05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1224 í B-deild Alþingistíðinda. (1774)

14. mál, tolllög

Frsm. minni hl. (Jakob Möller) [óyfirl.]:

get ekki stillt mig um að vekja athygli á því, að frsm. meiri hl. fjhn. sagði, að minni hl. n. teldi tóbak svona mikla þarfavöru, að hann væri þess vegna á móti meiri tolli á neftóbaki, munntóbaki og reyktóbaki. Það eina, sem minni hl. n. segir í nál. sínu um þetta atriði, því snýr hv. frsm. meiri hl. alveg við. Hinsvegar telur minni hl. tóbak svo almenna neyzluvöru, sérstaklega neftóbak, munntóbak og reyktóbak, að hann mótmælir tollhækkun þessari, og það sérstaklega vegna þess, að hún mundi koma á þann hátt ósanngjarnlega niður, af því að tollur þessi er miðaður við þunga vörunnar, en ekki verð, að þeir, sem fátækari eru og kaupa lakari tóbakstegundir, vegna þess að þær eru ódýrari, mundu þá verða að borga tiltölulegu meira í toll miðað við verð vörunnar. Hinir efnaðri, sem kaupa fremur dýrari tegundir tóbaks, borga eftir till. frv. minni toll, miðað við verð.

Þegar á að hækka toll, eins og hér er gert ráð fyrir, þá verður að athuga, hver tollurinn er í samanburði við verð vörunnar. Því hærri sem tollur er á vöru í samanburði við verð vörunnar, því meiri hætta er á smyglun með þá vöru.

Nú hefir minni hl. n. bent á það, að sú tollhækkun, sem hér er um að ræða, muni nema jafnvel nær kr. 2,00 á hvert kg., og hækkunin muni nema 33%, miðað við þann toll, sem áður var. En verðhækkunin verður hlutfallslega ennþá meiri. Nú er þess að gæta, að tóbakseinkasalan hefir heimild til að leggja á verð vörunnar, með tolli að ég ætla, 25-75%. Ef 75% álagningin er höfð, þá nemur hækkunin um kr. 3,50 á hvert kg. Og aldrei mun hún verða minni en kr. 3,00 á kg. Vitanlega bætist svo við þetta allt álagning í smásölu.

Það er auðsætt af þessu, að sú gífurlega mikla hækkun á tóbakstollinum og þar með tóbaksverðinu, sem hér kemur til greina, hlýtur að auka mjög hættu á ólöglegri verzlun með þessar vörur. Þessi hætta er þegar orðin mikil vegna þess, að um einkasölu er að ræða á þessu. En hættan eykst mikið við það, að keyrt er svo úr hófi með tollinn sem gert er ráð fyrir í frv. Hér er um tiltölulega ódýrar vörur í innkaupi að ræða, eins og sjá má af því, að þegar búið er að leggja á þær gífurlega, með tollum og annari álagningu, þá kosta þær 7 til 8 til 10 kr. hvert kg.

Möguleikarnir til að smygla þessari vöru inn í landið eru til, því að ef menn vilja segja satt frá, þá er eftirlitið með þessum innflutningi ekki fullkomnara en það hér hjá okkur, að mikið hefir borið á smyglun með þessar vörur.

Ef gengið er út frá því, að þessi ólöglega verzlun verði ekki mikil, þá ber hinsvegar að athuga, hvernig þessi skattaálagning kemur niður. Og þess ber þá að gæta, að þessi skattur kemur, eins og ég hefi vikið að, einmitt mest niður á því fólki, sem sízt má við því. Þessi tollaukning er beinn skattur á fátækari borgara þjóðfélagsins. Vil ég vekja athygli hv. frsm. meiri hl. á því, hve gífurlega ranglát þessi frvgr. er í þessu tilliti. Stefna hv. meiri hl. n. í þessu máli samrímast því ákaflega illa kenningum þeirra og flokksmanna þeirra við agitationa-prédikanir þessara sömu manna, þegar þeir tala hávært um þarfir og afkomumöguleika hinna fátækari landsmanna.

Ég býst nú við, að ekki þýði að hafa langur umr. um þetta mál. Það mun vera ráðið fyrirfram, hvernig málið eigi að fara. Ég geri þó ráð fyrir, að ef frv. verður samþ. eins og það kemur fyrir nú við þessa umr., þá komi fram frá okkur brtt. við 3. umr. um hækkun á þessum tolli frá því, sem í frv. er gert ráð fyrir. Hinsvegar er augljóst, að það er ekki mjög mikið fjárhagsspursmál fyrir ríkissjóð, þó að frv. verði fellt, eins og minni hl. n. leggur til, því að tollahækkanirnar samkv. því eru aðallega þessi tóbakstollur. Tollhækkunin á vindlum og sígarettum er að vísu mjög veruleg, þó að hún hinsvegar hafi ekki mikla þýðingu fyrir ríkissjóð, vegna þess að innflutningur á vindlum a. m. k. er nú lítill orðinn. Gera má ráð fyrir, að hækkandi tollun á vindlum og sígarettum fylgi minnkandi lögleg sala á þeim og því minnkandi tekjur fyrir ríkissjóð.

Minni hl. n. vill sérstaklega undirstrika það, að hér er um að ræða stórkostlega hækkun á tolli af almennri neyzluvöru fólksins í landinu, skatthækkun, sem stríðir þvert á móti öllu orðagjálfri, sem flokkar þeirra, sem eru í meiri hl. fjhn., hafa látið frá sér fara, og því þverbrot á því, sem þeir hafa haldið fram um það, hvernig skattar eigi að koma niður.