18.12.1934
Neðri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1650 í B-deild Alþingistíðinda. (1709)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Ég hefi borið hér fram brtt. á þskj. 870.

1. brtt. er við 2. gr. Nú er ákveðið, að undanþága frá verðjöfnunargjaldi sé miðuð við eina kú fyrir hvern ræktaðan hektara. Ég tel réttara að miða við 3000 lítra mjólkur, enda er það í meira samræmi við 5. gr.

Þá eru brtt. við 6. gr. Eru hinar fyrstu þeirra um tilnefningu í mjólkursölunefnd, og eru á þá leið, að í stað þess, að samkv. frv. á landbúnaðarráðherra að tilnefna tvo menn, en bæjarstjórn Rvíkur einn, þá tilnefni bæjarstj. tvo, en ráðh. einn, og sé sá form. n.

Þá er og brtt. við síðustu málsgr. 6. gr. á þá leið, að verðjöfnunarsjóður skuli einn greiða kostnað af störfum n., í stað þess, að eftir frv. á verðjöfnunarsjóður að greiða 3/7 og ríkissjóður 4/7. Auk þess er felldur niður síðasti málsliður: „Annar óhjákvæmilegur kostnaður“ o. s. frv., og aðeins gert ráð fyrir, að nefndarmönnum sé greitt kaup fyrir fundardaga. Um það geta þó verið skiptar skoðanir. Hitt tel ég alveg sjálfsagt, að kostnaður við slík nefndarstörf sé greiddur af verzluninni sjálfri, enda hefir ríkissjóður nóg á sinni könnu, þótt þessu sé létt af honum.