29.10.1934
Neðri deild: 22. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1243 í B-deild Alþingistíðinda. (1808)

5. mál, útflutningsgjald

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. þm. G.-K. hefir borið fram þá ósk, að meiri hl. fjhn. taki aftur brtt. sína við 3. gr. frv., en ég get ekki því miður orðið við þeirri bón. Það má ganga út frá því vísu, eftir þeim skilningi, sem hann hefir á ákvæðum gildandi l. og frv., að ef brtt. verður ekki samþ., leiði það til málaferla og hæstaréttarúrskurðar út af innheimtu útflutningsgjalds af togarafiski, sem veiddur er utan landhelgi, en slík óþörf málaferli leiða af sér kostnað, sem betra er að losna við. Hitt er ég sannfærður um, að 1. gr. l. frá 1921 nægir til þess, að ríkissjóði yrði eftir henni einni saman dæmdur þessi tollur, en það er alveg óþarfi að gera rekistefnu út úr þessu máli, úr því allir eru sammála um, að brtt. sé til að gera ótvíræða gildandi framkvæmd.