01.11.1934
Neðri deild: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1254 í B-deild Alþingistíðinda. (1834)

5. mál, útflutningsgjald

Páll Þorbjörnsson:

Á þskj. 290 er brtt. við brtt. á þskj. 89 um að útflutningsgjald af þurrkuðum fiskúrgangi, hausum og beinum verði 3 kr. af hverjum 100 kg., en á þskj. 89 er gert ráð fyrir 4 kr. Þessi brtt. felur það í sér, að útflutningsgjaldið hækki um 200% frá því, sem það er nú. Ég skal fúslega játa, að það er góðra gjalda vert að vilja skapa innlendum iðnaði aðstöðu til þess að hann geti orðið samkeppnisfær við erlendan iðnað. En hér má ekki ganga svo langt, að úr verði bein árás á atvinnu og afkomu sjómannanna. Þessi brtt. hefir það í för með sér, að hráefnið, sem er framleiðsla sjómannanna, lækkar mikið í verði. Ég hefi því lagt fram aðra brtt. um að gjaldið hækki um 100%, og tel ég það nægilega vernd fyrir þá iðngrein, sem hér er um að ræða. Hv. 6. landsk. gat um einhverjar líkur til þess, að tekjur ríkissjóðs af þessu gjaldi hækkuðu úr 20 þús. kr. upp í 80 þús. kr., ef till. hans á þskj. 89 yrði samþ. Ég er ekki trúaður á, að þetta verði svo. En ef Norðmenn kaupa þessa vöru hér eftir sem áður, er yfirlýst, að verðið á þessu hráefni hér hlítur að lækka að sama skapi og verður því þessi tekjuauki ríkissjóðs tekinn beint af sjávarútveginum, og samrýmist það illa þeirri viðleitni frá hendi þingsins, sem þegar er hafin, að létta algerlega útflutningsgjaldi af sjávarafurðum. Ég skora því á hv. d. að samþ. alls ekki meiri hækkun en 100% og sýnist það ærið nóg.