13.12.1934
Neðri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1595 í B-deild Alþingistíðinda. (1670)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Jón Pálmason:

Ég geri ráð fyrir, að flestum, sem fylgdust með málefnum landbúnaðarins, hafi verið ljóst, að nauðsynlegt væri að setja l. um sölu mjólkur í Rvík og í Hafnarfirði. Það er kunnugt, að svo að segja hver einasti þm. er fylgjandi því, að sett séu lög um þetta efni. Það er eðlilegt, að menn greini á um það, með hverjum hætti þetta skuli vera. Ég skal þá fyrst víkja að áliti mínu á því, hver sá grundvöllur eigi að vera, sem löggjöf um þetta efni á að byggjast á, og hver nauðsyn sé á því, að sett séu l. þar um.

Ég skal svo fara fáum orðum um það, sem hv. frsm. vék að, að brýn þörf er á því að koma á sem fyllstri verkaskiptingu milli nýmjólkurframleiðenda, þannig, að þeir, sem fjærst búa markaðinum, vinni úr mjólkinni, en hinir borgi verðjöfnunargjald, til þess að bæta þeim upp, svo að þeir keppi ekki um markaðinn við þá, sem nær búa. Annað, sem löggjöfin verður að byggjast á, er að koma verður í veg fyrir það, að sölukostnaðurinn sé eins mikill og þegar margir framleiðendur keppa um markaðinn. Þó að þessi grundvöllur sé tryggður með l., þá verður auðvitað að athuga, hve langt á að ganga í því að þvinga einstaklinga og samvinnufélög undir opinbert vald. Ég skal taka það fram, að ég tilheyri þeim flokki, sem vill leysa vandamálin með frjálsum samtökum einstaklinganna og láta ríkisvaldið ekki grípa inn í nema sérstök þörf sé fyrir hendi. Þessi skoðun kemur fram í brtt. okkar hv. þm. Ak., og skal ég nú snúa mér inn á það svið, þar sem ágreiningur er í hv. landbn. Fyrst skal ég víkja að því, að landbn. er sammála um að gera þá breyt. á frv., sem hér liggur fyrir, að mjólkurframleiðendur í bæjunum megi velja um, hvort þeir vilja selja beint og borga verðjöfnunargjald, eða hafa þá undanþágu, sem frv. gerir ráð fyrir. Ég verð að halda fast við það, að það er óeðlilegt að knýja mjólkurframleiðendur inn í samsölu og valda þeim þannig óþarfa kostnaði. Hitt er eðlilegt og réttmætt, að þeir borgi verðjöfnunargjald til þess að losna við óheppilega samkeppni frá þeim, sem fjær búa, það hefir komið fyrir, að menn í Rvík hafa orðið að vinna úr mjólk sinni, en Árnesingar hafa þá verið að brölta með mjólk sína að austan yfir Hellisheiði hálfófæra. En þetta ætti ekki að kom, fyrir, ef skipulagsins er gætt.

Stærsti ágreiningurinn milli okkar í landbn. er um hámark verðjöfnunargjaldsins. Meiri hl. vili hafa hámarkið 8%, en ég og hv. þm. Ak. viljum hafa það 6%. Það kann nú að vera, að mönnum finnist það ekki skipta miklu máli, hvort hámarkið er 6% eða 8%. En ég vil biðja menn að athuga, að hér er um töluverðan skatt að ræða á mjólkurframleiðendur í bæjunum og nágrenni þeirra. Ég ætla að fara ofurlítið út í það reikningslega. Eftir því takmarki, sem n. vill setja á ársnyt í Rvík, — en það eru 3000 lítrar á kú —, verður verðjöfnunargjaldið, ef hámarkið er 6%, 72 kr. á kú á ári, en 96 kr., ef verðjöfnunargjaldið er 8%. Ef við göngum út frá því, að takmarkið sé það, sem ég og hv. þm. Ak. stingum upp á, og ef allir framleiðendur í Rvík binda sig við þetta eina verðlagssvæði — en þessi l. hafa litla þýðingu fyrir aðra en þá, sem framleiða mjólk í Rvík og Hafnarfirði og því umhverfi, sem nær til þessara staða — og selja mjólkina beint, þá nemur verðjöfnunargjaldið, ef reiknað er með 6%, 47095 kr., því það mun láta nærri, að hér sé um 2 millj. lítra að ræða. Á svæði Mjólkurfélags Rvíkur, sem selur 2½ millj. lítra, nemur verðjöfnunargjaldið 60 þús. kr., og Thor Jensen, sem selur um 900 þús. lítra, verður þá að borga í verðjöfnunarsjóð 21600 kr. M. ö. o. verður þá verðjöfnunargjaldið, ef reiknað er með þessu hámarki, 129 þús. kr., en ef reiknað væri með 8%, 172 þús. kr. Það verður að gera sér grein fyrir því, til hvers á að nota þetta gjald og hve mikil þörf er fyrir að hafa það hátt. Verðjöfnunargjaldið verður fyrst og fremst notað til þess að bæta austanbúunum, Mjólkurbúi Ölfusinga og Mjólkurbúi Flóamanna, fyrir að flytja ekki mjólk á Rvíkur- og Hafnarfjarðarmarkaðinn. Hvað Mjólkurfélag Borgfirðinga snertir, þá er það dálítið óljóst, hver aðstaða þess verður, en ég hygg, að frekar litlar líkur séu til þess, að mikið verðjöfnunargjald verði greitt til þeirra. Orsökin er sú, að þeir sjóða niður mikið af mjólk, og það er ekki ætlazt til, að borgað sé verðjöfnunargjald á niðursuðumjólk. Og þegar svo er komið, að gert er ráð fyrir því, að Borgfirðingar og Mýramenn hafi yfir hraðskreiðu skipi að ráða, sem á að ganga milli Borgarness, Akraness og Rvíkur, þá verður auðveldara fyrir þá að selja rjóma hingað en Árnesinga, og það gæti komið til mála, að svo mikið verði flutt til Rvíkur til sölu af neyzlumjólk og rjóma, að hlutföllin yrðu svo jöfn, að ekkert gjald þyrfti að greiða til Borgfirðinga og Mýramanna. Þetta liggur ekki ljóst fyrir, og getur ekki heldur legið ljóst fyrir eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja. Hvað er mikil sú mjólk, sem austanbúin vinna úr og þyrfti að borga á verðjöfnunargjald? Eftir því, sem ég hefi komizt næst, tekur Ölfusbúið á móti 700 þús. lítrum, og Flóabúið rúmlega 1 millj. lítra ltr. ár. Eitthvað af þessari mjólk er selt eystra, a. m. k. frá Ölfusbúinu. Ef við gerum ráð fyrir, að komi til greina að borga þurfi verðjöfnunargjald af 1,5 millj. lítra, þá svarar það til, ef reiknað er með 3 þús. lítra meðalkýrnyt, að það sé ársnyt 500 kúa. En ef gert væri ráð fyrir, að þetta sé of há kýrnyt og reiknað væri með 2500 lítrum, sem mun vera óhætt, þá svarar það til mjólkur úr 600 kúm. Ef gert er ráð fyrir 600 kúa nyt, sem þurfi að greiða verðjöfnunargjald á, af þessum þremur aðilum, Mjólkurfélagi Rvíkur, Mjólkurbúi Thor Jensens og mjólkurframleið. hér í Rvík, þá kæmu 215 kr. á hverja kú.

Ég skal ekki segja, hversu mikill munur verður á, að selja mjólkina unna eða sem neyzlumjólk. Mér kemur ólíklega fyrir sjónir, að þörf sé á að setja hærra verðjöfnunargjald en er nú, en því hefir verið haldið fast fram af meiri hl. og það er vitanlega líka óeðlilegt, að engin takmörk séu sett. En ég skal ekki tala meira um þetta, en víkja að annari brtt. okkar hv. þm. Ak., sem er að efni til sama brtt. og meiri hl. flytur um, að tekið sé upp í 5. gr. frv., sem okkur finnst þá, að verði of löng og klúðursleg, og leggjum því til, að greinin skiptist í tvennt, eftir okkar till. í 4. og 5. gr. En það gæti verið um samkomulag að ræða, að skipta gr. síðar, og gætum við þá tekið þessa till. aftur, sem hér er um að ræða, og mætti fjalla um hana til 3. umr.

Þá skal ég koma að því, sem hér er sagt í 3. brtt., að í staðinn fyrir „félög“ komi „félag“. Það byggist á því, að þörf sé á að setja skýrara ákvæði um þetta; þegar notað er orðið. „félög“, geta þau orðið býsna mörg, en okkur finnst eðlilegra, að aðeins sé eitt félag í lögsagnarumdæmi hvers sölustaðar, sem um er að ræða. Þá vil ég víkja að till. okkar um stjórn þessara mála. Við leggjum til, að 4. gr., er fjallar um 5 manna nefnd, falli burt, en í 6. gr., þar sem talað er um 7 manna nefnd, séu henni ætluð þau verkefni, sem nú er ætlað tveimur nefndum. Ég verð að segja, að mér finnst það óeðlilegt og óþarft að hafa tvær n. í þessu máli, meira að segja, ef gott samkomulag hefði verið, þá hefði mátt láta sér nægja, eins og er í norsku lögunum, eina n., sem fjallar um allt skipulag á afurðasölunni innanlands mjólk, kjöti og öðrum afurðum. Menn geta deilt um, hvort réttmætt sé að gera þessa röskun, en ég verð að segja það, að okkur hv. þm. Ak. fannst ekki, að við gætum gengið inn á, að það væri eðlilegt að hafa 12 manna yfirstjórn í þessum málum.

Þá er brtt. við 6. gr., um skipun n. Við leggjum til, að í stað tveggja manna, er ráðh. á að skipa án tilnefningar, komi einn maður tilnefndur af félagi mjólkurframleiðenda, þeirra, sem eru innan lögsagnarumdæmis þess bæjarfélags, er aðalsala fer fram og sé hann fulltrúi þeirra. Okkur finnst það að öllu leyti eðlilega með farið. Ég hefði kosið víðtækari breyt. á skipun n., því ég fæ ekki séð, að það sé eðlilegt, að Alþýðusambandið eigi þar fulltrúa, og ekki heldur S. Í. S., sem hefir enga verzlun með þessar vörur. Hefði verið eðlilegra, að hlutaðeigandi bæjarstj. hefði átt tvo fulltrúa, en okkur kom saman um í n., að breyta þessu ekki, enda kom það í sama stað niður hvað snertir Rvík, því ef tveir væru valdir af bæjarstj. hér, mundi Alþfl. fá annan, sem yrði þá sennilega sami maðurinn. Nokkuð svipað er að segja um S. Í. S., með því að á öðru verðjöfnunarsvæði, sem er mjólkursamlag Eyfirðinga og er stjórnað af K. E. A., sem er sterkasti aðilinn innan S. Í. S., og mundi því fulltrúi S. Í. S. gæta hagsmuna þess, auk þess sem Mjólkursamlag Borgfirðinga á engan fulltrúa, er hann verður þá að skoðast fulltrúi fyrir, og ennfremur fyrir þá menn aðra úti um land, er falla undir þessi lög. Um þetta atriði skal ég ekki að sinni fara fleiri orðum, en snúa mér þá að öðrum brtt. á þskj. 749, er ég get hugsað mér, að valdi öllu meiri ágreiningi en þær, sem ég hefi nefnt.

Í fyrsta lagi er þá brtt. 3, d-liður, að það sé fastákveðið í l., að bændum, sem framleiða mjólk, sé frjálst að flytja mjólk og rjóma í hvaða mjólkurbú sem er og starfar á verðjöfnunarsvæðinu. Vil ég, að bændum sé þetta frjálst, þó að annað bú sé nær, ef þeir kynnu að ná hagkvæmari viðskiptum annarsstaðar. Það hefir verið bent á, að við þessu séu ekki reistar rammar skorður í frv., en auðvitað mætti setja þær í reglugerð, svo ég tel rétt að setja þetta ákvæði inn, að þeir séu frjálsir. Ég legg áherzlu á þetta; þó þessi brtt. virðist í fljótu bili ekki vera stór, þá vil ég á allan hátt koma í veg fyrir, að hægt sé að neyða bændur til að verzla við mjólkurbú, sem e. t. v. er illa stjórnað, ef kostur er á öðru betra.

Þá vil ég víkja að atriði, sem er stórt í þessu sambandi, sem er sölumiðstöðin og yfirráðin yfir henni. Ég hefði kosið, að ekki hefði verið gengið lengra í upphafi en að gera aðstöðu mjólkurframleiðenda betri með því að setja verðjöfnunargjaldið, en að þeim samvinnufélögum, sem hér er um að ræða, hefði verið látið eftir, hvort selja skyldi beint eða með samtökum. En þetta er nú komið svo langt, að ákveðið er að setja hér upp sölumiðstöð, og ég býst ekki við, að snúið verði aftur með það. Þess vegna viljum við hv. þm. Ak. tryggja framleiðendum sjálfum yfirráðin yfir þessari miðstöð. Við leggjum því til, að úr 7. gr. verði felldur niður liðurinn um yfirráðin og um að bráðabirgðaákvæðið falli burt, er felur mjólkursölunefnd stjórnina til 1. maí og vald til að gera þær ráðstafanir, sem henni lízt, og geta orðið örðugleikar á að kippa til baka, ef mjólkurframleiðendur skyldu síðar fá yfirráðin. Menn sjá, að þessar brtt. skipta miklu máli, hvorir eigi að ráða, mjólkursölunefndin eða framkvæmdarstjórar búanna. En ég skal ekki ræða það nánar fyrr en andmælum verður hreyft.

Ég sé, að ég hefi hlaupið hér yfir þá brtt., sem við flytjum um borgun til n. Við leggjum til, að ríkissjóður greiði form. n., en öðrum nm. verði greitt úr verðjöfnunarsjóði. Þá leggjum við til, að 2. málsgr. falli burt úr 15. gr., ákvæðið um, að sá, er brotlegur gerist við lögin, missi gjaldið fyrir mjólk sína. Frá fjárhagslegu sjónarmiði skiptir þetta ekki miklu máli. Okkur finnst óeðlilegt, þó að menn brjóti lögin, að mjólkin verði gerð upptæk, eins og þetta væri eitur, og henni hellt niður. (Forsrh.: Það er ekki talað um að hella henni niður). Mér finnst ekkert óeðlilegt, að menn fengju að flytja hana heim og ráða sjálfir, til hvers þeir notuðu hana, eftir að hafa borgað sektir fyrir brot sitt. Ég skal svo ekki að sinni dvelja lengur við þessar brtt., en vonast eftir að hafa tækifæri til að svara síðar þeim aðfinnslum, sem kunna að koma fram gegn þeim.