13.12.1934
Neðri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1607 í B-deild Alþingistíðinda. (1675)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég þarf ekki að vera langorður, sérstaklega þar sem hæstv. forsrh. er búinn að taka fram margt af því, sem ég þurfti að segja um brtt. hv. þm. A.-Húnv. Um brtt. þessa er það að segja, að enda þótt þær að nokkru leyti séu líkar að efni til brtt. meiri hl. n., þá sé ég ekki ástæðu til að breyta svo mjög um form þeirra sem till. hv. þm. fara fram á.

Ég skal viðurkenna, að með brtt. meiri hl. landbn. við 5. gr. verður sú grein hálfóviðkunnanleg lagagrein, en eins og hæstv. forsrh. tók fram, þá mætti við 3. umr. skipta greininni og koma henni í betra form. Það, sem hv. þm. sagði um hámarksgjaldið, held ég að sé á litlum rökum byggt. Þá vildi hv. þm. halda því fram, að þeir, sem framleiða mjólk hér í grennd við Rvík, myndu allir selja utan samsölunnar. Þetta held ég, að sé nokkuð hæpin fullyrðing hjá hv. þm. Ég fyrir mitt leyti er alls ekki viss um, að meiri hl. þeirra selji utan samsölunnar, og þess er ég fullviss, að þegar stundir líða, verða þeir alltaf fleiri og fleiri, sem fara með mjólk sína inn í hana.

Í öðru lagi vildi hv. þm. halda því fram, að það væri ekki þörf á hækkun verðjöfnunargjaldsins, þó að Mjólkursamlag Borgfirðinga í Borgarnesi komi inn. Þetta er ekki rétt hjá hv. þm., því að þessu er þann veg háttað, að stórir mjólkurframleiðendur þar efra hafa bein viðskipti við Rvík eins og nú er en eftir að lögin verða sett munu þeir verða að koma inn í Borgarnesmjólkurbúið, sem þar af leiðandi mun framleiða meira en það gerir nú. Er því meiri þörf á verðjöfnunargjaldi fyrir það.

Samkv. ákvæðum frv. er ekki leyft að hækka verðjöfnunargjaldið upp úr 5% af útsöluverði mjólkur og rjóma, nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi, og þó ekki nema með leyfi landbráðh. Ég vil að sjálfsögðu á engan hátt stuðla að því, að gjald þetta verði haft hærra en brýn nauðsyn krefur, en það gegnir alveg sama máli um það og verðjöfnunargjaldið á kjötinu. Sé það ekki nægilega hátt til þess að nokkurn veginn samræmi og réttlæti náist með því á milli þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli, þá getur það ekki staðizt lengi.

Þá er brtt. hv. þm. A.-Húnv. og hv. þm. Ak., 3, a., um félög framleiðenda, að í staðinn fyrir „og félag framleiðenda“ komi: og félag mjólkurframleiðenda innan lögsagnarumdæmis sölustaðar. Ég hefi fyrir mitt leyti ekkert að athuga við þessa brtt. og býst við, að ég geti fylgt henni, þó að ég hafi ekki borið mig saman við aðra nm. um það. — Þá er það c-liður: Viðaukatill. um að bændum sé frjálst að flytja mjólk sína og rjóma til hvers þess mjólkurbús, sem þeir óska á sama verðjöfnunarsvæði. — Nú man ég ekki til, að nokkurt ákvæði sé í frv., sem bannar þetta, og held, að það sé ekkert tekið fram um það. Og þess vegna er ekkert því til fyrirstöðu, ef einstaklingarnir koma sér saman um það og samningar nást um það á milli búanna, hvernig sölu og flutningum mjólkur til þeirra skuli háttað. En mér finnst eðlilegast, að hvert mjólkurbú njóti þeirra viðskipta, sem eru á því svæði, er það nær yfir, og býst ég við, að það verði svo í framkvæmdinni, þó að þessi brtt. yrði samþ. En til þess að sýna, að þetta ákvæði er á engan hátt nauðsynlegt, skal ég t. d. benda á, að nokkuð af viðskiptasvæði Ölfusbúsins er austur í Rangárvallasýslu. Mjólkurframleiðendur í Rangárvallasýslu flytja mjólk sína framhjá Flóabúinu og alla leið í Ölfusbúið. Það er ekkert í lögunum, sem bannar þetta, og þess vegna álít ég algerlega óþarft, að þessi brtt. nái fram að ganga, og legg ég því á móti henni.

Um brtt. sömu hv. þm. viðvíkjandi skipun mjólkursölunefndar er það að segja, að ég get hugsað mér margskonar fyrirkomulag á því öðruvísi en það er ákveðið í frv., en ég vil ekki leggja til um breyt. á því eða umturnun frv. svo síðla á þingi. Það getur kostað hrakning á frv. milli þd. og jafnvel aldurtila þess, þar sem svo fáir dagar eru eftir af þinginu. Ég legg því á móti þessari brtt. af þeirri ástæðu, og tel þarflaust að fjölyrða um það frekar.

Um brtt. hv. þm. Borgf. á þskj. 768 er það að segja, að ég felli mig á margan hátt vel við hana, og mundi fylgja henni, ef málinu í heild sinni væri ekki hætta búin af því að hrekjast á milli þd. En hinsvegar sé ég ekki ástæðu til að leggja svo mikla áherzlu á þetta atriði, að ég vilji leggja málið í hættu þess vegna. Sá maður í mjólkursölun., sem þessi till. mundi ganga út yfir, ef samþ. væri í n., hefir þegar reynzt málum Mjólkursamlags Borgf. þannig, að ég efast mjög um, að sérstakur fulltrúi frá mjólkursamlaginu hefði gert það betur í þeim málum, sem þessi héruð varða. Og þegar tekið er tillit til þess, bæði hvernig þessi maður hefir reynzt það sem af er í n. og einnig að málinu verði stofnað í hættu með hrakningi milli þd., þá er ég a. m. k. ekki viðbúinn því nú að heita því að greiða atkv. með þessari brtt.

Að lokum vil ég minnast á brtt. frá hæstv. landbráðh. á þskj. 801, sem er við till. meiri hl. landb. á þskj. 737. — Ég er ekki eins hræddur við það og hann, að gefa það eftir að, 2000 lítrar séu gjaldfrjálsir hjá hverjum framleiðanda innan lögsagnarumdæmis kaupstaða; ég er ekkert hræddur við, að það eyðileggi framkvæmd laganna. Ég held, að það sé vel hægt að kontrollera þetta og glöggva sig á því, hver er raunverulegur mjólkurframleiðandi og hver kann að vera talinn það að nafninu til. En ég skal geta þess f. h. meiri hl. n., að þar sem hann leggur ekki mikið kapp á þetta atriði, þá getur hann fyrir sitt leyti fallizt á þessa brtt. — Ég hefi svo ekki fleiri orð um þetta að sinni.