18.10.1934
Efri deild: 14. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í B-deild Alþingistíðinda. (1764)

14. mál, tolllög

Jón Auðunn Jónsson:

Ég saknaði þess, þegar ég las þetta frv., að í grg. þess var engin grein gerð fyrir því, hverjar tekjur það mundi gefa ríkissjóði. En þegar ég las það nánar, sá ég, að vart mundi vera um tekjuauka að ræða af því. Í frv. er aðallega farið fram á að hækka toll af tóbaki, en til þess að fá tekjuauka af þeirri vöru þarf ekki að fara þessa leið, því það hefði verið nóg að hækka álagningu á því. (Fjmrh.: Til þess hefði þurft lög). Auðvitað, en þetta frv. gefur ekki ríkissjóði þær tekjur, sem ekki hefði verið hægt að ná með álagningu. Í öðru lagi er innflutningur á ávaxtasafa fallinn niður, því hann er orðinn innlendur iðnaður. Tollur á þeirri vöru verður því að skoðast sem verndartollur, sem orðið getur til þess, að varan verði óhæfilega dýr. Sama er að segja um súkkulaði. Það er nú orðið innlendur iðnaður. Ég hefi ekki séð í búðum nú í seinni tíð erlendar tegundir af þeirri vöru. Hér verður því aðeins um verndartoll að ræða á þessari vöru einnig, sem hækkar verð hennar fyrir þá, sem kaupa hana. Þó er vara þessi nauðsynleg, einkum heilsuveilu fólki. Þó þetta frv. sé borið fram sem tekjuaukafrv., þá sé ég ekki, að hæstv. ráðh. verði sakaður um að vera að seilast eftir auknum tekjum með því.

Hæstv. forseti er orðinn leiður á umr. um bannmálið í þessu sambandi, en ég verð að segja það, að það veltur algerlega á framkvæmd þeirra laga, hvort tekjur af áfengi aukast vegna þeirra eða ekki. Takist ekki með framkvæmd þeirra að stemma stigu fyrir smyglun og heimabruggi, verða tekjurnar litlu meiri en nú af áfengisverzlun ríkisins. Hinsvegar ef tekst að stemma stigu fyrir þessu hvorutveggja, smygli og bruggun, að miklu leyti, er enginn vafi á því, að tekjurnar aukast stórkostlega. En hvort heldur sem verður, mun kostnaður við framkvæmd laganna verð, nokkurnveginn hinn sami. Það veltur sem sé á framkvæmd laganna, hvort smyglarar og bruggarar eða ríkissjóður fær tekjurnar.