útsöluverðið lækkaði. Og á sama tíma og yfirfullt hefir verið á markaðinum, svo að vinna hefir þurft úr mjólkurafgangunum hér í nágrenninu, hafa austanbúin oft með ærnum kostnaði, t. d. í ófærð að vetrinum, verið að berjast við að flytja mjólk til bæjarins, þó að þau hafi ekki fengið upp úr því nettó nema vinnsluverð, eða tæplega það. Með þessari löggjöf er hugsað að koma á verkaskiptingu milli þessara manna. Þeir, sem framleiða mjólk hér í nágrenninu, sitja fyrst og fremst að mjólkurmarkaði hér, og hinir verða að víkja af markaðinum, nema meiri mjólkur sé þörf. En þeir taka aftur að sér að vinna úr mjólkinni aðrar vörur eftir þörfum. En til þess að skapa nokkurn jöfnuð, verða þeir, sem sitja að markaðinum og njóta þannig hlunninda umfram hina, að leggja á sig nokkrar kvaðir, til þess að bæta hinum upp það, sem þeir missa. Það er verðjöfnunargjaldið. Þó er ákveðið í frv., að nokkur hluti þeirrar mjólkur, sem framleidd er hér í kaupstaðnum, skuli undanþegin verðjöfnunargjaldinu að nokkru leyti. Þessir menn fá þannig að vísu forréttindi fram yfir aðra, sem selja til bæjarins. Um þetta hefir mikið verið deilt, en ég álít, að þetta sé sanngjarnt. Mjólkurframleiðsla hér á bæjarlandinu er dýrari en í nærsveitunum og austanfjalls. Það mætti auðvitað halda því fram, að það væri rétt að stuðla að því að framleiða mjólkina þar, sem það væri ódýrast, án sérstaks tillits til staðhátta. En á meðan svo er háttað um samgöngur, að það geta verið langir kaflar á veturna, sem ómögulegt er að komast með mjólk á markaðinn reglulega og í tæka tíð, þá verður að vera til mjólk, sem alltaf má grípa til, á réttum tíma. Það er því sjálfsagt, á meðan þannig er ástatt, að tryggja þá mjólkurframleiðslu að mestu, sem nú er í bæjarlandinu, svo að hún geti verið sem varasjóður fyrir bæinn, þegar ekki er hægt að flytja mjólkina lengra að. Af þessu leiðir, að það verður að tryggja framleiðendunum hér hærra verð en þeim, sem fjær búa. Á sama hátt má segja, að framleiðslan sé dýrari í nágrenni Rvíkur en í hinum frjósömu sveitum austanfjalls, og ef nýmjólkurframleiðslan á að þrífast þar, þá verður mjólkin, sem þar er framleidd, að vera í hærra verði en sú mjólk, sem framleidd er austanfjalls. En nauðsynin fyrir því, að mjólkurframleiðslan geti þrifizt þar er sú hin sama og ég minntist á áður. Sú mjólk er nær hendi, og það er venjulega tryggt, að hægt er að ná í hana fljótlega, þó að samgöngur teppist austur yfir fjallið. Mjólkin, sem framleidd er á bæjarlandinu, er öruggust, er samgöngur teppast; þar næst mjólkin í nærsveitunum. Þess vegna verða neytendur að leggja á sig þá kvöð að borga hana því verði, að það svari kostnaði að framleiða hana, þó nokkuð sé hærra en á þeirri mjólk, sem framleidd er fjær, en stundum getur verið ókleift að ná í tæka tíð. Það verður að tryggja það, að í nágrenni Rvíkur og nærsveitunum geti þrifizt svo mikil nýmjókurframleiðsla, að bærinn sé aldrei mjólkurlaus. Mjólkurverðlagsnefnd verður að gera sér grein fyrir þessu.

Ég skal svo fara út í brtt., sem n. hefir orðið sammála um. Það stendur að vísu á þskj. 737, að brtt. séu frá meiri hl. landbn., en um meginhluta þeirra stóð n. öll saman. Það voru tveir nm., sem vildu ganga lengra, og hafa þeir flutt brtt. á þskj. 749, en ég ætla ekki að fara út í þær fyrr en frsm. minni hl. hefir talað fyrir þeim.

Fyrsta brtt. er við 2. gr., að á eftir orðunum „ef sérstök þörf krefur“ í síðari málsl. fyrri málsgr. komi: Þó aldrei meira en allt að 8%. — Samkv. l. á verðjöfnunargjaldið að vera minnst 5%, en svo má hækka það, ef þörf krefur, en það er ekki tiltekið, hvað mikið má hækka það. En samkv. brtt. má það ekki fara upp úr 8%. Þetta er því svipað hámark og er í kjötsölulögunum. Ég hygg, að það komi aldrei til, að það þurfi að fara upp úr 8%. — B-liður brtt. er við 2. gr., að á eftir orðunum „fullræktaðan hektara af túni“ í síðari málsgr. komi: og hlutfallslega fyrir brot úr hektara. — Ákvæðið um það, að mjólk úr jafnmörgum kúm og maðurinn á fullræktaða hektara skuli vera undanþegin verðjöfnunargjaldi, gildir, þó að ekki sé um heilan hektara að ræða. Ég býst við, að meiningin hafi verið þessi, en það er ekki tekið fram í frv., og þótti okkur því rétt að koma með brtt. um það. — Svo er c-liður brtt. um það, að aftan við sömu málsgr. bætist nýr málsliður: Undanþága þessi nær þó eigi til hærra verðjöfnunargjalds en 5%. — Með þessu er átt við það, að ef verðjöfnunargjaldið fer upp úr 5%, þá kemur sú hækkun á mjólk, sem undanþegin er verðjöfnunargjaldi. Andmæli hafa komið fram gegn þessu utanþings, og býst ég við, að um þetta verði rætt síðar í d., og mun ég ekki ræða um það að sinni.

Meginbreyt. er við 5. gr. frv., en þar er gert ráð fyrir því, að allir, sem framleiða mjólk í Rvík, séu skildir til að selja hana gegnum mjólkursölumiðstöð. Öllum þessum mönnum er nú gefinn kostur á að velja um, hvort þeir vilja selja mjólk sína gegnum sölumiðstöð og verða aðnjótandi þeirra hlunninda að vera undanþegnir því að greiða verðjöfnunargjald, eða að selja mjólkina ógerilsneydda beint og greiða verðjöfnunargjald. Margir af mjólkurframleiðendum í Rvík hafa komið til landbn. og óskað eftir því, að þetta ákvæði næði fram að ganga og fullyrt, að framkvæmd l. myndi verða miklu vinsælli, ef þetta næði fram að ganga. N. féllst á að leggja þetta til. En ég er sannfærður um, að ef vel tekst til um samsöluna, þá munu flestir eða allir framleiðendur í Rvík koma inn í hana, en n. vill ekki þvinga þá til þess, en gefa þeim kost á að fara hina leiðina, ef þeir vilja það heldur. Ég geri ráð fyrir, að þetta verði mýkra í framkvæmd l., og n. leggur því eindregið til, að þessi heimild verði samþ. — B-liður 2. brtt. er aðeins formsbreyting, sem nauðsynleg er vegna efnisbreytingar, sem er orðin á c-lið gr., því að ákvæðið á við upphaf gr., en ekki alla gr. — C-liður er sjálfsögð afleiðing af a-lið 2. brtt., að undanþiggja þá mjólk, sem seld er beint, frá því að vera gerilsneydd. Í brtt. er ákvæði um það, að þeir, sem selja beint, verði að sætta sig við að hlíta þeim fyrirmælum um hreinlæti og hollustuhætti við framleiðslu og afhendingu mjólkurinnar, sem sett verða í reglugerð, er mjólkursölunefnd semur og landbúnaðarráðherra staðfestir. Þetta verða þeir að gera sökum þess, að þeim er leyft að selja mjólkin, ógerilsneydda.

3. brtt., við 14. gr. frv., er engin veruleg efnisbreyt., því þar eru aðeins færð saman í eitt ákvæðin um sektir gegn brotum á l. Okkur fannst betra að hafa þetta í einni gr., og sömuleiðis að hafa ákvæði um, að mjólkursölunefnd geti svipt mjólkurframleiðanda rétti til beinnar sölu til neytenda, ef henni þykir hann misbeita þeirri heimild sinni, eða nota hana gagnstætt tilgangi laga þessara, í þessari sömu gr. Það hefir komið fram hjá ýmsum, að það gæti komið fyrir, þegar menn mega ráða því sjálfir, hvort þeir selja í gegnum sölumiðstöð eða beint, að tveir menn kæmu sér saman um það, að ef annar selur í gegnum sölumiðstöð, en hinn beint, þá tæki sá, sem selur beint, nokkuð af mjólk hins og selji hana beint. En n. hlyti að geta sannfært sig um það, ef þetta ætti sér stað, og er nauðsynlegt, að reynt sé að koma í veg fyrir það, og að n. hafi helmild til þess að girða fyrir það. — 4. brtt. er lítilsháttar breyt. við 15. gr. B-liður till. er um það, að 2. og 3. málsgr. 15. gr. falli burt, og eru þau ákvæði komin í 14. gr. samkv. brtt. okkar.

3. brtt. er við ákvæðið um stundarsakir, að síðari málsgr. falli burt. Það er búið að taka það fram í 16. gr., hvenær l. eigi að öðlast gildi, og er viðkunnanlegra að láta þetta ákvæði um stundarsakir fylgja þeirri gr. um það, hvenær það eigi að öðlast gildi, og er því þetta viðlagsákvæði óþarft.

Ég held, að ég sé búinn að minnast á öll aðalatriðin, en um hinar brtt. mun ég ekki tala fyrr en flm. hafa gert grein fyrir þeim.