29.10.1934
Neðri deild: 22. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1247 í B-deild Alþingistíðinda. (1813)

5. mál, útflutningsgjald

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors) [óyfirl.]:

Ég held, að mér hafi nú tekizt að sjá leið til þess að opna augu andstæðinga minna í þessu deilumáli, svo það verði alveg augljóst, að þeir hafi á röngu að standa, en ég á réttu. Ég ætla þá að beina orðum mínum til hv. frsm. meiri hl. n., í trausti þess, að hann taki afleiðingum af þeim rétta skilningi. - 4. gr. l. frá 1921 hljóðar þannig: „Til afurða þeirra, er í 1. gr. getur, telst fiskur, sem verkaður er eða fluttur milli skilta í landhelgi eða á höfnum inni, þótt veiddur sé utan landhelgi“.

Ef nú þessi 4. gr. hljóðaði þannig: „Til afurða, þeirra er í 1. gr. getur, telst fiskur, þótt veiddur sé utan landhelgi, ef hann er fluttur milli skipa í landhelgi eða á höfnum inni“, - heldur þá hv. frsm., að hún næði yfir fisk, sem veiddur er utan landhelgi og aldrei kemur í landhelgi? En ef gr. er orðuð svona, er hún að efni til eins og 3. gr. þessa frv., sem hér liggur fyrir og hljóðar svo: „Til afurða þeirra, er í 1. gr. getur, telst afli af skipum, sem hafa rétt til þess að fiska í landhelgi og gera það að einhverju leyti, eða verka hann í landhelgi, þótt eigi sé fluttur í land. Ennfremur nær gjaldið til afla, sem veiddur er utan landhelgi, ef hann er saltaður, verkaður eða fluttur á milli skipa á höfnum inni eða í landhelgi„ - Nú finnst mér alveg augljóst, að ég hafi á réttu að standa.

Við hæstv. ráðh. tala ég ekki; þó að ég geti gert mér vonir um, að hann skilji þetta, þá geri ég mér engar vonir um, að hann taki afleiðingunum af þeim skilningi.