18.12.1934
Neðri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1659 í B-deild Alþingistíðinda. (1723)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Thor Thors:

Ég hreyfði því við 2. umr. þessa máls, að vænta mætti, að það væri tilgangur þessarar löggjafar að tryggja, að þeir, sem hefðu hina landfræðilegu aðstöðu til að njóta markaðsins hér Rvík, fengju það í framtíðinni. Mér hefir nefnilega skilizt, að ákvæðið um verðjöfnunargjaldið sé fram komið til þess að tryggja þetta atriði og til þess að fyrirbyggja það mjólkurstríð, sem annars hefði vel getað komið upp. Ég skaut því til landbn., hvort hún vildi ekki taka til athugunar til 3. umr., hvort ekki væri rétt að taka slíkt ákvæði inn í l., sem tryggði það, að þeir, sem standa næst markaðinum, fengju að ganga fyrir með sölu á þeim markaði, og að þess yrði jafnframt gætt, að ekki yrði meiri mjólk flutt til sölu inn í sama kaupstað en venjuleg þörf þess markaðs segir til. Ég sé, að n. hefir ekki tekið þessar till. upp. Þó má vera, að hún vilji fallast á, að það sé einn aðaltilgangur þessarar löggjafar að tryggja þetta. Ég vil leyfa mér að spyrja hv. frsm. landbn., hvort þetta sé réttur skilningur, og eins vil ég óska, að hæstv. forsrh. lýsi því yfir, hver er hans skoðun á þessu atriði.