18.12.1934
Neðri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1663 í B-deild Alþingistíðinda. (1740)

31. mál, sala mjólkur og rjóma

Sigurður Kristjánsson:

Ég hefi nú ekki tafið umr. um þetta mál. En út af fyrirspurn hv. 5. þm. Reykv. og svörum hæstv. forsrh. vild ég beina örfáum orðum að þessu umræðuefni, og þá sérstaklega að hæstv. ráðh. Hann segir, að lítil þörf sé að ræða þetta, því ekki séu líkur til, að þetta komi fyrir aftur. Hver getur sagt um þörfina, hvenær hún verður fyrir hendi eða hver hún er? Ég held, að það geti enginn. Þetta er því sagt algerlega út í bláinn. Mér er sagt, að þessu innflutningsleyfi hafi fylgt það skilyrði, að verðið á smjörinu mætti ekki vera lægra en 4 kr. kg. Það þarf enginn að segja mér, hvaða mælikvarði það er á þörfina fyrir smjör, hversu margir geta keypt það fyrir 4 kr. kg. Hér í bænum er fjöldi barna og fjöldi bágstaddra heimila, sem líða skort hollrar fæðu. Hér bindast Framsfl. og Alþfl. samtökum um að gera neysluvöruna dýrari en þurfti. (PZ: Þetta var fyrir ári síðan). T. d. í þessu tilfelli var það sett að skilyrði, að vöruna yrði að selja þreföldu verði. Varan var því seld með okurverði, og er það vítavert af stjórnarvöldunum að hafa sett það sem skilyrði. Þessi innflutningur var leyfður vegna skorts á vörunni, svo að ekki gat komið til greina nein samkeppni við innlenda framleiðslu. Ástæðan var því ekki sú fyrir að setja þetta háa verð. Hér var bara verið að skapa einstökum mönnum eða félögum tækifæri til að okra á vörunni, og varna með því fátæku fólki að nota heilnæma fæðutegund. Ég veit ekki, hvað langt á að ganga til þess að það sé ekki þolað. Er þarflaust að nota sér þörf fólksins á þennan hátt til að okra á fæðutegund og til þess að fátæk alþýða geti ekki notað sér hana fyrir dýrleika sakir.

Ég vil f. h. þeirra, sem hafa falið mér umboð til að sitja á þessari samkundu, mótmæla því sem vítaverðri óhæfu, að oftar verði gengið inn á þessa braut, sem er gersamlega óforsvaranleg frá öllum sjónarmiðum.