10.12.1934
Sameinað þing: 20. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2842 í B-deild Alþingistíðinda. (170)

Kosningar

Hannes Jónsson:

Ég er að vissu leyti ánægður með umsögn hæstv. forseta, því mér skilst, að a. m. k. meðan flokkarnir eru ekki fleiri heldur en nægir til þess að skipa í þessa n. einn mann frá hverjum flokki, þá muni þessi regla viðhöfð, og það er aðalatriðið. Náttúrlega kemur annað til greina ef flokkarnir yrðu fleiri, því þá get ég hugsað mér, að ekki sé hægt að fara eftir atkv.magni flokkanna hvers um sig, því verið gæti, að tveir minni flokkar vildu slá sér saman, og þeir samanlagt hefðu meira heldur en sá hinna flokkanna, sem flest atkv. hefði.

En það, sem ég hefi viljað fá fram við þessa umr., en ekki hefir tekizt, er það, hvort það hafi verið réttmætt, sem Framsfl. leyfði fyrir sitt leyti á sínum tíma, að Alþfl. fengi sæti í n., þótt hann þá ætti ekki nema 2 fulltrúa á þingi. Ef þetta er viðurkennt, hlýtur líka sama reglan að vera gildandi nú og í framtíðinni.