29.10.1934
Neðri deild: 22. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1244 í B-deild Alþingistíðinda. (1810)

5. mál, útflutningsgjald

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Út af þeim ummælum, sem féllu áðan hjá hv. þm. Vestm. um það, að úr því að væri fellt niður útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum, væri sjálfsagt að fella það einnig niður af sjávarafurðum, vildi ég segja nokkur orð. Ég sé, að þetta álit hans byggist á nokkrum misskilningi, vegna þess, að þó greiddar verði verðuppbætur á kjöti, eins og ætlazt er til, þá verður það kjöt, sem selt er á erlendum markaði, aldrei eins hátt í verði og það kjöt, sem selt er á innlendum markaði, þannig að útflutningsgjaldið kæmi alltaf á þann hluta kjötframleiðslunnar, sem við lakastan markað á að búa. Þess vegna eru þau rök, sem komið hafa fram frá meiri hl. n. og mér fyrir niðurfellingu útflutningsgjalds af landbúnaðarafurðum, alveg skýlaus, þau, að óviðeigandi sé að taka gjald af þeirri vöru, sem lægst verð er á, en ekki af hinum hlutanum, sem hærra verð fæst fyrir. Annars verð ég að segja það, að töluverður munur er að greiða útflutningsgjald af þeim vörum, sem eru í svo litlu verði, að það þarf að greiða á þeim verðuppbót, eða að greiða þetta gjald af vörum, sem seljast fyrir sæmilegt verð, eins og yfirleitt er með sjávarafurðir. Það má náttúrlega segja, að útflutningstollur sé yfirleitt ekki sanngjarn, en vilji menn afnema hann, þá verður að finna eitthvað annað jafngott í staðinn. Ef hægt er að finna annan tekjustofn í staðinn, sem er betri en útflutningstollurinn, þá má létta honum af öllum útflutningsvörum landsmanna, en því miður er ekki því að heilsa, að það sé hægt. Og ég vil skjóta því fram, að hv. Sjálfstæðisfl. hefir ekki tekið þannig í þau tekjuöflunarfrv., sem stj. hefir lagt fram, að fært sé að höggva skarð í núv. tekjur ríkissjóðs. Eins og á stendur með hag ríkissjóðs er yfirleitt ekki hægt að halda því fram, að nokkurn af tekjustofnum hans eigi að lækka, nema með því að finna jafnframt leið til að jafna hallann, sem af lækkuninni leiðir, það er alltaf hlið á málinu, sem ekki er hægt að komast framhjá.

Ég ætla ekki að karpa við hv. þm. G.-K. um það, sem hann var að endurtaka í síðustu ræðu sinni. Ég segi bara það, að þó till. meiri hl. n. væri ekki samþ., þá er engin hætta fyrir ríkissjóð, en hinsvegar sé ég ekkert á móti því að samþ. till., svo orðalagið verði skýrara. Það er alveg ljóst, að 3. gr. frv. er shlj. 4. gr. gildandi l. og eftir l. er fiskur veiddur utan landhelgi, þó aldrei komi inn fyrir landhelgislínuna, alls ekki undanþeginn útflutningsgjaldi, eins og dómstólar hafa líka úrskurðað, að ekki væri.