13.12.1934
Neðri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1603 í B-deild Alþingistíðinda. (1673)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Það eru ekki nema sumir þeirra hv. þm. við, er ég hefði þurft að svara, og mun ég því sleppa sumu, er rétt hefði verið að andmæla. — Það er búið að ræða þetta mál mikið áður, svo ég skal ekki lengja umr. mikið, en ég vil þó um leið og ég mæli fyrir brtt. minni víkja að því, sem hv. þm. A.-Húnv. sagði í sambandi við verðjöfnunargjaldið. Það er misskilningur, að 8%, eins og það er nú, sé of hátt. Ég vil í því sambandi benda á verðjöfnunargjaldið á kjöti, sem er 10 au. á kg. Það stendur svipað á viðvíkjandi kjötinu, en það er svo um kjötið, að þar er greitt verðjöfnunargjald, eigi aðeins þeim, er gætu selt á Rvíkurmarkaðinum, heldur öllum landsmönnum, er framleiða kjöt. Það er því meiri ástæða til þess að hafa það hátt, þar sem verið er að bæta upp þeim aðilum, sem geta líkað komið á Rvíkurmarkaðinn með sína mjólk. Ég vil benda hv. þm. á, að hér er ástæða til þess að fara hærra, því að það eru líkur til, að þótt farið sé upp í hámark verðjöfnunargjaldsins, þá njóti þeir, sem gjaldið greiða, mests hagnaðar. Það undrar mig því stórlega, að hann skuli vilja hafa verðjöfnunargjaldið hæst 6%.

Ég get fallizt á það, að 5. gr. verði nokkuð löng og afkáraleg, ef þær breyt. verða gerðar á henni, er hér liggja fyrir, en það má bæta úr því með því að skipta gr. sundur við 3. umr.

Þá sagði hv. þm., að óviðkunnanlegt væri að hafa 12 manna stjórn yfir þessum málum, og réttara væri að hafa aðeins eina n. Þetta er á misskilningi byggt. Það er hugsað þannig, að n. þær, sem ákveða verðlagið, eru tilnefndar af kaupstöðum þess verðjöfnunarsvæðis, er í hlut á. Það er óviðkunnanlegt að hafa aðeins eina n., er ákveði verðið úti um allt land, því að hún getur verið ókunnug staðháttum úti um landið. Því hefir sú leið verið farin að hafa eina mjólkursölunefnd fyrir allt landið, en verðlagsnefndir fyrir hvern stað.

Út af brtt. hv. þm. Borgf. verð ég að segja það, að verði hún samþ., þá hefir það í för með sér svo mikla röskun á skipun n., að allar líkur eru til, að það verði til þess að hleypa málinu í strand. Í öðru lagi má benda á það, að sá réttur, er hann nefndi til handa mjólkurbúinu í Borgarnesi til þess að skipa sérstakan mann í n., er ekki fyrir hendi, vegna þess að búin austanfjalls skipa einn mann bæði, og sömuleiðis búin hér vestanfjalls. Til þess að tryggja samkomulag, þegar ákvæðin voru sett um það, hverjir ættu að skipa í n., var því sú leið farin að láta S. Í. S. skipa einn mann í n. Það mætti æra óstöðugan ef hvert nýtt bú heimtaði mann í n. Ég held líka, að einmitt sá fulltrúi, sem er skipaður af S. Í. S., muni gæta réttar mjólkurbúsins í Borgarnesi, enda er hann m. a. til þess skipaður í n. Eins og ég hefi bent á, yrði þetta því misrétti samanborið við búin austanfjalls og vestan, sem öll skipa aðeins tvo menn í n. Það verður aðeins til þess að tefja málið og sigla því í strand.

Viðvíkjandi brtt. hv. þm. A.-Húnv. og hv. þm. Ak. vil ég segja það, að þessar till. fara í sömu átt og till. hv. meiri hl. landbn., en að því leyti sem þær eru ekki eins, eru þær stórum verri. M. a. er sú röskun, er með þeim verður á skipun n., óviðunandi. Verðjöfnunargjaldið er einnig of lágt, og ég er hissa á því, að þessi till. skuli koma frá bónda, sem nýtur hagnaðar af kjötverðjöfnunargjaldinu, sem er stórum hærra en þetta. Með svo lágu verðjöfnunargjaldi sem till. gerir ráð fyrir eru líkur til þess, að l. næðu ekki tilgangi sínum.

Ég hefi nú minnzt á brtt. hv. þm. Borgf. á þskj. 768, sem ég álít, að eigi að fella, og jafnframt á till. á þskj. 749, sem ég líka álít, að eigi að fella.

Viðvíkjandi brtt. hv. meiri hl. landbn. vil ég geta þess, að þær hafa að nokkru leyti verið samdar í samráði við mig. Sú leið hefir verið valin, að leyfa beina sölu í Rvík gegn því, að þeir, sem það gera, hlíti þeim fyrirmælum um hreinlæti og hollustuhætti við meðferð mjólkurinnar, sem krafizt verður í reglugerð, og að þeir greiði af þeirri mjólk, er þeir selja beint til neytenda, fullt verðjöfnunargjald. (PHalld: Það er ekki lítil huggun fyrir Reykvíkinga). Það er gripið hér fram í fyrir mér og sagt, að þetta sé ekki lítil huggun fyrir Reykvíkinga, og það er virkilega svo. Eins og fyrst var gengið frá frv. var ákveðið, að þeir Reykvíkingar, sem framleiða mjólk innan lögsagnarumdæmis Rvíkur, ættu ekki að greiða neitt gjald af þeirri mjólk, sem framleidd væri á grasnyt, en jafnframt voru þeir skyldaðir til þess að selja allt gegnum mjólkurmiðstöð. Nú hefir þessu verið breytt, svo að bein sala er leyfð, ef greitt er fullt verðjöfnunargjald, en þó skulu 2000 lítrar hjá hverjum framleiðenda vera gjaldfrjálsir. Jafnframt er gert ráð fyrir því, að þeir, sem selja gegnum sölumiðstöð, eigi að greiða verðjöfnunargjald, þótt mjólkin sé framleidd á grasnyt. Þegar talað var um þetta mál við þá menn og stjórnir þeirra samtaka, er mjólkurframleiðendur hafa í Rvík og nágrenni, var þeim sagt, að ef þeir gengju í miðstöðina, yrðu þeir gjaldfrjálsir til fulls og ekkert gjald tekið af þeirri mjólk, sem framleidd væri á grasnyt. Með þessu er því tekinn sá réttur af þeim, er þeim hafði verið lofað, eða þeir a. m. k. höfðu ástæðu til að halda, að sér hefði verið lofað. Ég vil því leggja til, að c-liður verði felldur niður, því að það gerir þeim, sem vilja, auðvelt að ganga inn í sölusamböndin, og það á að gera mönnum það auðvelt. Jafnframt geri ég það að till. minni, að undanþágan um, að 2000 lítrar skuli vera gjaldfrjálsir, sé felld niður. Þetta er gamall draugur, sem hvað eftir annað hefir gengið aftur. Það er vitanlegt, að ef þessi undanþága er gefin, þá kemur þar inn ákvæði, sem hægt er að misnota, og eyðileggja með mjólkurlögin að miklu leyti. Má t. d. benda á, að standi það í l., að 2000 lítrar mjólkur skuli vera gjaldfrjálsir hjá hverjum framleiðanda, þá er bara víst, að kúaeigninni verður skipt á milli nógu margra, svo nokkuð mikill hluti mjólkurinnar sé gjaldfrjáls. Mér finnst líka nægileg undanþága fyrir þá, sem standa vilja utan samsölunnar, að þeir megi selja sína mjólk beint og greiða aðeins verðjöfnunargjald af 3000 lítrum, þar sem það er líka vitanlegt, að meðalkýrnyt hér er um 3300 lítrar. Með þessu móti fá þeir nokkuð mikinn hluta af neyzlumjólk sinni a. m. k. undanþeginn skattinum. Þeir fá líka tækifæri til þess að velja á milli þessa, að selja beint með þeim skilyrðum, sem fram hafa verið tekin, eða gegnum mjólkurmiðstöðina. Hvort happadrýgra verður fyrir þá, er ég ekki í miklum vafa um; ég þykist nfl. alveg sjá það í hendi minni, að þeim muni fjölga fljótlega, sem ganga í samsöluna, eftir að hafa reynt hitt fyrirkomulagið.

Að síðustu mælist ég svo til þess, að brtt. landbn. verði samþ. ásamt brtt. þeirri, sem liggur fyrir frá mér.