13.12.1934
Neðri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1601 í B-deild Alþingistíðinda. (1672)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Páll Zóphóníasson:

Mál það, sem hér er rætt um, hefir tvær hliðar. Önnur er heilsufræðileg, hin er fjárhagsleg. Til beggja verður að taka tillit, áður en málið er afgreitt frá Alþingi sem lög.

Mjólk er allra næringarvökva móttækilegust fyrir sóttkveikjur. Það er einmitt orsökin til þess, hversu títt það er, að með mjólk berast ýmsir sjúkdómar manna á milli. Þess vegna er það fyrsta skilyrðið í þessu efni, að gætt sé allra þeirra heilbrigðisráðstafana, sem gera það að verkum, að mjólkin verði holl vara fyrir neytendur. Til þess að þetta geti orðið, er vitanlega nauðsynlegt, að fyllsta hreinlætis sé gætt við meðferð mjólkurinnar og að tryggt sé, að bæði kýrnar og eins fólkið, sem við mjólkurvinnsluna starfar, sé fullkomlega heilbrigt. Þetta er yfirleitt alstaðar heimtað, enda þótt mikið vanti á, að allir fari eftir þeim fyrirmælum. Sérstaklega er nauðsynlegt að gæta ýtrasta hreinlætis og beita öllum mögulegum varúðarráðstöfunum við vinnslu og alla meðferð barnamjólkur. Þess vegna eru menn yfirleitt komnir inn á þá braut, að banna algerlega aðra mjólk til sölu hér í Reykjavík en stassaniseraða mjólk.

Það hefir orðið að samkomulagi, að þeir sem kúabú reka í lögsagnarumdæmi Rvíkur — en þeir eru 129 og eiga samtals 800 —900 kýr —mættu velja, hvort þeir vildu heldur selja mjólkina í mjólkurmiðstöð og láta stassanisera hana eða að selja hana beint. Ég er viss um, að það borgar sig að velja fyrri leiðina fyrir alla þá, sem eiga nokkuð margar kýr. 30 eiga 1 kú, 10 —20 eiga 2 kýr, en allir hinir eiga fleiri. Allir, sem eiga nokkuð margar kýr, koma vitanlega í samsöluna, því að þeir sjá sér hag í því. Þess vegna er það trú mín, að af markaðinum muni brátt hverfa öll mjólk, sem ekki er stassaniseruð. Um þetta hafa verið samþ. lög af þinginu, sem ganga inn á þetta.

Ég er sannfærður um, að fyrr eða síðar verður alveg tekið fyrir að selja óstassaniseraða mjólk frá þeim, sem eru ekki núna í samsölunni. Kröfuna um að mega selja mjólk beint til neytenda, og þá óstassaniseraða, er bara að skoða sem leifar af gamla tímanum.

En sem sagt, til samkomulags geng ég inn á, að menn fái að velja á milli, hvort heldur þeir gera, í þeirri trú, að þeir, sem nú eru utan við samsöluna, en eiga nokkuð margar kýr og selja til margra neytenda í bænum, komi í samsöluna og stassaniseri sína mjólk, en frá þeirra mjólk er meiri hætta búin í þessu efni en hinum, sem færri kýr eiga, því þeir selja fleirum, og sýkingarhættan því meiri.

Fjárhagshlið þessa máls snýr bæði að neytendum, sem vilja fá mjólkina sem ódýrasta, og að framleiðendum, sem vilja fá sem mest fyrir sína mjólk. Það er vitanlega öllum lýðum ljóst, að milliliðakostnaður og dreifingarkostnaður mjólkurinnar í bænum er allt of mikill. Eina leiðin til þess að lækka þennan kostnað er sú, að gera þær ráðstafanir, sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Það hefir tvisvar og jafnvel oftar verið á mig ráðizt fyrir að hafa, sem form. mjólkursölunefndar, tekið þá ákvörðun að lækka mjólkurverðið frá 1. nóv. síðastl. Þetta var m. a. gert í útvarpsumr. hér í þessum sal, og það hefir líka verið gert í umr. um önnur mál þessu óskyld. Þess vegna tel ég mér skylt að gera grein fyrir viðhorfi þessa máls. Vitanlega hafa ýmsir af þeim hv. þdm., sem um þetta mál hafa rætt, ekkert vitað, hvað þeir voru að segja, og þar á meðal hv. 10. landsk., sem fyllstan tók munninn. Mun ég nú rekja einstaka liði þessa máls í sundur eftir skýrslum frá árinu 1933, en það er síðasta árið, sem skýrslur liggja fyrir um frá þeim, sem mjólk selja.

Mjólkurbandalag Suðurlands seldi í bæinn 278952 l. af nýmjólk að meðaltali á mánuði hverjum 1933. Með þessari mánaðarsölu reikna ég. Ég játa, að það er ekki víst, að það sé rétt. En yfirleitt er það almannarómur, að mjólkursalan fari sífellt vaxandi, og sé hann réttur, reikna ég með of lágum tölum. Umboðssölugjaldið á nýmjólk lækkaði um 2 aura á lítra, (úr 6 aur. niður í 4 aur.) 1. okt. Sumstaðar var lækkunin 4 aur., úr 8 í 4, en ég sleppi því. Umboðssölugjaldið á mjólk í lausri vigt lækkaði niður í 5 aur., en hækkaði aftur upp í 6 aur. Lækkunin var því 3 og 2 aur., því áður var það 8 aur. á lítra. Umboðssölugjaldið á rjóma lækkaði um 8 aur. á lítra. Þetta ár seldust 7522 lítrar af rjóma, og 40200 kg. af skyri, að meðaltali á mánuði, og á skyrinu lækkaði umboðssölugjaldið um 12 aur. — Ég vil taka það fram, að þegar ég segi, að mjólkin hafi lækkað um 2 aur. pr. lítra í umboðssölu, þá reikna ég með varlegum tölum.

Umboðssölugjaldið lækkaði um...........

—9697.68 á mán. í okt.

— — — ...................... 9697.68 á mán. í nóv.

Verðjöfnun kom í desember 9697.68÷5579.04 verðjöfn .......... 4118.64 á mán. í des.

Alls lækkun 23514.00 til áramóta Mjólkurlækkunin nam: 1 eyr. á 1/3 heimfl. mjólk

— — 2 — -2/3 mjólk selda í búðunum

eða 12/3 á lítra í tvo mán.: 9311.00 og fellur það í skaut neytenda, en hitt, 14203.00, í skaut mjólkurframleiðenda.

Nú geri ég ráð fyrir, að mjólkurbandalagsmenn segi: Þessi verðlækkun getur ekki komið bændunum að haldi af tveimur ástæðum. Sú fyrri er, að þeir geta ekki lækkað umboðssölugjaldið í sínum búðum eins mikið og gert er í búðum, sem aðrir menn eiga. Þetta segja þeir. En er nú rétt að gera þær kröfur til annara, sem þeir geta ekki framkvæmt sjálfir? Mér finnst það ekki. Þar að auki er þetta ekki rétt. Því er haldið fram af Mjólkurbandalaginu, að það hafi ekki getað fækkað búðum sínum, af því að ef þeir lögðu niður búð, þá væri sett í hana mjólk frá öðrum, og þeir misstu því söluna í kring. En nú er þessi ástæða fallin burt. Nú má ekki selja nema pasteuriseraða mjólk, og því er þeim opnaður möguleiki til að fækka búðunum, og leggja allar þær niður, sem ekki næst í sami útsölusparnaður og þeir nú krefjast af þeim, sem taka mjólk í umboðssölu. Því var og er réttmætt að reikna með þeim sparnaði í dreifingarkostnaði, sem þeir nú hafa náð í lækkuðu umboðsgjaldi við sölu mjólkurinnar. Ég er viss um það, að þessum tölum verður ekki hnekkt. Það verður kannske reynt að búa til aðrar út í loftið, en þessar eru staðreynd, og hefði ég gaman af því, ef reynt yrði að hrekja þær.

Í þessu sambandi vil ég bæta því við, að sá sparnaður, sem hlýtur að verða við framkomu þessara laga, er ekki enn kominn í ljós nema að litlu leyti. Það er vitanlega ekki hægt að sjá fyrir, hversu mikill hann verður í framtíðinni, en samt sem áður er enginn vafi á því, að hann verður miklu meiri heldur en ennþá hefir komið ljós.

Eins og ég tók áðan fram, þá hefi ég til samkomulags gengið inn á að leyfa mjólkurframleiðendum í bænum frjálsa sölu mjólkur, ógerilsneyddrar og utan við mjólkurmiðstöðina, enda þótt ég telji nauðsynlegt að útrýma sem fyrst allri mjólk, sem ekki er gerilsneydd, af markaðinum.

3. lið brtt. á þskj. 749, sem fjallar um það, að bændum sé frjálst að flytja mjólk og rjóma til hvers mjólkurbús, sem þeir óska á sama verðjöfnunarsvæði, tel ég öldungis óþarft að hafa í hl. þar sem vitanlegt er, að nú eru engar hömlur á því, hvert bændur flytja mjólk sína. T. d. flytja bæði Fljótshlíðar- og Skeiðamenn sína mjólk út í Ölfus. Annars mun atkvgr. mín í þessu máli sýna afstöðu mína til hinna einstöku brtt.