07.12.1934
Neðri deild: 53. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1209 í B-deild Alþingistíðinda. (1745)

15. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

Sigurður Kristjánsson:

Þetta mál hefir verið til meðferðar í n., og ég hefi talið rétt, að nm. færðu fram rökin með og móti, áður en ég tæki til máls. Þetta mál, sem er til umr. hér, snertir sérstaklega marga af þeim mönnum, sem hafa trúað mér fyrir því að fara með umboð sitt hér á hv. Alþ., og því ber mér ekki að láta það afskiptalaust.

Það er nú orðið nokkuð langt síðan innflutningshaftafarganið hófst; og það byrjaði mildara en það er að verða nú. Það er enginn vafi á því, að heimildarlögin frá 1921 hafa verið ranglega notuð. Ég hefi ekki heyrt nein frambærileg rök flutt fyrir því, að þessi heimildarlög leyfi að banna innflutning á stórum flokkum nauðsynjavara. Það voru aðeins leyfð höft á ónauðsynlegum vörum. Það kemur greinilega fram, að það er óþarfavarningur, sem átt er við, eða það eitt, sem menn geta eða eiga kannske að vera án, en alls ekki það, sem almenningur þarf á að halda.

Það er frá mínu sjónarmiði engum vafa bundið, að sterkasta ástæðan fyrir því, að þessi braut var farin, var þörf einstakra verzlunarfyrirtækja hér á landi, og eftir að lagt var út á þessa braut, þá var hún óslitin röð af misrétti og skilningsleysi þeirra, sem málinu hafa stjórnað. Ég gæti fært svo mörg dæmi fram fyrir þessu, að dagurinn entist ekki til þess. Og nú er enn hert mjög á þessum höftum og stj. ætlar nú að reka endahnútinn á með þessu frv. og fá heimild til að banna innflutning á öllum sköpuðum hlutum til landsins. Mér þykir ekki ólíklegt, að þetta sé skoðun allra þm. í stjórnarflokkunum, þó að ég hafi ekki sönnun fyrir því enn. Undarlegt má það þó vera, þegar það er athugað, að innflutningshöftin hafa annarsvegar alls ekki náð þeim tilgangi sínum að minnka innflutning til landsins, og hinsvegar hafa þau skapað almennt aukna dýrtíð í landinu, til fullkominnar bölvunar fyrir alla alþýðu landsins, og þá er það merkilegt, að allir stjórnarsinnar, sem þykjast vera umboðsmenn þeirra fátækari í landinu, skuli geta verið sameinaðir um að leggja þessa bölvun á alla alþýðu þessa lands, þó að með því sé hægt að hlynna að einstökum verzlunarfyrirtækjum, en vinna öðrum tjón og óþægindi.

Ég sagði, að innflutningshöftin hefðu ekki náð þeim tilgangi að minnka innflutning til landsins. Á því skal ég nú gefa nokkra skýringu, þó að þess sé engin þörf, því að um það eiga allir þeir að vita, sem það vilja vita og hafa opin augun. Innflutningsskýrslurnar sýna, hvernig þessu er farið. Fyrsta árið, sem höftin voru, fluttist hér inn talsvert miklu minna en áður, sem allir gátu séð, að stafaði af því einu, að þá var verið að eyða upp birgðum, sem fyrir voru í landinu, en strax næsta ár óx innflutningurinn um að því er mig minnir 10 millj. kr., og ég ætla, að hann muni aukast þetta ár um ekki óverulega upphæð. Þetta sýnir máttleysi innflutningshaftanna í því að láta menn nota minna af innfluttum vörum en áður hefir verið. Þetta er ekki undarlegt, og fyrst og fremst af því, að ríkið er nú búið að sölsa undir sig ekki svo lítinn hluta af innflutningi til landsins, og þessi innflutningur hefir færzt í vöxt, jafnvel þó að það hafi verið miður nauðsynlegar vörur. - Í öðru lagi er það, að undanskildar hafa verið þær vörur, sem dýrastar eru í innkaupi og þar af leiðandi gjaldeyrisfrekastar. En þegar mönnum er bannað að flytja inn það, sem þeir hafa áður verzlað með, þá verður flestum það fyrir að reyna að selja aðrar vörutegundir, sem þeir hafa ekki áður haft í verzlun sinni, og í þessum tilfellum hafa það einmitt orðið gjaldeyrisfrekar vörur. Nú á víst að setja undir þann leka með því að banna allan innflutning. En ég geri ráð fyrir, að þá komi að því, sem áður hefir sýnt sig, að ef skortur er á einhverri vöru, þá er ekki hægt að standa á móti, og verði þá undanþágur veittar.

Ég vil í þessu efni taka undir það, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, að hver maður, sem hefir augu, geti gengið um bæinn, og þá geti hann séð, að búðargluggarnir eru fullir af vörum, sem átti að hefta innflutning á. Það er bersýnilegt af öllum þeim söluskemmum, sem hér eru, að hér er enginn hörgull á allskonar varningi fyrir þá, sem efni hafa á að kaupa hann, og það stafar vitanlega af því, að innflytjendur hafa haft einhver ráð með að ná í þennan varning. Hitt er alveg bert, að það hefir verið beitt mikilli hlutdrægni um þennan innflutning. Hann hefir víðast komizt á færri manna hendur og líka á annara en áður höfðu, og þar af leiðandi hefir varningurinn orðið dýrari en áður.

Enginn má þó skilja orð mín svo, að þetta gildi aðeins um óþarfan varning, því að innflutningshöftin hafa engu síður gengið út yfir nauðsynjavörur, það er ekki langt síðan það komu mjög harðar umkvartanir frá atvinnurekendum þessa lands út af því, að þeim væri bannað að flytja inn brennsluefni (olíur til mótorvéla), og ef þeir fengju það, þá yrðu þeir að sæta mjög háu verði, miklu hærra en á meðan þeir fengu að flytja það inn sjálfir. Þetta dæmi er aðeins eitt af mörgum, sem sýna, hversu illa það kemur sér, þegar slíkar hömlur eru settar.

Það er sjálfsagt rétt, sem fram hefir verið tekið hér, og er það einasta, sem hv. formælendur þessa frv. hafa flutt fram því til stuðnings, að við höfum þannig lagaða samninga við ýmsar þjóðir, að við verðum að beina viðskiptum til þeirra. En að þessu er opin leið, bæði gegnum gjaldeyrisverzlunina og einnig getur ráðh. gripið þar fram i, ef honum sýnist þess þörf. En almennt bann á öllum innflutningi til landsins þarf ekki vegna þessara hluta. Það er spunnið af allt öðrum toga.

Það má vel vera, að þeir menn, sem eiga því láni að fagna - ef lán skyldi kalla - að eiga hér sæti, þeim liggi í léttu rúmi fyrir sig persónulega, hvort þær vörur, sem þeir þurfa að kaupa fyrir sig og sína, eru 20-40 eða 100% dýrari en hægt væri að fá þær, - en ég vil fá mig þar undanskilinn. Og fáir af kjósendum þeirra munu þannig settir, að þeim sé sama. Ég er alveg viss um, að það er plága, er þeir leiða yfir kjósendur sína með því að samþ. þetta frv.

Það er náttúrlega fleiri en ein stoð, sem renna undir þetta frv., þó að engin þeirra sé lofsverð. Það er fyrst og fremst það, sem ég nefndi áðan, að það er auðvelt að misjafna milli þeirra manna, sem flytja inn vörur. Það er hægt fyrir ráðríka menn að gera einn ríkan og annan snauðan. En með þessu máli er fyrst og fremst bægt að gera almenning snauðan. En það er líka annað, sem hvetur til að setja þessi l. Ýmsir þeirra, sem standa nærri stj., vilja taka sem mest af athafnafrelsi almennings frá honum. Þetta er einn ríkasti þátturinn í kommúnismanum, sem stj. vill helzt ekki kannast við, að hún fylgi: að taka af mönnum sem flest yfirráð þeirra eigin mála. Það er einnig tilætlunin hér, að banna mönnum að fá þær vörur, er þeir þurfa að fá, nema með sérstöku leyfi stj. Þó að ekki væri nema þetta eitt, þá væri það nóg ástæða fyrir mig og aðra, sem eru andvígir þessari þrælkunarstefnu rauðu flokkanna, til að vera á móti þessu frv. Og ég geri ráð fyrir, að þeir séu margir, og það mjög margir af þeim, sem hafa gefið stjórnarsinnum umboð til þess að fara inn á þessa samkomu, sem mundu verða þeim mjög lítið þakklátir fyrir að fylgja stefnu kommúnista.

Ég skal svo ekki eyða frekar orðum um þetta, því að það er um það eins og margt fleira, sem á að beygja menn undir á þessu þingi, að það þýðir sennilega ekkert á móti því að standa. En það er enginn vafi, að það fer að endingu svo með þetta eins og allar þær hömlur og höft, sem eru lögð á fólk, að fólkið mun velta þeim af sér og þar með þeim mönnum, sem hafa komið þeim á.