01.11.1934
Neðri deild: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1250 í B-deild Alþingistíðinda. (1827)

5. mál, útflutningsgjald

Guðbrandur Ísberg:

Ég hefi leyft mér að bera fram brtt. við frv. það, er fyrir liggur, og er hana að finna á þskj. 265. Þar er lagt til, að gjald af öllum útfluttum vörum skuli vera 1 af verði þeirra, í stað 1½%, sem nú er í frv., og er ætlazt til, að þetta gjald sé tekið af landbúnaðarafurðum engu síður en sjávarafurðum. Jafnframt legg ég til, að á útflutningsvörur sjávarútvegsins komi aukagjald, er nemi ½% af verði þeirra, og skuli það renna til þess að standast straum af rekstri strandgæzluskipanna. Menn kunna nú að segja, að með þessu standi allt í stað hvað útflutningsgjaldið af sjávarafurðum áhrærir, en þó er þarna talsverð breyt. á gerð. Það hafa komið fram raddir í þá átt hér í hv. d., að sjávarútvegurinn ætti að standa straum af landhelgisgæzlunni, þar sem henni væri eingöngu haldið uppi fyrir þann atvinnuveg. Ég viðurkenni sanngirni þessara ummæla, og því hefi ég tekið þetta atriði upp í brtt. mína. Ég tek það fram, að ég teldi æskilegt að fella niður útflutningsgjaldið af öllum vörum, og að því beri að stefna smátt og smátt, eftir því sem hagur ríkissjóðs leyfir. En ég geri ekki ráð fyrir, að hugur ríkissjóðs þoli slíkt nú, og því hefi ég ekki farið lengra. - Því hefir verið haldið hér fram, að sanngirni mæli með því að fella niður útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum, án þess að gera sjávarafurðunum sömu skil. Ég get ekki með bezta vilja séð, að sú sanngirni sé til. Ég er hreint ekki viss um það, að landbúnaðurinn sé nokkuð verr settur en sjávarútvegurinn nú, eftir þá miklu hjálp, sem Alþ. hefir veitt bændum. Og nú á þessu þingi koma til staðfestingar bráðabirgðal., sem lögfesta stórum bætta aðstöðu bænda með aðalframleiðsluvöru sína, kjötið, og eiga þeir að fá verðuppbót á það kjöt, sem út er flutt. Ef útflutningsgjaldið af landbúnaðarafurðum verður það, sem ég hefi lagt til, 1%, nemur það ½ eyri á hvert kg. af kjöti, miðað við 65 aur. söluverð út úr landinn. Þetta mun láta nærri að vera, 8 aur. á dilksskrokkinn. Ég skil ekki í því, að menn geti talað um það í alvöru, að slíkt muni landbúnaðinn nokkru. Á vetrarþinginu 1933 var líka talað um þetta, og margir töldu það þá hið mesta sanngirnismál að afnema gjaldið. En á því þingi stóðu þingbændur upp, hver af öðrum, og lýstu því yfir, að bændastéttina munaði ekkert um þetta gjald, og töldu það ver, að ganga nærri metnaði bænda að veita þeim algerða sérstöðu í þessu efni. Ég var þessum bændafulltrúum algerlega sammála, og er það enn. Ég vil ekki, að ísl. bændur verði nein ölmusustétt í þjóðfélaginu; verði vandir á undanþágur frá almennum gjöldum, er aðrir landsmenn verða að greiða, eða á annan hátt sköpuð sérstaða í þjóðfélaginu, þeim til hagsbóta, er jafnframt hlyti að ganga út yfir og skerða sjálfsvirðingu þeirra að miklum mun. Ég veit það vel, að bændur eiga nú við mikla erfiðleika að stríða, en ég ber þá trú í brjósti, að ísl. landbúnaðurinn eigi eftir að rétta sig úr kútnum. Og ég sé enga sanngirni í að léttu þessu gjaldi af landbúnaðarfurðum meðan ekki er hægt að sýna fram á, að hann þurfi þess frekar en sjávarútvegurinn, sem nú er kominn á heljar þrömina. Eigi að fara inn á þá braut, að mismuna atvinnuvegunum, er erfitt að sjá, hvar staðar skal nema. Við skulum taka til dæmis innflutningstollan, tolla af kaffi og sykri. Því þá ekki t. d. að afnema þessa tolla af þeim hluta þessara vara, sem fara til bænda? Ég sé engan eðlismun á því og ráðstöfunum þeim, sem hér er verið að gera, heldur aðeins stigmun. Tap ríkissjóðs yrði meira og tilfinnanlegra, en þetta er beint áframhald á braut þeirri, sem hér er farið inn á. Ég endurtek það, sem ég sagði áðan, að það ber að stefna að því marki, að afnema útflutningsgjald af öllum framleiðsluvörum landsmanna. En það verður að gera smátt og smátt, og engin ástæða er til þess að taka landbúnaðarafurðirnar út úr, og þá sízt nú, þegar verið er að gera ráðstafanir til að bændur fái verðuppbót fyrir útflutt kjöt sitt, sem er margfalt hærri en þetta útflutningsgjald. Og þetta verðjöfnunargjald lendir að miklu leyti á bak fátækra sjómanna í kaupstöðum og kauptúnum landsins. Og eigi að halda áfram að mismuna bændum og þyngja byrðarnar á herðum sjávarútvegsmanna og sjómanna, er óvíst hver endirinn verður.

Við 2. umr. kom fram brtt. þess efnis, að setja síldar- og fóðurmjöl í sama flokk og aðrar sjávarútvegsafurðir, en hún var felld. Nú liggur fyrir brtt. á þskj. 89 um að fella niður þetta hærra gjald, 1 kr. af l00 kg., hvað fiskimjölið snertir. Ég er fylgjandi þeirri breyt. En ég heyrði enga ástæðu færða fram fyrir því, að þetta ætti ekki einnig að ná til síldarmjölsins. Tæplega mun það vera vegna þess, að varan sé í svo háu verði. Það er viðurkennt, að þeir, sem vinna að framleiðslu þessarar vöru, fá svo lítið kaup, að þeir munu oft og tíðum vera lítið meira en matvinnungar. Ég býst við, að það þýði ekki að bera fram brtt. um þetta, og er raunar ekki hægt, af því að búið er að fella við 2. umr. að skipa síldarmjölinu í flokk með öðrum sjávarafurðum. En ég leyfi mér að bera fram skrifl. brtt., sem ég afhendi hæstv. forseta. þess efnis, að í stað 1 kr. af 100 kg. síldarmjöls komi 50 aur., og er þetta nokkuð í áttina.

Þá er hér á þskj. 290 brtt. við brtt. á þskj. 89 frá mér og hv. 2. þm. N.-M. o. fl. þess efnis, að gjaldið verði 3 kr. af hverjum 100 kg. af fiskiúrgangi, hausum og beinum, þurrkuðum og óunnum, en á þskj. 89 er lagt til, að það verði 4 kr. Þetta útflutningsgjald á mikinn rétt á sér, því að hér er um verndun innlends iðnaðar að ræða. Síðastl. ár voru flutt til Noregs ca. 2000 tonn af þurrkuðum hausum og beinum. Miðað við verðlag 1932 samkv. verzlunarskýrslum, virðist verðmunur þessarar vöru, unninnar og óunninnar, nema 150 kr. á tonn. Miðað við þetta mundi því útflutningur þessarar hrávöru nema 300 þús. kr. tapi, og megum við ekki við því að missa það fé út úr landinu. En Íslendingar ættu að geta fengið sama verð fyrir mjölið og Norðmenn. Ég tel rétt að stefna að því að gera þessa framleiðslu innlenda, og þetta er handhægasta leiðin. Það má að vísu segja, að hér sé gengið nokkuð nærri þeim, sem selja þessa hrávöru, en það virðist ekki hægt að komast hjá því í bili. meðan verið er að koma fiskimjölsvinnslunni á ísl. hendur.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta meira, en ég vænti þess, að hv. d. taki þessum till. vel, því að þær eru byggðar á fyllstu sanngirni.