04.12.1935
Neðri deild: 50. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1206 í B-deild Alþingistíðinda. (1722)

15. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég ætla ekki að fjölyrða um málið. En viðvíkjandi orðum hv. 3. þm. Reykv. um að fresta umr. vildi ég beina þeirri ósk til hans að geyma brtt. til 3. umr., til þess að málið þurfi ekki að tefjast. Það er nú orðið áliðið þingtímann, en áríðandi, að málinu verði lokið. Ég sé ekki ástæðu til langrar umr. um þörfina á innflutningshöftum eða hvaða gagn þau geti gert. En ég vildi aðeins benda á, að það, sem skilur hér á milli meiri og minni hl., er það, að eftir frv. eins og það liggur fyrir eru innflytjendur skyldir að leita innflutningsleyfis áður en þeir flytja vöruna inn og stofna til skuldar, en séu gjaldeyrishömlurnar einar látnar nægja, geta menn flutt inn vörur og sótt svo um gjaldeyrisleyfi eftir á til greiðslu þeirra. Í þessu er fólginn aðalstefnumunur meiri og minni hl., en eins og hv. þm. V.-Ísf. sagði, getur það verið varhugavert, að menn fái að stofna þannig til skulda, því að það getur þá orðið óhjákvæmilegt að veita gjaldeyri til greiðslu skulda, sem óþarft var að stofna til. Ég get sagt það til upplýsingar, að ég veit ekki betur en að öll gjaldeyrisnefndin, sem nú situr, sé sammála um þetta frv., og þar á meðal fulltrúi verzlunarstéttarinnar, Björn Ólafsson kaupmaður. Ég vildi aðeins taka þetta fram til þess að skýra mismuninn á þeim skoðunum, sem fram hafa komið í þessu máli.