13.12.1934
Neðri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1647 í B-deild Alþingistíðinda. (1697)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Jón Pálmason:

Það eru ekki nema örfá atriði, sem ég hefi ástæðu til að víkja að, og þá fyrst það, sem hæstv. forsrh. vék að í sinni næstsíðustu ræðu, að þeir, sem framleiddu mjólk í Rvík og ættu 1 —2 kýr, notuðu alla sína mjólk sjálfir og þyrftu því ekkert verðjöfnunargjald að borga. En ég fæ ekki annað séð en að þeir verði að borga af því, sem er umfram 2000 lítra, svo að þetta er ekki rétt hjá hæstv. forsrh.

Þá vil ég mótmæla því, sem hv. frsm. hafði eftir mér, að það verðjöfnunargjald, sem þessir menn greiddu, gæti orðið 10 aurar. Það hefi ég aldrei sagt. Eins og ég skýrði frá snemma undir þessum umr., þá er um annað hvort að ræða fyrir þessa menn að greiða 4 aura gerilsneyðingargjald og 4 aura sölugjald og ganga í samsöluna, eða vera utan hennar og greiða fullt verðjöfnunargjald, 6 —8%. Þetta er nokkuð annað en hv. þm. Mýr. þóttist hafa eftir mér, að ég hefði sagt, að hér væri um að ræða 10 aura skatt. Þó að ekki sé lengra gengið en þetta, þá er hér nokkur mismunur frá því, sem landbn. leggur til.

Svo ég drepi á aðstöðu stærsta bóndans, sem hér á hlut að máli, þá er auðsætt, að hann verður samkv. fyrirmælum þessa frv. að borga geysiháa upphæð, sem hann er laus við nú. Við því væri vitanlega ekkert að segja, ef bein nauðsyn væri til þess, en mér skilst, að framleiðsla hans sé á það háu stigi, að þar verði ekki um bætt. Ég efast því um, að það sé rétt að knýja hann inn í þessa sölumiðstöð.

Hæstv. forsrh. vildi halda því fram, að það væri rangt hjá mér, að hægt væri að byggja reglugerð á ákvæðum 5. gr. Það má vera, að svo sé frá hans sjónarmiði, en hann fær þá bara allt annað út úr h en ég fæ út úr þeim.

Að síðustu vil ég endurtaka það, sem hv. þm. Mýr. vék að, að það er rangt hjá hæstv. ráðh., að mál þetta hafi verið fleiri vikur hjá landbn., því að hún hafði það aðeins nokkuð á þriðju viku til meðferðar.