13.12.1934
Neðri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1634 í B-deild Alþingistíðinda. (1686)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Ólafur Thors:

Ég vil fyrst leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta, hve lengi hann hugsar sér að halda fundi áfram. Það hafa nú undanfarið verið fundir kvöld eftir kvöld til kl. 1 og 2 á nóttunni, og það stappar nærri, að þetta séu hlægileg vinnubrögð, þegar þm. eiga fyrst að sitja á nefndarfundum frá kl. 9 eða 10 að morgni til hádegis, og síðan á deildafundum til kl. 1 og 2 á nóttunni frá kl. 1 e. h., því eins og allir vita, er ekki svo, að hér sé um neitt málþóf að ræða, heldur stór ágreiningsmál milli flokkanna, sem eðlilegt er, að séu rædd nokkuð. Vil ég því gjarnan vita, hvað fundur á að standa lengi.