29.10.1934
Neðri deild: 22. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1238 í B-deild Alþingistíðinda. (1802)

5. mál, útflutningsgjald

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson) Ég þarf litlu að svara hv. frsm. minni hl., því að bæði svaraði ég honum að nokkru leyti í framsöguræðu og svo hefir hæstv. fjmrh. þegar andmælt ýmsu.

Hv. þm. G.-K. segir, eins og satt er, að það skorti frambærileg rök fyrir því, að hafa mismunandi útflutningsgjald á síldarmjöli og öðrum ísl. afurðum. En sannleikurinn er sá, að það skortir yfirleitt rök fyrir útflutningsgjöldum. Það er ekki skynsamlegt að leggja útflutningsgjald á nokkra vöruteg. Einasta ástæðan fyrir útflutningsgjaldi er sú, að ríkissjóður er tekjuþurfi. Ég hefði ekkert á móti því, að útflutningsgjaldið væri látið falla niður og um leið aukið álag á aðra tekjustofna, sem gætu komið í staðinn. En ef þetta gjald yrði fellt niður á þessu þingi, þá yrði erfitt að finna tekjustofn, sem gæti komið í staðinn. Hér má því ekki fara lengra en fjárhagur ríkisins leyfir, og ég hygg, að með þessu frv. sé gengið eins langt og fært er eins og nú standa sakir. Útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum kemur þungt niður á bændum, og það er rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði, að þegar er verið að vinna að verðjöfnuði á landbúnaðarafurðum, þá stefnir það í sömu átt, svo að þetta getur skapað verðjöfnuð fyrir bændur, hvar sem þeir búa og hvernig sem kjötið er verkað. Nú er því aukin ástæða til að afnema útflutningsgjaldið, þar sem þingið hefir nú komið inn á þá braut að skapa verðjöfnuð.

Það er ekkert beint samband milli þess að afnema styrkinn til ræktunarsjóðsins og að fella niður útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum. Þessi styrkur var á sinni tíð m. a. settur vegna þess, að „aflaklærnar“ við sjávarsíðuna vildu styrkja landbúnaðinn og þau rök, sem þá mæltu með því, gilda enn. Ræktunarsjóðurinn hefir mikið gagn af auknum framlögum, og það er honum nauðsynlegt til þess að geta í framtíðinni lækkað vextina niður úr 6%.

Ég get ekki tekið undir það, að þetta frv. sé illa undirbúið. Í frv. er aðeins ein smávilla, sem hefir slæðzt inn af vangá. Það er ótvírætt eins og hæstv. fjmrh. sagði, að samkv. gildandi l. og. samkv. dómi, þá er enginn vafi um, að ísfiskurinn falli undir útflutningsgjald samkv. frv. eins og það liggur fyrir.

Till., sem fram hefir komið um útflutningsgjald af beinum og hausum, hefir verið tekin aftur til 3. umr. N. hefir ekki tekið ákvörðun um þá till. enn.