01.11.1934
Neðri deild: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1259 í B-deild Alþingistíðinda. (1844)

5. mál, útflutningsgjald

Jón Pálmason [óyfirl.]:

Ég hefi ekki blandað mér í þessar umr. Enda þótt ekki sé rétt að lengja umr. mikið héðan af, get ég þó ekki stillt mig um að segja fáein orð um málið.

Frv. það, sem liggur hér fyrir, brtt. við það og umr. um það, láta greinilega í té sönnur fyrir þeim sannleika, hversu mikið óráð ríkir í því, sem nefnt er tekjuöflun ríkissjóðs.

Hv. þm. V.-Ísf. tók fram við 2. umr. þessa máls, - en það er hann, sem hefir haft mest áhrif undanfarin ár á það, hvernig gjöld hafa verið tekin í ríkissjóð - að engin sanngirni mælti með því, að tekið væri útflutningsgjald af ísl. afurðum. Þetta er rétt. Það hefir verið svo um mörg undanfarin ár, að af þeim sköttum, sem borgaðir hafa verið í ríkissjóðinn, hefir enginn verið eins ósanngjarn og að taka útflutningsgjald af ísl. framleiðsluvörum.

Það er rétt hvað landbúnaðinn áhrærir, að þetta gjald er svo lágt, að litlu munar fyrir einstaklinginn. En það er samræmið í þessu, sem mér finnst svo hlægilegt. Um leið og verið er t. d. að veita styrk til landbúnaðarins í kreppulánum og á annan hátt, og fram kemur jafnvel frv. í þinginu, sem felur í sér uppbót, sem ríkissjóður skal greiða fyrir útflutt kjöt, þá er jafnframt tekið útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum.

En það er í raun og veru sama að segja um sjávarútveginn. Það, sem hefir stuðlað að því á síðari árum, að hærra gjald hefir verið tekið af útfluttum sjávarútflutningsvörum en af landbúnaðarafurðum, byggist á því, að sjávarútvegurinn hefir verið arðsamastur atvinnuveganna á undanförnum árum, en landbúnaðurinn hefir átt í kröggum og farið sí og æ aftur. En þegar svipaðar horfur eru um framtíð sjávarútvegsins og landbúnaðarins, því að það hefir verið gengið svo hart að sjávarútveginum með gjöld til sveitar- og bæjarfél., að hann getur ekki risið undir því, þá er augljóst, að það má ekki taka gjald af útfluttum sjávarafurðum.

Menn segja, að einu rökin fyrir því að taka þetta gjald, sé þörf ríkissjóðs. Það er líka það eina, sem um getur verið að ræða í þessu efni. Ég vil bara segja það, að aðflutningstollar eru a. m. k. sanngjarnari en gjald af framleiðslu, sem öll þjóðfélagsbyggingin hvílir á.

Ég skal ekki fara út í þær brtt., sem hér liggja fyrir, en ég vil þó segja það, að mér finnst vera gildar ástæður til þess, að allir hv. þm., án tillits til flokka, beiti sér fyrir því, að einhverri lagfæringu sé komið á þetta í þá átt, að ekki verði áfram teknir slíkir skattar sem þetta útflutningsgjald er. Ef halda á því áfram að taka þessa skatta í ríkissjóð, þá er það neyðarúrræði og sönnun þess, að Alþ. getur ekki tekið fasta stefnu í þessu máli og komið á fastara skipulagi í þessu efni en verið hefir undanfarin ár. Árlega er verið að framlengja ýmsa skatta, en það er í rauninni einungis formsatriði, því að margir þessir skattar munu eiga að halda áfram.

Hv. þm. Ísaf. sagði áðan, að sjálfstæðismenn hefðu þau undanfarin ár, sem þeir hefðu haft meirihlutaaðstöðu, sett mjög hátt útflutningsgjald á síld. Ég vil aðeins benda þessum hv. þm. á það, að Sjálfstæðisfl. hefir verið í minni hl. 7 undanfarin ár, og ber því sízt að ásaka hann fyrir það, að tollur sá, sem hér um ræðir, hefir ekki verið lækkaður. Þess vegna er þessi ásökun með öllu óréttmæt.

Ég skal ekki fara um þetta fleiri orðum. Ég býst við því, að þetta frv. með brtt. verði afgr., og gjaldið verði látið haldast. Það er því ekki fleira um þetta að segja en ég hefi þegar sagt.

En seinna kemur það til athugunar, hvernig fara á með frv. um skuldaskilasjóð sjávarútvegsmanna, sem komið hefir hér fram í þessari hv. d.