13.12.1934
Neðri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1634 í B-deild Alþingistíðinda. (1685)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Guðbrandur Ísberg [óyfirl.]:

Af þeim brtt. sem liggja fyrir við frv., er ein langþýðingarmest, sú, að leyfð sé bein sala mjólkur til neytenda hér í Rvík. Ég hefi heyrt, að stærri framleiðendur hér séu ekki móti miðstöð, enda er reynslan frá Akureyri, að flestir stærri framleiðendurnir selja gegnum samlagið. Það eru því einkum smærri framleiðendurnir, sem ég ber hér fyrir brjóstinu, þeir menn, sem eiga 1 —2 kýr og hafa þær til stuðnings sér við lífsframfærslu sína og sinna. Þessir menn kjósa allflestir beina sölu, þó að þeir þurfi að borga í verðjöfnunarsjóð, þ. e. a. s. ef frá er dregin sú neyzlumjólk, sem þeir nota til heimilanna. Maður, sem hefir eina kú og notar sjálfur 2000 lítra af 3000, og verður að greiða verðjöfnunarskatt af allri mjólkinni, hann borgar ekki 5% í verðjöfnunarsjóð, heldur 15%, þar sem hann selur aðeins 1000 lítra, en borgar af 3000, ef hann er látinn greiða af sinni eigin neyzlumjólk. Þetta ranglæti hefi ég minnzt á áður, en mig furðar, að hæstv. forsrh. skuli gerast málsvari fyrir slíkt óréttlæti. Hæstv. forsrh. segir, að því sé ekki mótmælt, að kýrnyt hér í Rvík sé 3000 lítrar. Ég hefi mótmælt þessu og mótmæli því, að þetta sé rétt, þar til komið er með skýrslur, sem sanna annað. En ég hygg, að hvergi hér í Rvík sé notuð sú eina örugga leið um mælingu mjólkur, sem er að vega mjólkina með réttri vog. Reynslan hefir sýnt, að ef notuð er rétt vog, þá getur munað allt að 10% frá því, sem mjólkin mælist. Mælirinn er ólöggiltur, og oft er hann ekki fullur. En um þetta atriði o. fl., er snertir nythæð kúnna, væri hægt að flytja heilan fyrirlestur, og skal ég ekki koma lengra inn á það.

Það mun vera reynsla þeirra, sem kaupa kýr, að þeir fá lakari kýr en þeir, sem ala þær upp sjálfir af góðum stofni. Ég hygg að Korpúlfsstaðabúið sanni þetta fullkomlega. Þar mun ekki hafa fengizt sú meðalkýrnyt — og ekki nálægt því —, sem hæstv. forsrh. heldur fram að sé hér, og hefir þó verið reynt að vanda um val á þeim kúm, sem þangað hafa verið keyptar.

Það er nú orðið svo framorðið, að ég held, að það sé ekki gustuk að halda mönnum hér lengur, og skal ég því ekki fara út í þau atriði, sem orðin eru þrautrædd af öðrum. En ég vil vænta þess, að hv. meðnm. mínir í landbn. gangi ekki framhjá því að leyfa 2000 lítra frádrátt fyrir heimilisneyzlu.