18.12.1934
Neðri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1661 í B-deild Alþingistíðinda. (1728)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Hv. 5. þm. Reykv. spurði, hvort ég gæti svarað fyrirspurn sinni frá 2. umr. um það, hve mikið hefði verið leyft að flytja af erlendu smjöri til landsins. Ég ætla, að þetta ár hafi verið flutt inn um 100 kvartil, en satt að segja hefi ég gleymt að afla mér fullra upplýsinga um þetta atriði, af því að ég taldi það svo smávægilegt.

Ég get látið hjá líða að mestu að tala um þær brtt., sem fram eru komnar. Ég vil leggja áherzlu á það, að brtt. þeirra hv. þm. Ak. og hv. þm. A.-Hún. verði allar felldar. Um brtt. hv. 2. þm. Reykv. er það að segja, að ég tel ekki miklu máli skipta, hvort undanþágan er miðuð við 3000 lítra eða eina kú, en af því hlýtur þó að leiða, að þeir, sem hafa hærri ársnyt, verða að borga aukaskatt, en þeir, sem eiga kýr með lægri ársnyt geta haft 10 —11 kýr undanþegnar verðjöfnunarsjóðsgjaldi, þótt þeir hafi ekki nema 8 ha. land. Ég tel því betra að halda ákvæðinu eins og það var í frv.

Þá er brtt. hans við kostnaðarhliðina á störfum n., sem hann að vísu tjáði sig ekki ófúsan til að taka aftur. Röksemdir hans voru þær, að allir ynnu jafnt í n., hvort sem þeir væru framleiðendur eða ekki. En það er á það að líta, að n. vinnur ekki meira í sjálfu sér, þótt hún sé skipuð 7 mönnum en þótt hún væri skipuð 5 eða 3. Það getur á engan hátt talizt rétt að framleiðslan borgi neytendum fyrir það, að „kontrollera“ framleiðendur.

Um nefndarskipunina er það að segja, að ég tel alveg rangt að breyta frá því, sem nú er ákveðið í frv. Breyt. þær , sem felast í brtt. hv. 2. þm. Reykv., gætu ekki heldur komizt til framkvæmda fyrr en 1. maí, er ný nefnd verður skipuð. Ég vænti þess fastlega, að þessar brtt. verði felldar, þar sem Alþýðusambandið á nú fulltrúa í n. og annar er kosinn af bæjarstj. Rvíkur, og mun mega skoða hann í senn fulltrúa neytenda, og Sjálfstfl. Ég fæ ekki séð, að öryggi neytenda væri neitt betur tryggt, þótt Alþfl. fengi einn fulltrúa til viðbótar í n., þar sem báðir flokkar hafa þar nú þegar fulltrúa, til að gæta hagsmuna neytenda. Það mætti þá segja, að eins þyrfti að bæta einum manni frá Sjálfstfl. í n., svo að neytendur hefðu þar meiri hl.! Ef þessar brtt. verða ekki felldar hér, munu þær verða teknar til athugunar í Ed.