13.12.1934
Neðri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1611 í B-deild Alþingistíðinda. (1677)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Hv. þm. Borgf. mælti fast með brtt. sinni og reyndi að hnekkja því með rökum, sem ég hafði sagt, að brtt. hans mundi valda röskun á mjólkursölunefndinni. Hv. þm. sagði, að ég hefði borið það fram sem rök gegn brtt. hans, að ekki mætti raska nefndarskipuninni. Ég taldi þetta ekki beinlínis rök á móti till., heldur taldi ég það bæði eðlilegra og viðkunnanlegra, að sú n. héldi áfram að starfa að þessu máli, sem búin væri að undirbúa það á allan hátt. En þetta eru ekki aðalrökin gegn till., heldur hitt, að brtt. sjálf er beinlínis ranglát. Hún er flutt undir því yfirskini, að það þurfi að sýna Mjólkursamlagi Borgfirðinga það réttlæti að leyfa því að skipa 1 mann í n. Ég benti á það í minni fyrri ræðu, að tvö stór mjólkurbú austanfjalls skipuðu ekki nema 1 mann í n. Þess vegna hefði engin regla verið sett um það né fordæmi gefið fyrir því, að hvert mjólkurbú eigi að hafa einn mann í n., heldur þvert á móti. Í öðru lagi má benda á það, að ef mjólkurbúum verður fjölgað á verðlagssvæðinu, þá ætti hvert bú að mega bæta við einum manni í mjólkursölunefndina, ef þessi regla yrði upp tekin. M. ö. o., í hvert skipti sem nýtt mjólkurbú yrði reist, mætti búast við till. eða kröfu um það, að fjölgað yrði um 1 mann í n. Ég vil benda á það, að mér er sagt, að verið sé að stofna mjólkurbú á Snæfellsnesi, í sambandi við mjólkurbúið í Mýrasýslu. Það má því búast við till. um einn mann þaðan í mjólkursölunefndina. Það er ennfremur verið að stofna bú á Akranesi, sem einnig getur komið þar inn. (PO: Það stendur utan við þessi lög). Já, það stendur utan við lögin. En það er ekki hægt fyrir hv. þm. Borgf. að mótmæla því, að það getur komið inn síðar. Í Hafnarfirði er verið að hugsa um að stofna mjólkurbú. Þeir geta líka heimtað að fá fulltrúa í n. Þess vegna er sú regla óhæf, að hvert nýstofnað bú geti fengið einn fulltrúa, þegar aðeins 1 fulltrúi er ákveðinn fyrir bæði búin austanfjalls, og sömuleiðis 1 fulltrúi fyrir búin hér vestanfjalls. Það er ekki réttlátt að veita nýjum búum viðbótarfulltrúa, samanborið við þá aðila mjólkurbúa, sem nú eru fyrir. Og í öðru lagi er það lítt framkvæmanlegt, af því að þegar eitt mjólkurbú hefir fengið sinn sérfulltrúa í n., þá koma fleiri og fleiri á eftir og krefjast hins sama. Af þessum ástæðum var sú leið valin, að S. Í. S tilnefndi einn fulltrúa í n. fyrir önnur mjólkurbú en þau, sem nú eru starfrækt hér austanfjalls og vestan. Þannig á sá fulltrúi að rækja sitt hlutverk í n., og það á að skoða hann sem fulltrúa þeirra mjólkurbúa, sem ekki hafa tilnefnt mann í n. Ég hygg líka, að ef mjólkursamlag Borgf. hefði valið mann fyrir sig í n., þá hefði það máske tilnefnt þennan mann (Árna Eylands), því það hefði orðið að taka mann hér búsettan.

Í þriðja lagi má á það henda, að hið allra versta við þetta fyrirkomulag — að hvert mjólkurbú hafi fulltrúa í mjólkursölunefnd — er það, að þá má búast við þeim vinnubrögðum í n., að reiptog verði á milli hinna ýmsu hagsmunaflokka á hverju verðlagssvæði, er kann að hafa þær óheppilegu afleiðingar, að ýmiskonar viðkvæm ágreiningsmál verði afgr. með einföldum meiri hl. í n. án tillits til þess, hvað er bezt fyrir heildina. Þess vegna hefir hér verið valin leið, sem tíðkast erlendis í þessum efnum og hefir gefizt þar vel, að hafa sem mest af hlutlausum aðilum í nefndinni, samhliða fulltrúum hlutaðeigandi aðila, sem eru kunnugir öllum staðháttum, og eiga þeir að gæta þar jafnvægis um ákvörðun mjólkurverðs o. fl. En það má ekki byggja slíkar ákvarðanir á kröfum hvers mjólkurbús, eða á neinni tilviljun um það, hversu mörg mjólkurbú kunni að eiga fulltrúa í mjólkursölunefndinni. Þessi galli hefir komið greinilegast fram í Mjólkurbandalagi Suðurlands. Þar hefir verið sífellt reiptug á milli hinna einstöku félagsdeilda í bandalaginu um ákvörðun mjólkurverðs o. fl., enda er það ekki óeðlilegt. Það er þess vegna mikilsvert réttlætismál, hvernig úr þessu er leyst, og mun það vera heppilega til lykta leitt í l. og í fullu samræmi við það, sem bezt hefir reynzt erlendis, eins og ég hafi áður bent á. — Þessi brtt. hv. þm. Borgf. er ekkert réttlætismál; þvert á móti. Og hún mundi, ef samþ. yrði, skapa fordæmi, sem yrði mjög slæmt og afleiðingaríkt fyrir þetta mál.