13.12.1934
Neðri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1606 í B-deild Alþingistíðinda. (1674)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Það eru aðeins nokkur orð út af því, sem hv. 2. þm. N.-M. sagði. Hann hélt því fram, að þeir, sem hefðu andmælt mjólkursölulögunum, hefði ekki vitað, hvað þeir voru að segja. Hann heldur kannske, hv. þm., að sá mikli fjöldi bænda, sem mjólkurframleiðslu stunda, hafi ekki vitað, hvað þeir sögðu þegar þeir sögðu, að mjólkurverðið, sem þeir fengju, mætti ekki lækka. Ég fyrir mitt leyti er ekki í vafa um, að þeim hafi verið þetta mál ljósara en honum.

Því hefir verið haldið fram, að sölugjaldið væri lækkað um 4 aura á lítra. Þessu var t. d. haldið fram austur í Árnessýslu og víðar, og að þessum 4 aurum ætti að skipta á milli neytenda og framleiðenda. En nú hefir þessi lækkun ekki farið fram nema að nokkru leyti. Út af þessu vil ég minna hann á bréf frá Mjólkurfél. Rvíkur, dags. 23. okt. síðastl. Þar er sagt, að af 82 mjólkurbúðum félagsins hafi 2 selt fyrir 5 aura gjald á lítra. Þar af 2122,5 lítrar í flöskum, og í lausu máli 2318,5 lítrar, sem sparast ekki neitt af. Af þessum 2 búðum sparast því vegna þessara framkvæmda kr. 21,22, en hv. þm. áætlar sparnaðinn kr. 154.45. Þá eru 35 búðir, sem selja fyrir 6 aura sölugjald. Af þeim sparast því 2011.58 kr. En samkv. útreikningi hv. 2. þm. N.-M. eiga hér að sparast 4326,65 kr., eða meira en tvöfalt við það, sem raunveruleikinn sýnir. Svo er 1 búð, sem selur fyrir 7 aura sölugjald. Þar sparast því 39,30, en hv. þm. telur það muni vera 52.80. Þá eru 24 búðir, sem selja fyrir hæsta sölugjald, eða 8 aura pr. lítra. Þar sparast því kr. 2262.22. Á þessum eina lið hefir því orðið sá raunverulegi sparnaður.

Í þessum mjólkurlögum er því ekki nein ráðstöfun, sem hægt er að sjá, að geti lækkað kostnaðinn. Setjum nú svo, að hægt væri að spara á öllum búðunum eins og hv. þm. vildi halda fram, þá sparaðist þó ekki nema 2,4 aur. á lítra. En sé hinsvegar reiknað með þeim sölukostnaði, sem Mjólkurfélagið gefur upp, þá sparaðist þó ekki nema 1,4 aur. á lítra. Þrátt fyrir þetta sér mjólkurverðlagsnefndin sér fært að lækka verð mjólkurinnar um 2 aura. pr. lítra. Það er því bersýnilegt, að lækkun þessi er alveg gerð út í bláinn, og það er alveg án tillits til þeirra, sem selja mjólkina á markaðinn. Lækkun sú, sem orðið hefir á sölugjaldi mjólkurinnar hér í Rvík. og mjólkurverðlagsnefndin telur sig byggja lækkunina á, var alls ekki til orðin vegna mjólkurl. Að henni hafði verið unnið af Mjólkurfél. Rvíkur, það var Mjólkurbandalag Suðurlands, sem ákvað, að hámarkssölugjaldið skyldi ekki vera hærra en 5 aur. á lítra.

Ég verð að segja, að mér þótti mjög undarlegt, að hæstv. ráðh. skyldi ekki geta fallizt á brtt. hv. þm. Borgf., því að ég fæ ekki annað séð en að fyllsta réttlæti sé í því, að Mjólkursamlag Borgfirðinga hafi sama rétt til íhlutunar um stjórn þessara mjólkursölumála eins og hin mjólkurbúin. Að mjólkurbúin hér syðra verði fyrir órétti, ef brtt. þessi verður samþ., nær því engri átt. Frá mínu sjónarmiði er þessi breyt. sjálfsögð og stefnir í rétta átt. Um þá brtt. að sameina þessar tvær nefndir, verðlagsnefndina og aðalnefndina, er það að segja, að ég tel hana eiga rétt á sér, því að vel getur komið til mála að sameina þessar n., enda þótt það virðist ekki nauðsyn vegna tilkostnaðarins. Það skiptir í raun og veru ekki svo miklu máli, heldur hitt, hvað kemur að mestu gagni fyrir málið í heild. Það var fyrst svo til ætlazt, að mjólkurnefndin sjálf væri skipuð af mjólkurframleiðendum. Aftur á móti átti verðlagsnefndin að vera skipuð hvorum tveggja, neytendum og framleiðendum, Með þetta fyrir augum mun n. hafa verið skipuð. En nú hefir þetta breytzt í meðferðinni, því með skipun í aðalnefndina er valdið tekið af framleiðendum meira en æskilegt væri.

Hæstv. forsrh. vildi halda því fram, að það væri meiri ástæða til þess að hafa hátt verðjöfnunargjald á mjólk en kjöti. Þetta er bara ekki rétt, því að það er svo mikill hluti af kjötinu, sem ekki er hægt að selja á innlendum markaði, sem þó var auðvelt að selja hér í Rvík meðan salan var frjáls. Mér er vel kunnugt um þetta, því að félag það, sem ég starfaði fyrir, sendi kjöt hingað, þegar langt var komið fram á vetur, og það seldist hér þrátt fyrir það, þó að annað kjöt væri á markaðinum. Þessu hefði það getað haldið, ef því hefði ekki verið bægt af markaðinum hér með þessu nýja fyrirkomulagi. Það gegnir því allt öðru máli með kjötið en mjólkina, sérstaklega síðan frystihúsin risu upp. Það má geyma það langt fram eftir árinu og senda það á markaðinn smátt og smátt, eftir því sem selst. En nú er þetta útilokað vegna þessarar nýju skipunar á kjötsölunni. Það er því ekki hægt að taka þá rökfærslu hæstv. ráðh. alvarlega, að verðjöfnunargjaldið eigi að vera eins hátt á mjólk og kjöti, því að mjólkurframleiðsluna er ekki hægt að geyma til þess að senda smátt og smátt á markaðinn.