29.10.1934
Neðri deild: 22. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (1798)

5. mál, útflutningsgjald

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Aðalatriði þessa frv. eru þau, að útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum er fellt niður og útflutningsgjald af síld er fært niður í 1½%, til samræmis við útflutningsgjald af öðrum sjávarafurðum. Það er nokkur ástæða til þess, nú fremur en áður, að fella niður útflutningsgjaldið af landbúnaðarafurðum, þar sem þær hafa nú verið teknar til verðjöfnunar. Niðurfelling útflutningsgjaldsins styður einmitt að frekari verðjöfnun milli innlends og erlends markaðar. Ég geri ráð fyrir, að tollalækkunin af landbúnaðarafurðum nemi fyrir ríkissjóð 30 þús. kr. og af síld ca: 120 þús. kr. Þarna í móti koma svo, ef samþ. verða brtt. sem n. flytur, ca. 30 þús. kr., sem áður hefir verið endurgreitt vegna sykurs og krydds í útfluttri kryddsíld. Niðurfærsla tollteknanna mun því nema 170 þús. kr. - 30 þús. kr., eða samtals 140 þús. kr.

Í frv. hefir af vangá verið sett í 2. gr. orðið „fóðurmjöl“, og gerir n. till. um að fella það niður.

Í 3. gr. frv. er lögfesting á því, að haldið skuli áfram að taka útflutningsgjald af afla, sem fiskaður er af skipum, sem hafa rétt til að veiða í landhelgi. Þessi lögfesting breytir engu um framkvæmdina frá því, sem nú er, en er æskileg vegna þeirra réttinda, sem Danir og Færeyingar hafa til veiða hér við land. Þótti n. rétt að gera þessa breyt., til þess að enginn ágreiningur geti komið til greina um þetta atriði, eins og hefir átt sér stað.

Í 4. gr. frv. er fellt niður ákvæðið, sem sett var í þessi lög árið 1925, um að 3/4 hlutar af hinu aukna útflutningsgjaldi skuli ganga til rekstrarkostnaðar strandgæzluskipa. Þetta ákvæði er óþarft, vegna þess að ríkissjóður ber allan kostnað af strandgæzlunni. Þó að þetta ákvæði sé niður fellt, renna þessar tekjur ríkissjóðs samt sem áður til þess að bera landhelgisgæzluna uppi.

Viðvíkjandi ákvæði þessarar gr. frv., um að ½ hluti útflutningsgjaldsins skuli renna í ræktunarsjóð, er það að segja, að það má telja bundið af eldri löggjöf, að hluti þessa gjalds renni í ræktunarsjóð, þangað til framlög ríkissjóðs til hans hafa numið samtals 1 millj. kr.