29.10.1934
Neðri deild: 22. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1245 í B-deild Alþingistíðinda. (1811)

5. mál, útflutningsgjald

Jónas Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég ætla ekki að lengja umr. með því að tala um brtt. mína meira að þessu sinni. Það hefir ekki nema einn hv. þm. sýnt henni andstöðu, og ég hefi eftir framkomnum tilmælum ákveðið að taka hana aftur til 3. umr., til þess að gefa hv. þm. kost á að athuga málið betur.

Viðvíkjandi því, sem þessi eini hv. þm. hefir sagt, skal ég taka það fram, að það getur vel verið, að till. mín sé ekki réttmæt frá sjónarmiði útgerðarmanna, en það hefir nú ekki verið um það hugsað undanfarið, þegar verndartollar hafa verið settir til þess að hjálpa innlendum iðnaði, t. d. smjörlíkisgerðinni, hvaða áhrif þeir hefðu fyrir almenna borgara, heldur hefir verið um það hugsað að vernda iðnaðinn og skaffa fólkinu atvinnu, hjálpa iðnaðinum til að komast á laggirnar. Úr því hefir reynslan sýnt, að innlend iðnaðarframleiðsla hefir ekki orðið dýrari en hin erlenda. En hvað verður um tekjur landsmanna af fiskimjölsiðnaðinum, ef nú á að leggja hann í rústir? Halda menn, að þær komi aftur frá útlendingum, sem kaupa af okkur fiskúrganginn til útflutnings? Áreiðanlega ekki, útlendingarnir segja: „Þetta borgum við fyrir vöruna, og þið ráðið, hvort þið seljið hana, við borgum ekki meira“.

Hv. 3. landsk. sagði, að kaup verkamanna væri ekki nema 80 aur. á klst. Ég álít, að við séum nú báðir svo vel að okkur í kaupgjaldsmálum, að við vitum það, að kaup verkamanna í kaupstöðum og sjávarþorpum er ekki undir kr. 1.10 á klst. Ég segi ekki, að það geti ekki verið, að í einstöku verksmiðjum sé það eitthvað lægra, en yfirleitt er það þetta. - Hann sagði, að ég hefði sagt, að allur sá vinnukraftur, sem notaður er við þessar verksmiðjur, tapaðist úr landinu, ef þær yrðu lagðar niður. Ég sagði, að sá vinnukraftur, sem verksmiðjurnar notuðu, yrði ekki borgaður með því fé, sem tapaðist á því að leggja þær niður.

Þá talaði hv. þm. um, að eitthvað væri bogið við það, að ísl. verksmiðjurnar gætu ekki komizt að jafngóðum kjörum með flutning á fiskiúrgangi eins og erlendir kaupendur, en þetta er mjög auðskilið. Útlendu kaupendurnir fá fiskúrganginn fluttan með stórum kolaskipum, sem koma fullfermd upp til landsins og mundu sigla tóm út aftur. Þau flytja hingað þetta 800 til 1000 tonn af kolum og fá fyrir það 12 til 14 þús. kr., en svo taka þau til baka 80 til 100 tonn af fiskúrgangi og fá fyrir það 2500 til 3000 kr. Það verður miklu dýrara fyrir ísl. verksmiðjurnar að flytja til sín þessa vöru, með því að fá skip hér í Rvík til að flytja vöruna austur um land, heldur en fyrir útlenda kaupendur að flytja með þeim skipum, sem eiga ferðina hvort sem er. Ég vil því mælast til þess, að hv. þm. í báðum d. vilji í alvöru athuga þetta mál gaumgæfilega. Hér er um að ræða, hvort á að hjálpa atvinnuvegi, sem á í vök að verjast á því augnabliki, sem hann stendur í úrslitabaráttu við harðvítuga keppinauta.