18.12.1934
Neðri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1657 í B-deild Alþingistíðinda. (1715)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Jón Pálmason:

Ég kemst ekki hjá að segja örfá orð til andsvara hæstv. forsrh., en skal þó ekki tefja tímann með langri ræðu.

Hæstv. ráðh. fór fram á það, að við hv. þm. Ak. tækjum aftur okkar till., af því að hann lagði á móti þeim og komst svo að orði, að það væri til mikils spillis að samþ. till., sem kæmu fram á síðustu stundu. Ég get því miður ekki orðið við þeim tilmælum, að taka till. aftur, en mér koma þessi ummæli á óvart, því að við gerðum það til samkomulags við hæstv. forseta að draga þær til baka við 2. umr., af því að d. var ekki fullskipuð, þegar gengið var til atkv. Það er því fjarri því, að þessar till. hafi komið fram á síðustu stundu, því að þær voru þrautræddar við 2. umr. þessa máls í þessari d.

Annars skal ég ekki ganga langt í að ræða efnishlið þessa máls, þar sem svo mikið hefir verið um það rætt, að málið mun liggja ljóst fyrir öllum hv. þm. Aðalágreiningurinn virðist vera um það, hversu langt eigi að knýja þau samvinnufél., sem á þessu sviði starfa, inn undir það opinbera vald, sem hér kemur fram í mynd hinnar svonefndu mjólkursölunefndar. Okkur þykir þar óþarflega langt gengið, og þess vegna eru þessar till. fyrst og fremst bornar fram.

Í öðru lagi er það vitað, að ágreiningur er um það, hve verðjöfnunargjaldið sé hátt. Því var haldið fram við 2. umr., að þetta gjald væri of hátt, þar sem það var 69 eða 72 kr. á hverja kýrnyt, og ég verð að álíta að það sé óeðlilegt að byrja þetta mál með að ákveða af Alþingi, að menn skuli greiða svona tilfinnanlegan skatt. Út í það skal ég svo ekki fara lengra; það mál liggur svo ljóst fyrir, að ég geri ráð fyrir, að allir hafi nú tekið afstöðu til þess.

Viðvíkjandi því, að við berum fram brtt. um að undanþiggja 1800 lítra til heimilisnotkunar, þá telur hann, að hún mundi valda því, að meira yrði farið í kringum l. Ég hygg, að seint verði hægt að girða fyrir, að hægt verði að fara kringum l., en í þessu tilfelli mundi það komast fljótlega upp.

Snertandi það, sem við leggjum til, að ríkissjóður borgi formanni, en verðjöfnunarsjóður greiði kostnaðinn að öðru leyti, þá leggjum við ekki sérstaka áherzlu á það, en ég tel óviðfelldið að segja, að ríkissjóður eigi að greiða 3/7 og verðjöfnunarsjóður hitt. Það væri nær að skipta þessu t. d. til helminga. Annars er þetta atriði, sem ég út af fyrir sig legg ekki mikið upp úr, en það eru önnur atriði, sem meiru máli skipta. Það er gefið, að meiri hl. getur ákveðið að drepa þessar till. allar eins og þær eru, en ég held, að það sé miklu hyggilegra að koma þessum l. þannig fyrir, að þau séu byggð á frjálslegum grundvelli, svo að þeir, sem koma til með að eiga við þau að búa, geti verið nokkurnveginn ánægðir með þau.

Snertandi þá till., sem hv. 2. þm. Reykv. ber fram, að miða við 3000 lítra í staðinn fyrir eina kú, þá sé ég ekki, að hún sé til neinna bóta frá því, sem er.

Ég skal svo ekki eyða fleiri orðum að þessu. Málið liggur svo ljóst fyrir, að langar umr. munu ekki hafa mikla þýðingu.