13.12.1934
Neðri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1612 í B-deild Alþingistíðinda. (1678)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Jón Pálmason:

Það hefir svo margt verið tekið fram í. þessum umr., að það verður ekki hjá því komizt fyrir mig að fara allýtarlega út í þetta mál og svara jafnframt einstökum atriðum, sem fram hafa komið hjá ýmsum hv. þdm. Ég skal þá fyrst snúa mér að því atriði, sem hæstv. forsrh. talaði um: skipun mjólkursölunefndarinnar. — Hæstv. ráðh. mælti mjög á móti brtt. okkar hv. þm. Ak. um tilnefningu manna í n., og um að n. skuli aðeins vera ein. Hv. frsm. meiri hl. landbn. og hv. þm. V.-Húnv. mæltu einnig á móti þessari brtt. okkar. En ég verð nú að leyfa mér að halda öðru fram í þessu efni. Þá er fyrst að geta þess, að eftir því sem ábyrgðinni er dreift á fleiri hendur, eftir því verður starfið verr rækt. Hver aðili vill ýta af sér, og enginn þeirra gengur hreint til verks. Ég held því, að það sé framför, en ekki afturför, að hafa aðeins eina n. í þessu máli, en ekki tvær. Enda virðist ekki þörf á að skipa 12 menn til starfa í þessum nefndum. Það er náttúrlega rétt athugað hjá hv. þm. Borgf., að það getur valdið misskilningi í 4. brtt. okkar hv. þm. Ak., hvernig hún er orðuð. Samkv. till. á að breyta til þannig, að hver aðili skipi aðeins mann í n., í stað þess sem landbrh. á nú samkv. frv. að skipa 2 menn. Samkv. b.-lið till. er ætlazt til þess, að fulltrúi félags mjólkurframleiðenda innan bæjarfélags víki sæti, eins og fulltrúi bæjarstj., þegar n. hefir til meðferðar málefni annara kaupstaða, en þá taka sæti í n. fulltrúar tilsvarandi aðila í hlutaðeigandi kauptúni eða kaupstað. Það er þetta, sem á að felast í till., en ég er fús til að breyta orðalagi hennar við 3. umr., til þess að taka af öll tvímæli um það.

Á brtt. hv. þm. Borgf., um að mjólkursaml. Borgf. skipi einn fulltrúa í n., get ég ekki fallizt og vísa í því efni til þess, sem hæstv. forsrh. hefir sagt um hana. En út í það ætla ég ekki að fara, það er ekkert stórmál.

Ég legg mikla áherzlu á að n. verði aðeins ein, það ætti að nægja, því að störfin eru ekki svo mikil. Hér er verið að setja fleiri menn til launaðra starfa en nokkur þörf er á, og getur þetta orðið mjög þýðingarmikið atriði, sérstaklega þegar lengra líður fram.

Þá skal ég víkja að öðru deiluatriði í brtt. okkar hv. þm. Ak.: Að bændum skuli frjálst að flytja mjólk sína og rjóma til hvers þess mjólkurbús, sem þeir óska, á sama verðjöfnunarsvæði. — Hv. þm. Mýr. og hv. 2. þm. N.-M. hafa báðir sagt, að þetta væri ekki bannað í l., og það mun satt vera. En það er ekki þar með sannað, að þetta ákvæði þurfi ekki að vera í l. En ég legg einmitt áherzlu á, að þetta ákvæði verði sett inn í lögin. Í fyrsta lagi vegna þess, að það kynni að verða sett ákvæði í reglugerð um að skylda mjólkurframleiðendur til að flytja mjólk sína í eitthvert ákveðið bú. Og í öðru lagi vil ég benda á þá ástæðu fyrir þessari brtt., að það kom fyrir ekki alls fyrir löngu, að bændur austan úr Hreppum, sem ekkert eru viðriðnir Mjólkurbú Flóamanna, komu með rjóma hingað til Rvíkur og hefðu getað selt hann fyrir gott verð í Mjólkurfél. Rvíkur, en þeim var bannað að leggja hann þar inn og sagt, að þeir ættu að leggja hann inn í Mjólkurbú Flóamanna. Að svona lagað geti komið fyrir, vil ég fyrirbyggja meðfram með þessari brtt., sem hér er fram sett. Í öðru lagi vil ég taka það fram, að í 7. gr. l. er ákvæði um það, að svipta megi einstök bú verðuppbót og jafnvel styrk, ef þeirra rekstrarkostnaður sé talinn of hár; sem sé er mjólkursölunefndinni gefið á þessu sviði ákaflega mikið vald, sem hún getur notað til þess að færa verzlunina með þessa vöru meira undir einstök bú heldur en eðlilegt er. Ég vil láta bændur, sem þessa vöru framleiða, hafa fullt frelsi til þess að verzla við það samvinnufélag, sem þeim lízt bezt á, og þess vegna legg ég áherzlu á, að þessi brtt. verði samþ.

Þá skal ég minnast á 5. gr. Það kom fram hjá hv. frsm. og jafnvel hjá hæstv. forsrh., að þeir mundu geta gengið inn á að skipta þessari gr. niður við 3. umr. Þessu var neitað í n., og þótti mér það undarlegt, því hver maður getur séð, að þegar búið er að prenta þessa gr. upp, þá verður hún þvílíkur hrærigrautur, að ekki er viðunandi að hafa hana í einu lagi. Annars legg ég ekki mikið upp úr þessu atriði, af því að það er frekar formsatriði heldur en efnislegt, og býst við, að við nm. ættum að geta komið okkur saman um, hvernig þetta verður borið upp. En það er annað atriði í þessu sambandi, sem þarna er flækt inn í og við hv. þm. Ak. erum alveg mótfallnir, og það er þessi liður, sem hæstv. forsrh. leggur til, að felldur sé niður, sem sé, að undanþágan fyrir mjólkurframleiðendur í kaupstöðum gildi ekki nema fyrir 5%, þó verðjöfnunargjaldið sé fært upp í 8%. Það, að láta menn, sem annars eiga að fá undanþágu, borga nokkurn hlut í verðjöfnunargjald, er frá okkar sjónarmiði ófært, og erum við þar í samræmi við skoðun hæstv. forsrh. á því atriði.

Þá skal ég koma að því, sem hv. 2. þm. N.-M. vék talsvert að, sem sé hinni heilbrigðislegu hlið þessa máls. Hann gat þess, að hann hefði gert það nauðugur að ganga til samkomulags við okkur um það, að framleiðendur í kaupstöðum mættu velja um, hvort þeir seldu sína mjólk beint eða færu með hana til gerilsneyðingar. Nú er það tilskilið í þessari brtt., að það skuli settar reglur um það eftir till. hlutaðeigandi bæjarstj. og að fengnu áliti yfirstjórnar heilbrigðismálanna, hvernig hagað skuli framleiðslu þessarar mjólkur, og það finnst mér menn ættu að geta sætt sig við. Það er allt öðru máli að gegna, þegar mjólk frá mörgum heimilum er skellt saman í mjólkurbúin; það er ekki nema eðlilegt, að rík krafa sé um að gerilsneyða slíka mjólk. Þessi heilbrigðislega hlið er því frá mínu sjónarmiði ekki stórt atriði. — Annars er í þessu sambandi nokkur ástæða til þess að víkja að því, hvernig til hagar um framleiðslu og sölu samkv. l. á svokallaðri barna- og sjúklingamjólk. Það eru ekki um það atriði nein föst ákvæði, og er gert ráð fyrir að setja þau nánar með reglugerð. Nú er það víst, að á því svæði, sem þessi l. koma mest til að verka á, Reykjavík og nágrenni hennar, þá er líklega hvergi neitt til líka jafnfullkomlega gætt allra krafna að því er snertir heilbrigðihlið þessarar framleiðslu eins og á búi Thor Jensens. Ég sé því ekki, að nokkur ástæða sé til þess að gera þaðan mjög strangar kröfur, því mér hefir virzt, að þar sé svo vel um búið og tryggt, að Reykvíkingar gætu vænzt þess að fá þar hina beztu mjólk til þessara hluta.

Þá ætla ég að snúa mér að höfuðdeiluefninu, sem hér er um að ræða, verðjöfnunargjaldið, og afstöðu hinna einstöku búa og framleiðenda í Reykjavík og öðrum kaupstöðum til sölumiðstöðva, sem gert er ráð fyrir að setja upp. Hæstv. forsrh. undraðist það, að ég, sem væri bóndi, skyldi leyfa mér að leggja til, að verðjöfnunargjaldið væri ekki hærra en 6%, og vitnaði þar til kjötlaganna. Það lætur vel í eyrum sumra manna og hefir oft heyrzt hér á þingi, að þetta og þetta væri gert fyrir bændurna, og ég skal taka það fram, að ég er manna fúsastur til að gera allt, sem í mínu valdi stendur bændunum til hagsmuna. En þó ég sé að forminu til þm. A.-Húnv., þá skoða ég mig fyrst og fremst sem fulltrúa allrar þjóðarinnar, og þess vegna er ég ófáanlegur til þess að gera í nokkru máli annað en það, sem ég tel sanngjarnast og réttast. Og ég verð að segja það, að ýmislegt af því, sem gerzt hefir á undanförnum árum og átt að vera í umboði bændanna, er það lakasta, sem gert hefir verið í okkar pólitík, ekki fyrir það, að bændur hafa viljað láta svo vera, heldur af því, að framkvæmdin hefir orðið slík í hinum ýmsu málum í okkar þjóðfélagi, að það hefir verið reynt að draga hlut þessara manna á annara kostnað. En það er einmitt það, sem á að vera grundvallarhugsunin í öllu fjármála- og pólitíska lífi, að byggja það upp á þeim grundvelli að vera einum til hagnaðar án þess að skaða annan, og í þessu máli lít ég svo á, að öllum sé til hagnaðar, að sýnd sé sú sanngirni, sem við á. En það, að hitta hinn rétta meðalveg, er vandinn, sem hér er um að ræða, og skal ég taka það fram, að ég ætla mér ekki þá dul að halda því fram, að það eitt sé rétt, sem ég segi, en ég held því einungis fram, sem ég eftir nánari athugun tel heilbrigðast. Hvað það snertir, að sambærilegt sé verðjöfnunargjald fyrir kjöt og mjólk, þá er það frá mínu sjónarmiði alveg ósambærilegt, og það af þeim sökum, að það er mikill meiri hluti af kjöti, sem þarf að borga verðuppbót á, en mikill minni hluti, sem selst fyrir hið hæsta verð. En þetta er öfugt í því tilfelli, sem hér er um að ræða, því það er mikill meiri hluti af mjólk, sem er borgaður verðjöfnunarskattur af og kemur yfir á minni hluta þeirrar mjólkur, sem um er að ræða, að þessi l. nái til. Í öðru lagi er það svo, eins og hv. þm. V.-Húnv. benti á, að verzlunarhættirnir með kjöt og mjólk eru ósambærilegir, og af þeim sökum meiri ástæða til þess, að verðjöfnunargjaldið þurfi að vera hærra á kjöti heldur en á mjólk. — Ég hefi sýnt fram á það með útreikningi, að eftir þeim líkum, sem fyrir liggja, muni eins og sakir standa á þessu svæði útkoman verða sú, að með 6% verðjöfnunargjaldi verði verðuppbótin til þeirra bænda, sem líkur eru til, að selji mjólk sína í Mjólkurbú Ölfusinga og Flóamanna, hvorki meiri eða minni en 215 kr. á hverja kýrnyt. Það er ekki hægt að segja, að það sé sérlega lágt, og ætti öllum að vera ljóst, að hagur þeirra manna, sem þarna eiga hlut að máli, er mikið tryggður með þessari löggjöf, sem hér er verið að setja, enda á svo líka að vera. Hv. frsm. meiri hl. vildi vefengja þennan útreikning minn, og skal ég játa, eins og ég gerði áðan, að ekki er hægt að færa fullar sönnur á, að hann sé réttur, allra sízt á komandi ári, en hann er miðaður við það ástand, sem nú er á svæði Mjólkurfélags Reykjavíkur og mjólkurbúi Thor Jensens. — Þá var það annað atriði, sem hv. þm. Mýr. vildi vefengja og ekki er hægt að sanna á hvoruga hlið. Hann taldi líkur til þess, að meiri hluti framleiðenda í Rvík færi inn í samsöluna og yrði því undanþeginn verðjöfnunargjaldi. Ég skal ekkert um þetta fullyrða, en mér virðist líkurnar vera þær, að útkoman verði ekki sú fyrst um sinn. Og það, sem ég hefi þar til grundvallar að færa fyrir minni skoðun, er það í fyrsta lagi, að verðmismunurinn, sem yrði hjá framleiðendum hér í Rvík, er geysilega mikill, ef þeir færu að gerilsneyða sína mjólk og selja hana í samsöluna. Gerilsneyðingin mun kosta 4 aur. pr. lítra, og þá gilti það fyrir framleiðendur hér í Rvík um 80 þús. kr. Verðjöfnunargjald, sem þessir sömu menn þyrftu að greiða með 6% hámarki, mundi vera eins og ég tók fram áðan 47900 kr. Mismunurinn á þessum tölum er strax áberandi, og þar við bætist svo, að þessir menn yrðu að borga allan sölukostnað, ef þeir færu inn í samsöluna, og eru líkur til, að þar kæmu á þá aðrar 80 þús. kr., því ég tel eins og sakir standa enga vissu fyrir því, að sölukostnaðurinn yrði undir 4 aur. pr. lítra.

Þá skal ég koma að því, sem ég vék frá áðan, hvort ég væri að vinna gegn bændunum með því að vilja gera þessi l. frjálslegri fyrir þá aðila, sem hér um ræðir, sem sé framleiðendur í Rvík og einnig þann stóra aðila, bóndann á Korpúlfsstöðum, Thor Jensen. Það er nú vitanlegt, að framleiðslukostnaður mjólkur á öllu þessu svæði er mjög dýr, og til þess liggja alkunnar orsakir. Reyndar hefir það verið almennt álitið úti um land allt, að engin grein hins íslenzka landbúnaðar væri arðvænlegri fyrir hlutaðeigandi menn heldur en framleiðsla mjólkur til sölu í Rvík. En reynslan hefir sýnt, að jafnvel þessi grein landbúnaðarins er í hættu stödd og ber sig illa eins og sakir standa. Ég hefi það fyrir satt, að á svæði Mjólkurfélags Rvíkur muni framleiðslukostnaðurinn ekki vera undir 20 —24 aur. og innan bæjarfélags Rvíkur frá 21 —28 aur. Ofan á þetta bætist svo að því er framleiðendur Rvíkur snertir, að þeir eiga að greiða annaðhvort tæp 48 þús. í verðjöfnunarskatt — ef um hámark er að ræða — eða eftir till. meiri hl. n. 64. þús. kr. En ef ofan á þetta á að bæta því, sem hæstv. forsrh. leggur til, að fella niður þessa 2 þús. potta undanþágu, þá verkar það strax til viðbótar 6200 kr. Ef l. yrðu samþ. eins og þau eru, sem væntanlega verður ekki, þá væru þarna lögð svo há gjöld á þessa menn, að það eru ekki líkur til annars en að þeir yrðu gjaldþrota, og hvað tekur þá við? Bæjarfélagið hér yrði þá að taka þessi ræktunarlönd, sem hér er um að ræða, og mundi þá verða vikið inn á það svið, sem sósíalistar óska, að stofnaður yrði bæjarrekstur á mjólkurframleiðslu. Jafnframt er það líka auðsætt, að ef hinu stóra búi á Korpúlfsstöðum er gert svo erfitt fyrir, eins og líkur benda til, að það geti ekki þrifizt, að endirinn verður sá, að Rvíkurbær kaupir þessa jörð og þau mannvirki, sem þar eru, og rekur þar mjólkurbú. M. ö. o., ef þrengt er svo að kosti þessara manna umfram það, sem nauðsyn ber til, þá lít ég svo á, að endirinn geti ekki orðið nema á einn veg, þann veg, að þessir menn gefist upp, eins og allt bendir til að flestir atvinnurekendur séu nú að gera í okkar þjóðfélagi, en þetta stóra og fjölmenna bæjarfélag stofnar til bæjarrekstrar á mjólkurframleiðslu í geysistórum stíl. Og sá bæjarrekstur hefði það tvennt fyrir augum, annað að láta sína einstaklinga, sem fyrst og fremst eru neytendur, fá þessa vöru með sem beztum kjörum, og svo hitt, að fullnægja þeirri þörf, sem hér er fyrir hendi með þessa vöru. En ef út á þessa braut yrði farið, þá er auðsætt, að ekkert meira tjón getur komið fyrir bændur, sem nú selja mjólk hingað, og þess vegna held ég því skilyrðislaust fram, að það, að fara hóflega í sakirnar við þessa menn, sem hér eiga hlut að máli, sé fyrst og fremst gert til hagsmuna fyrir þá bændur, sem hér eiga að njóta markaðsmöguleikanna fyrir þessa vöru. Ég held því, að það sé varhugavert og þar að auki óþarft að setja verðjöfnunargjaldshámarkið upp í 8%, því í þessu tilfelli er ekki annað hægt að sjá en að 5 —6% muni nægja, og að sjálfsögðu tel ég rétt, að takmörk séu fyrir því í 1., hvað verðjöfnunargjaldið megi vera hæst.

Ég skal svo ekki fara mjög mikið nánar inn á þetta mál. Ég er búinn að taka fram þau aðalatriði, sem virðist nauðsynlegt að taka fram. En ég skal þó leyfa mér að bæta því við, að mér virðist það, að setja um það föst ákvæði í 1., að stjórnskipuð n. eigi að ráða yfir sem mestri sölu á þeirri vöru, sem hér er um að ræða, sé í raun og veru fullkomið vantraust á þá stefnu, sem mikill hluti þessa þings fylgir og þar á meðal ég, að það sé heppilegasta leiðin til þess að ráða fram úr vandamálum þjóðarinnar að hafa sem frjálsastan félagsskap þeirra manna, sem um þau mál fjalla. Þess vegna leggjum við hv. þm. Ak. til í okkar brtt., að dregin séu út úr frv. þau ákvæði, sem miða að því að láta mjólkursölunefndina, ef svo vill verkast, taka ráðin af stjórn þessara samvinnufélaga, sem þessa hluti eiga að hafa og hafa með að gera.

Ég skal svo ekki að þessu sinni hafa um þetta fleiri orð, því ég vænti þess, að hv. þm. hafi séð, hvað það er, sem fyrir mér vakir með till., sem hér liggja fyrir, og þó hæstv. ráðh. hefði þau orð um þær, að þær ætti að fella allar, þá þykir mér einkennilegt, ef allir hv. þm. geta á það fallizt. Hinu er náttúrlega ekki að leyna, að það getur svo farið með þessar till. eins og hverjar aðrar, sem komið hafa frá okkur sjálfstæðismönnum á þessu þingi, að hægt sé að neyta aflsmunar til þess að fella þær. Að vísu veit ég ekki, hvort allir sjálfstæðismenn fylgja þessum brtt., — ég hefi ekki borið það undir þá. En ég vil segja það, að svona mál er óheppilegt að gera á nokkurn hátt pólitískt, því hér eigum við allir að vinna að því að leysa þau vandamál, sem um er að ræða, á þann hátt, að allir, sem við eiga að búa, geti haft hag af, án alls tillits til þess, hverjar pólitískar skoðanir þeir hafa.