04.12.1935
Neðri deild: 50. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1204 í B-deild Alþingistíðinda. (1720)

15. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt. Í Ed. voru gerðar á því nokkrar breyt. í þá átt að auka vald bankanna yfir gjaldeyrinum. Meiri hl. n. telur óhjákvæmilegt eins og nú stendur, að ríkisstj. og bankarnir ráði yfir öllum þeim gjaldeyri, sem til fellur. Utanríkisverzluninni er þannig háttað og mun verða fyrst um sinn, að nauðsynlegt verður að teljast, að skipulag sé á innflutningi vara og notkun gjaldeyris. Í frv. er þessu skipt, en það kemur í sama stað niður, þar sem sömu mönnum er ætlað að fjalla um hvorttveggja. Gjaldeyrisráðstafanir eingöngu nægja ekki, því að þá er mönnum sá möguleiki opinn að nota lánstraust sitt til þess að flytja inn vörur í von um að fá gjaldeyrisleyfi síðar. Það getur verið óþægilegt fyrir banka og ríkisstj. að standa lengi á móti greiðslum slíkra skulda, því að þegar slíkar skuldir hafa skapazt, er auðvelt fyrir kröfuhafa erlendis að fá stjórn síns lands í lið með sér. Þannig gæti verið hætta á, að ónauðsynlegur innflutningur æti upp að meira eða minna leyti þann gjaldeyri, sem þörf er á vegna innflutnings nauðsynjavara og í aðrar óhjákvæmilegar greiðslur. Meiri hl. n. álítur öryggi þessara mála bezt borgið með því, að komið sé á þau föstu skipulagi, og hyggur, að því megi svo fyrir koma, að allir geti við unað.