11.12.1934
Neðri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1227 í B-deild Alþingistíðinda. (1779)

14. mál, tolllög

Frsm. minni hl. (Jakob Möller):

Fyrri brtt. á þskj. 327 er borin fram samkv. ósk iðnrekenda hér í bænum, og til leiðréttingar á tolli, sem hefir verið hækkaður á vörutegundum, sem þar eru greindar og ekki eru í neinu samræmi við verðið á framleiðsluvörunni. Tollurinn hefir verið innheimtur eftir úrskurði en ekki samkv. beinum lagabókstaf, en úrskurðurinn væntanlega felldur af því, að tollstjóri hefir talið eðlilegt að telja þessar vörur til tolls eins og úrskurðurinn greinir. En eftir upplýsingunum í erindinu til n. er tollurinn samkv. þessum úrskurði kr. 1,25 pr. lítra á þessari vöru, en verðið á framleiðsluvörunni er kr. 1,50 pr. lítra, eða nálægt því. Þetta er náttúrlega alveg óhæfilega hár tollur, og er farið fram á, að þetta verði lækkað. Þetta er náttúrlega ekkert fjárhagsatriði fyrir ríkissjóð, þar sem innflutningur á þessu er svo lítill. Í raun og veru held ég líka, þó að þessi till. - af þeim sérstöku ástæðum, að ekki var hægt að fá fund í n. - sé borin fram af minni hl. hennar einum, þá sé enginn ágreiningur um hana í n. Öðru máli er að gegna um till. undir staflið 2, sem fjallar um lækkun á tóbakstolli, að vísu ekki sérlega mikla lækkun, eða frá kr. 6,40 niður í kr. 5,20 pr. kg. Hún er borin fram af hv. þm. G.-K. og mér. Um hana var svo ýtarlega rætt, þegar þetta frv. var til 2. umr. hér í d., að ég tel ekki þurfa að orðlengja um það að þessu sinni.

Brtt. eru við frv. á þskj. 346 frá iðnn., og minnir mig, að hv. þm. Hafnf., skrifari n., eigi að hafa framsögu um þær till., þó að ég þori ekki að fullyrða neitt um það.