29.10.1934
Neðri deild: 22. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1233 í B-deild Alþingistíðinda. (1800)

5. mál, útflutningsgjald

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það er á misskilningi byggt að álíta, að útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum sé að öllu leyti hliðstætt öðru útflutningsgjaldi, vegna þess, sem ég gat um við framsögu þessa máls, að þetta útflutningsgjald kemur aðeins við mjög lítinn hluta af landbúnaðarafurðunum, eða þær eingöngu, sem fluttar eru til útlanda. Fyrir þann hluta þeirra vara fæst lægst verð, og það er því býsna óeðlilegt að taka á sama tíma útflutningsgjald af þeim sömu vörum, sem nú hafa verið gerðar ráðstafanir til að bæta upp verð fyrir, með gjaldi af innlendri sölu þessara afurða. Í þessu er fyllsta ósamræmi, að veita þessa uppbót á útfluttu kjöti, og láta jafnframt standa ákvæði í l. um, að greitt sé útflutningsgjaldi af þessari sömu vöru. Þess vegna er hér um rökrétta leiðréttingu á ósamræmi að ræða, með niðurfellingu útflutningsgjalds af landbúnaðarafurðum, miðað við það, sem búið er að viðurkenna um verðlagið á þessum afurðum.

Viðvíkjandi því, sem sagt hefir verið um, að þetta útflutningsgjaldi og niðurfelling þess munaði litlu fyrir bændur, vil ég segja það, að það munar bændur þó nokkru, þegar til lengdar lætur, þó ekki sé meira en um 20 aur. á kindarkropp. Þetta gjald mun vera alls á ári um 50 þús. kr. á öllu landinu. Það er ekki svo lág upphæð, þegar tekið er tillit til þess, að það er ekki nema lítill hluti bænda, sem þarf að leggja fram þetta gjald.

Þó að útflutningsgjaldið af landbúnaðarafurðum verði fellt niður, þá getur það ekki með nokkurri sanngirni skoðazt næg ástæða til þess, að kröfur verði reistar um algerða niðurfellingu alls útflutningsgjalds, og stafar það af því, að hér er um þá samræmingu að ræða á löggjöfinni, sem ég nú hefi minnzt á.

Aftur á móti mælir ýmislegt með því, að útflutningsgjaldið af síldarmjöli verði lækkað til samræmis við annað útflutningsgjald. En eins og sakir standa nú, legg ég á móti þeirri breyt., vegna þess, að ástæður ríkissjóðs eru nú svo, að ég get ekki verið samþykkur því að stigið sé stærra skref um lækkun tekna hans að þessu sinni en stigið er með leiðréttingu á síldartollinum, sem gerð er með þessu frv.

Um till. frá minni hl. fjhn., um að ¼ hl. teknanna af útflutningsgjaldinu skuli varið til rekstrarkostnaðar strandgæzluskipanna, vil ég taka undir það, sem hv. þm. V.-Ísf. sagði um þetta, að það skiptir ekki miklu máli í þessu efni, hvort þetta er sett inn í l. eða ekki, því að árlega er varið miklu meira fé úr ríkissjóði í þessu skyni. Ég býst við því, að Alþ. hafi eins góða aðstöðu til að koma í veg fyrir, að sú fjárgreiðsla verði lækkuð í fjárl., þó að þetta ákvæði verði fellt niður, eins og þó að ákveðið sé, að einhverjum föstum tekjustofni skuli varið til strandgæzlunnar, sem þó ekki fullnægir, og verður því að bæta við með öðrum framlögum úr ríkissjóði. Það er enginn munur á því, hvort fjárlagafrv. í hvert sinn ákveður framlagið til strandgæzlunnar allt, eða þó að nokkur hluti þess sé lögbundinn með þessum ákvæðum, og fjárl.frv. ákveður svo nauðsynlega viðbót eftir ástæðum á hverjum tíma.

Ég legg á móti því, að fellt verði niður það tillag, sem ræktunarsjóður hefir fengið af útflutningsgjaldinu. Það er alls ekki rétt, sem hv. þm. G.-K. hélt fram, að ræktunarsjóð muni svo sem ekkert um þetta gjald. Það munar talsverðu fyrir sjóðinn að fá þetta gjald, með sérstöku tilliti til þess, að það vakir fyrir mönnum, að hægt sé að lækka vexti við þennan sjóð, sem nú eru 6%, og það væri mikils virði fyrir sjóðinn, ef það væri hægt.

Þá kem ég að þeim blæstri, sem hv. þm. G.-K. var með út af villum, sem væru í frv. mínum, sem komið hefðu fram hér á þinginu. Ég skal viðurkenna, að það hafa komið fram nokkrar smávillur í þessu frv., sem hafa slæðzt inn við prófarkarlestur, og skal ég taka á mig minn skerf af þeim ásökunum, sem komið hafa um þau smáatriði. Þessar ásakanir hv. þm. sýna aðeins löngun hjá honum til að belgja sig út og kasta steinum að öðrum, og sú löngun hans hefir hlaupið með hann í gönur. Hann heldur því fram, að í frv. minn hafi verið afnumið af vangá útflutningsgjald af fiski, sem er veiddur utan landhelgi og fluttur til útlanda. Ég skal nú færa sönnur á, að þessi ummæli eru algerlega gripin úr lausu lofti og eingöngu fram komin af þeirri fýsn, sem hv. þm. hefir til steinkasts á andstæðinga sína.

Gildandi 1. um útflutningsgjald eru frá 1921, og segir 1. gr. svo, með leyfi hæstv. forseta: „Af öllum íslenzkum afurðum, sem fluttar eru til útlanda nema síld, fóðurmjöli, fóðurkökum og áburðarefnum, skal greiða í ríkissjóð 1½% gjald af verði afurðanna“.

4. gr. þessara 1. segir svo:

„Til afurða þeirra, er í l. gr. getur, telst fiskur, sem verkaður er eða fluttur milli skipa í landhelgi eða á höfnum inni, þótt veiddur sé utan landhelgi“.

Grunnhygginn maður - og mér er nær að halda, að þess hafi gætt hjá hv. þm. G.-K. - gæti haldið, að í þessari gr. fælist undantekning fyrir þann fisk, sem veiddur er utan landhelgi, en ekki fluttur á milli skipa í landhelgi eða á höfnum inni. En þetta er eigi svo. Eftir þessum l. frá 1921 hefir verið dæmt eins og hann tók fram, og þessi fiskur verið úrskurðaður gjaldskyldur samkv. 1. gr. þessara l. M. ö. m., að fiskur, sem veiddur er af togurum utan landhelgi og fluttur út, falli undir íslenzkar afurðir, og sé skylt að greiða útflutningsgjald af honum. Fyrir þessu hefir þá fengizt dómsúrskurður. En í 3. gr. frv. eru sömu ákvæði og eru í 4. gr. gildandi l. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Til afurða þeirra, er 1. gr. getur um, telst afli af skipum, sem hafa rétt til að fiska í landhelgi og gera það að einhverju leyti, eða verka hann í landhelgi, þótt eigi sé fluttur í land. Ennfremur nær gjaldið til afla, sem veiddur er utan landhelgi, ef hann er saltaður, verkaður eða fluttur á milli skipa á höfnum inni eða í landhelgi“.

M. ö. o. þetta er alveg það sama og ákveðið er í l. frá 1921, og þau l. hafa ekki megnað að undanþiggja þennan togarafisk frá útflutningsgjaldi. Í frv. er því nákvæmlega eins gengið frá þessu og gert er í gildandi l., og er samið í samráði við lögfræðing fjmrn. Hitt má vel vera, að þetta verði skýrara orðað eins og meiri hl. n. vill urða það, og sé ég ekkert því til fyrirstöðu, að brtt. meiri hl. verði samþ., þó að hún sé óþörf.

Hinsvegar viðurkenni ég, að það er af ógáti, þar sem fóðurmjöl er tekið upp í frv. En það, sem segir í nál. minni hl., stafar ekki af vangá, heldur hinu, að þessir hv. þm. skildu ekki þau ákvæði, sem þeir voru að fjalla um.