29.10.1934
Neðri deild: 22. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1248 í B-deild Alþingistíðinda. (1814)

5. mál, útflutningsgjald

Páll Þorbjörnsson:

Hv. 6. landsk. þm. beindi því til mín, að mér mundi vera eins kunnugt og sér, að hvergi í kaupstöðum hér á landi væri kaupgjaldið 80 aur. eða lægra. Ég vil þá beina því til hans, að honum hlýtur að vera eins vel kunnugt um það og mér, að ennþá hefir ekki verið sett fast kaupgjald neinstaðar í verksmiðjum. Það er aðeins nú fyrir nokkrum dögum, að verksmiðjufólk hér í Rvík hefir stofnað vísi til samtaka með sér, til þess að halda uppi kaupgjaldinu. Mér er kunnugt um það, að a. m. k. ein, ef ekki fleiri verksmiðjur hér á landi, sem hafa fiskimjölsiðnað að starfrækslu, hafa ekki greitt tímakaup, heldur mánaðarkaup, og það svo lágt, að tímakaupið varð raunverulega ekki nema 80 aur. eða jafnvel lægra.

Þá tók hv. þm. það fram, að Norðmenn hefðu sérstaka aðstöðu til þess að flytja bein út ódýrt, af því að þeir fengju til þess nokkuð stór skip, enn innlendu verksmiðjurnar yrðu aftur á móti að fá lítil skip, 50-60 tonna, til þess að smala þessu saman. Ég veit ekki, í hverju þessi hagsýni liggur hjá ísl. verksmiðjunum, að nota þessi litlu skip, því ef Norðmenn geta notað stór skip, ættu Íslendingar að geta það líka, þar eð báðir aðilar verða að sæta sömu hafnaraðstöðu. Hinsvegar munu Norðmenn nota lítil skip, 50-60 tonna, til þess að færa beinin saman frá smæstu höfnunum.