10.12.1934
Sameinað þing: 20. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2841 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

Kosningar

Ólafur Thors:

Ég hefi ekki farið fram á það við hæstv. ráðh., að hann lýsti yfir skoðun síns flokks, heldur aðeins að hann segði sitt álit um þetta. Ég þykist viss um, að innan Alþfl. geti verið skiptar skoðanir um þetta, eins og innan hinna annara flokka, þar á meðal Sjálfstfl. Þetta getur ekki verið flokksmál, og af þeim ástæðum einum hefir Sjálfstfl. þurft þennan langa tíma til þess að ráðgast um þetta mál. Ég sé þess vegna ekki, að hæstv. ráðh. hafi frambærilegar ástæður til þess að neita að svara því, hvað hann persónulega álítur um þetta. Mér þætti því vænt um, ef hæstv. forseti Sþ. vildi verða við þeim tilmælum mínum að segja sitt persónulega álit, hvort hann áliti rétt, að það sé þetta sjónarmið, sem eigi að leggjast til grundvallar. Hann hefir lengi átt sæti í þessari n. og er bæði forseti þessarar virðulegu samkundu og formaður síns flokks, svo það er fyllilega eðlilegt að beina til hans þessari fyrirspurn, og ég veit, að honum er bæði ljúft og skylt að verða við þeim tilmælum mínum að svara henni.