12.12.1934
Efri deild: 59. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í B-deild Alþingistíðinda. (1749)

15. mál, gjaldeyrisverslun o.fl.

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Það hafa verið gerðar tilraunir í báðum hv. þd. til þess að breyta þessu frv., þannig að lögð yrði aðaláherzlan á gjaldeyrishömlurnar, sem í frv. eru, en aftur á móti felldar burt innflutningshaftaráðstafanirnar, sem gert er ráð fyrir í frv. Hv. meiri hl. beggja þd. hefir komið sér saman um að fella þessar brtt.

Það hefir engin breyt. verið gerð á þessu frv. í hv. Nd. önnur en sú, að því hefir verið bætt við 3. gr., að bankarnir skuli greiða helming nefndarkostnaðar. Þetta er vitanlega engin stefnubreyting á málinu, almennt talað. Það getur kannske verið gott fyrir ríkissjóð að koma kostnaðinum yfir á herðar bankanna, en það er enginn stefnubreyting á frv. Tilgangurinn með þessum innflutningshöftum er samkv. yfirlýsingu hæstv. fjmrh. það, sem hann kallar „að loka kaupgetuna inni í landinu“. Við töluðum um þetta, þegar málið var til meðferðar hér í þessari hv. d., að auka kaupgetuna innanlands, til þess að koma meira fjöri í atvinnulífið, og loka kaupgetuna inni. Ég ætla því ekki að fjölyrða nú um það sama, sem ég talaði þá um, sem sé, að jafnvel þótt kaupgetan yrði lokuð inni, þá yrði það aðeins til þess að kippa okkar gjaldeyri úr öllu sambandi við gjaldeyri annara landa og fella krónuna raunverulega í verði, þ. e. a. s. að fella kaupmátt krónunnar, en halda henni hinsvegar í sama gengi með þessum sterku gjaldeyrisráðstöfunum.

En aðalatriði þessa máls, eins og það birtist í þessu frv., er dæmalaust „humbug“, því að samtímis því, sem sett eru fullkomin innflutningshöft, eru gerðir samningar við ýmsar stórþjóðir um að hafa alls engin innflutningshöft frá þeim löndum. Nýlega hefir t. d. verið birtur útdráttur úr Spánar-samningnum. Eitt ákvæði hans fjallar um það, að engum hömlum megi beita innflutning til Spánar, né heldur gjaldeyri til kaupa á vörum þaðan. Þetta sýnir greinilega, að samtímis því, sem settar eru þessar ströngu gjaldeyrishömlur, er beizlinu beinlínis sleppt fram af í þessu efni. Þetta er hliðstætt því, að sett væri hér algert vínbann, en samtímis væri svo heimilað að flytja vín frá ákveðnu vínlandi. Innflutningshöftunum er því í raun og veru létt af með þessu. Þær vörur, sem hægt er að fá frá Spáni, er því auðvelt að kaupa hömlulaust. Hér er t. d. úthlutað litlum innflutningsskömmtum af stórum vörutegundum, eins og t. d. skófatnaði. Spánverjar framleiða mikið af skófatnaði, m. ö. o., á þessari stóru vörutegund eru engar hömlur. Ég efast ekki um, að flytja megi allskonar dót og glingur til landsins frá Spáni.

Þá má minnast á það, að bílar eru fluttir í stórum stíl frá öflugum amerískum bílaverksmiðjum til Spánar og settir þar saman. Þeir eiga því uppruna sinn á Spáni, og er því ómögulegt að hefta innflutning á þeim. Það, sem við höfum þannig upp úr hömlum á bílum frá Ameríku, er það, að við verðum að borga 800-900 kr. meira en ella fyrir hvern bíl. Þetta sýnir, að það er rétt, sem ég hefi oft haldið fram, að þessi innflutningshöft eru oft beinlínis til þess að auka gjaldeyriseyðslu, en ekki gjaldeyrissparnað.

Ég fyrir mitt leyti mun ekki bera fram brtt. við þetta frv. að þessu sinni. Meiri hl. hv. Alþ. virðist vera staðráðinn í því að samþ. þetta „humbug“ og setja þessar ströngu reglur um innflutningsbann samtímis því, sem dyrnar eru galopnaðar fyrir frjálsum innflutningi. Þetta á að vera bragð til þess að sýna, hve áhugi stjórnarliðsins á þessum málum er mikill, svo að minna beri á því, að raunverulega er búið að létta innflutningshöftunum af. Það eru vissar vörutegundir, sem við ýmist getum ekki flutt frá þessum löndum eða við verðum smátt og smátt að binda okkur við að kaupa frá öðrum þjóðum, sem við kaupum af. Mér finnst, að menn ættu að horfast í augu við veruleikann í þessu efni, en ekki að vera að dragnast með þennan hégóma, fyrst við getum það ekki. Ég mun því greiða atkv. móti þessu frv.

Ég viðurkenni að vísu, að það geti verið gagn að gjaldeyrisráðstöfunum, en í þessu tilfelli fylgir svo margt annað með, að mér er ómögulegt að greiða frv. atkv. mitt.